20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekki ástæðu til að bæta mörgum orðum við það, sem ég áður sagði, er ég gerði grein fyrir þeim ástæðum, er því eru valdandi, að meiri hl. allshn. leggur með þessu frv. Ég vil aðeins gera stutta aths. við ræðu hv. frsm. minni hl. — Hv. frsm. virðist ekki hafa réttan skilning á 2. gr. frv., því að hún setur það að skilyrði fyrir því, að ráðh. megi beita heimildinni, að ekki hafi náðst meiri hl. bæjarfulltrúa fyrir kosningu bæjarstjóra, þannig að hann sé flokkslega og málefnalega í minni hl. í bæjarstj. og verði jafnvel af þeim ástæðum að framkvæma ráðstafanir, sem honum eru þvert um geð og á móti hans skoðun. Og það er einmitt úr þessu, sem við viljum bæta. Það er að vísu ekki víst, að nýjar kosningar breyti hlutföllum flokkanna, en svo má þó vel fara, að einhver flokkanna fái hreinan meiri hl., þótt hitt geti vitaskuld líka orðið, að sama ástand endurtaki sig, og þá verður við það að sitja. — Þetta var það, sem vakti fyrir meiri hl. allshn. með því að mæla með samþykkt frv. Er það síður en svo, að atvmrh. sé gefið nokkurt einræði í þessum efnum, því að hann er bundinn við það, að ekki hafi fengizt meiri hl. fyrir kosningu bæjarstjórans og að hann sé í andstöðu við meiri hl. bæjarstj. Það er því ekki hættulegt vald, sem frv. veitir atvmrh., þar sem það er bundið þessari takmörkun.