03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Guðmundsson:

Það er öllum þingheimi kunnugt, að ástæðan fyrir því, að þetta frv. er komið fram, er sú, að bæjarstjórnarkosningin á Ísafirði í fyrra fór þannig, eins og kunnugt er, að Sjálfstfl. fékk 4 fulltrúa, Alþfl. 4 og kommúnistar 1. Ekkert samkomulag var um það, hver ætti að verða bæjarstjóri, svo að hlutkesti var látið ráða úrslitum, þar sem atkv. tveggja voru jöfn. Nú er því farið fram á það með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að kosning sé aftur látin fara fram. Það má að sjálfsögðu færa nokkuð til stuðnings því, en ekki virðist það vera mikið.

Það er löghelgaður siður hér á landi að láta hlutkesti ráða, þegar atkv. eru jöfn. Einn þm. situr t. d. hér á þingi, sem kosinn hefir verið á þennan hátt. Hefði hlutkestið um bæjarstjórann á Ísafirði gengið sósíalistum í vil, mundi þetta frv. alls ekki hafa komið fram, en það er næsta undarlegt, ef ekki er hægt að sætta sig við hlutkestisbæjarstjóra, úr því hægt er að sætta sig við hlutkestisþingmann. Bæjarstjórnir ættu þó ekki að þurfa að vera pólitískari en Alþingi.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að það verður að teljast óviðurkvæmileg aðferð hjá meiri hl. bæjarstj. á Ísafirði, þegar hún sama sem neitar bæjarstjóranum um að sitja á þingi. Mér skilst það brjóta í bága við anda okkar löggjafar, sbr. ákvæðin um embættismenn landsins í stjskr., þegar þeir eru kosnir á þing. Ég veit, að það er skylda þeirra, sem á þing fara, að sjá fyrir góðri gæzlu þeirra starfa, sem þeir hafa á hendi, og bæjarstjórinn bauð góðan mann í sinn stað til að gegna starfinu. Meiri hl. bæjarstj. Ísaf. getur ekki neitað þessu, vegna þess, að þessi sami meiri hl. hefir einmitt ráðið þann mann til þess að gegna starfinu, sem bæjarstjórinn benti sjálfur á.

Ég vil segja það um þetta frv., að mér sýnist það vera hæpin krafa að láta fara fram kosningar til bæjarstj. fyrir það eitt, að flokkur, sem gerði sér von um meiri hl., fékk hann ekki. Kosningar til bæjarstjórnar geta orðið nokkuð tíðar, ef slíkar kröfur eru gerðar.