03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. tók fram, var ég ekki viðstaddur þegar mál þetta var afgr. frá n., en þó ég hefði verið við, býst ég ekki við, að ég hefði getað léð því fylgi mitt. — Hv. frsm. sagði, að frv. þetta væri borið fram til þess að tryggja fullkomnara lýðræði í málum kaupstaðanna en nú væri, og það þyrfti að tryggja lýðræði innan kaupstaðanna sem annarsstaðar. En það er sú mesta rökvilla, að frv. miði að því að auka lýðræði. Það verkar miklu frekar í hina áttina, að takmarka lýðræðið. Það vita allir, að á skipun á málefnum sveita og kaupstaða er hið fyllsta lýðræði. Það eru mjög frjálsleg kosningalög, þar sem allir 21 árs og eldri hafa rétt til þess að kjósa, sem annars hafa óflekkað mannorð. Það eru hlutfallskosningar, svo meiri hl. geti notið sín til fullnustu, og í einu orði sagt, allt það gert, sem á valdi löggjafans er, til þess að lýðræðið fái notið sín sem bezt.

Það, sem hér hefir skeð, er það, að á Ísafirði eru tveir stórir flokkar, sem hafa jafna fulltrúatölu í bæjarstj., og þriðji flokkurinn skipar oddamanninn. Þegar svo kemur til kosningar á bæjarstjóranum, vill oddamaðurinn ekki greiða atkv. Hann vill vera hlutlaus, vill ekki nota þá aðstöðu, sem hann hefir, til þess að leggja lóðið á vogarskálina. Hvað brýtur þá hér í bága við lýðræðið? Maðurinn hefir heimild flokks síns til þess að láta hjá líða að nota þetta vald sitt. Hann verður því að teljast hafa fullt vald til þess að gera það, sem hann gerir. Eigi hv. frsm. við það, að leggja eigi skyldur á flokka að láta fulltrúa sína greiða atkv., hvort sem þeir vilja eða ekki, og að það sé lýðræði, þá skilur hann alls ekki, hvað lýðræði er. Með því fyrirkomulagi, sem nú er á kosningalögunum, er gert ráð fyrir, að hver borgari noti kosningarrétt sinn í samræmi við sína eigin skoðun. Nú skeður það, að eftir bæjarstjórakosninguna á Ísafirði fylgir þessi umræddi maður þeim flokki í bæjarstj. að málum, sem næst stendur honum í skoðunum. Þetta er hreint lýðræði. En ætli löggjafarvaldið að þvinga fram meiri hl., þá er það miklu frekar að hverfa frá lýðræðisgrundvelli en að treysta hann. Það þýðir því ekkert fyrir meðmælendur frv. að reyna að skjóta sér undir það, að með því séu þeir að reyna að koma á fullkomnara lýðræðisfyrirkomulagi í málefnum kaupstaðanna en nú er. Nei, þetta er bara einn þátturinn í þeirri aðferð, sem nú er viðhöfð hér á Alþingi, að reyna að kúga stofnanir, sem ekki eru að vilja þingmeirihlutans.

Að frv. þetta sé kák eitt, sést bezt á því, að þar er sagt, að atvmrh. geti ákveðið, að bæjarstjórnarkosningar skuli fara fram á ný, en það er ekkert sagt um það, hvað gera skuli, ef úrslit eftir nýjar kosningar verða hin sömu sem eftir hinar fyrri, að enginn hreinn meiri hl. fáist. Það verður ekki séð, að bæjarfélagið sé neitt betur farið, þó að kosið sé tvisvar, ef síðari kosningarnar gefa ekki hreinni úrslit en hinar fyrri. En eigi að halda endalaust áfram að kjósa, hvað er þá orðið úr lýðræðinu? Það gæti farið eins og fór árið 1931, að með þessu fyrirkomulagi væri verið að skapa leið til þess að breyta lýðræðinu í einræði. Ef formælendur frv. meina nokkuð með því, þá verður að taka næsta skref, úr því að farið er af stað á annað borð, en það er að ráða fram úr því, hvað gera skuli, ef síðari kosningarnar gefa sömu úrslit sem hinar fyrri. Ég vil því skjóta því til hv. samnm. minna að athuga þetta fyrir næstu umr.