20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Það fer fjarri því, að ég hafi gleymt upphafi 2. gr. Ég tek það alltaf með í reikninginn, en ég sagði í gær, að það þyrfti ekki alltaf að fara saman, að bæjarstjóri væri kosinn af meiri hl. bæjarstj. og að hann hefði alltaf þann meiri hl. að baki sér. Bæjarstjóri, sem kosinn er af meiri hl., getur lent í andstöðu við meiri hl. bæjarstj. Tveir eða fleiri flokkar geta staðið að kosningu bæjarstjóra, en svo ef einhverjum, sem kusu hann, finnst hann vinna gegn pólitískum hagsmunum síns flokks, þá geta þeir snúizt á móti bæjarstjóra og hann við það lent í minni hl. Eða vill hv. þm. skilja frv. svo, að ef bæjarstjóri er kosinn af meiri hl. og þó sá meiri hl. snúist á móti honum þegar eftir kosningar, þá sé ráðh. ekki heimilt að láta kjósa aftur? (BJ: Vitanlega ekki). Hver er þá tilgangur laganna, ef hann er ekki sá, að girða fyrir það, að bæjarstjóri starfi í andstöðu við meiri hl. bæjarstj.? Nú hefir bæjarstjóri verið kosinn með 5 atkv. af 9 í bæjarstj., en einn af þessum 5 fulltrúum, sem kusu hann, tilheyrir öðrum pólitískum flokki en bæjarstjórans og snýst á móti bæjarstjóra, þegar frá líður kosningum. Er þá stjórn bæjarmálanna nokkuð betur komið, þó bæjarstjóri hafi upphaflega verið kosinn af meiri hl., fyrst hann á annað borð er orðinn í minni hl. í bæjarstj.? Það er því aðalatriðið, að bæjarstjóri starfi í samræmi við vilja meiri hl. bæjarstj., en ekki hitt, hvort hann er kosinn af meiri eða minni hl. í bæjarstj. Við skulum nú segja, að kommúnistinn á Ísafirði hefði kosið Jón Auðun Jónsson fyrir bæjarstjóra, en síðan snúizt á móti honum. Var þá ekki ástandið á Ísafirði alveg það sama og það er nú? Vissulega. En hv. þm. segir, að undir þeim kringumstæðum ætti ekki að kjósa aftur. Þetta mál er ekkert annað en ein hugsunarvilla frá byrjun til enda. Aðalatriðið hefði átt að vera það, að bæjarstjóri stjórni jafnan í samræmi við meiri hl. bæjarstj., en það er ekki stefna frv., segir hv. þm.