27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Baldvinsson:

Ég átti við það, með því að bæjarstj. væri ekki starfhæf, að hún gæti ekki komið sér saman um álit á þessu máli, en ekki það, að einstakir menn í bæjarstj. hefðu ekki vit á málinu. Flokkaskiptingin í þessari bæjarstj. er eins og kunnugt er sú, að þar fæst ekki samvinna um nokkurt mál, þar sem skiptingin er fjórir fjórir og einn, og þessi eini fulltrúi er ófáanlegur til að samþýðast hvorugum jöfnu flokkanna í bæjarstj., svo að ómögulegt er fyrir bæjarstj. að taka ákvarðanir um málefni bæjarins.

Ég álít, að það sé eins með bæjarstj., sem þannig er skipuð, og Alþingi, þegar það getur ekki komið sér saman um að mynda stjórn, að þá er það leyst upp og kosið á ný, af því það er ekki starfhæft. Þetta ástand er nú fyrir hendi á Ísafirði, og þó nú fengist í dag álit meiri hl. bæjarstj. Ísafjarðar á þá leið, að þetta frv. ætti ekki að samþ., þá þýddi það ekki annað en að hún vildi láta það ástand, sem er, halda áfram, en það er áreiðanlega ekki það, sem hún vill, eða það, sem yfirleitt er fært að una við. Af þessu er augljóst, að þýðingarlaust er að fara að leita álits þessarar bæjarstj., eins og hv. þm. N.-Ísf. leggur til.