27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Auðunn Jónsson:

Það má vera, að hv. 4. landsk. vilji komast hjá því að leita álits bæjarstj. á Ísafirði um þetta frv., en ég álít, að það sé þó sú fyrsta sjálfsagða heimild, sem útvega þarf í málinu. Bæjarstj. mun áreiðanlega koma sér saman um álit í málinu, þó þar hafi ekki verið samvinna um kosningu bæjarstjóra. (JBald: Ekki um aðra hluti heldur). Jú, það hefir um ýmsa hluti þar tekizt samvinna, og það hluti, sem ég álít miður hafi farið fyrir bæjarfélagið. En ef ekki á að leita umsagnar bæjarstj. Ísafjarðar um þetta frv. af því að bæjarstj. sé óstarfhæf, þá hygg ég, að nokkuð sama mætti segja um hið háa Alþingi. Það hefir hingað til ekki verið venja að ganga framhjá þeim stofnunum, sem sérstök lög hafa verið sett fyrir. Það er alveg nýtt í sögunni, ef það verður gert nú.