02.10.1934
Sameinað þing: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Kosning til efrideildar

Pétur Magnússon:

Ég get ekki annað séð en að þetta sé á algerðum misskilningi byggt. Hver flokkur hefir rétt til að setja á lista sinn eins mörg nöfn og honum sýnist. Ef ætti að nota hlutfallskosningu til þess að koma glundroða á flokkaskipun deildanna, þá er hægt að grípa til þess ráðs að setja menn úr öðrum flokkum inn á sinn eiginn lista. Ég get þess vegna ekki séð, að af þessu stafi nein hætta, ef fleiri menn eru kosnir óhlutbundinni kosningu til Ed., af þeirri ástæðu, að ef flokkur setur ekki nægilega mörg nöfn á lista, þá hefir hann fallið frá þeim rétti að fá hlutfallslega jafnmarga menn kosna til Ed. og aðrir. Mér skilst þarna vera að ræða um réttindi, en ekki skyldu.