05.11.1934
Efri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég ætla, að á síðasta fundi í þessari d. hafi hv. fyrri þm. Skagf. beint til mín þeirri fyrirspurn, hvort ég líti svo á, að heimilt yrði eftir þessa breyt. á lögunum, sem frv. gerir ráð fyrir, að láta kosningar fara fram oftar en einu sinni á kjörtímabilinu. Ég skal svara því alveg skýlaust, að ég álít engan vafa á því, að það má kjósa oftar en einu sinni samkv. þessu frv., ef það skilyrði er fyrir hendi, sem þar er gert ráð fyrir, að bæjarstjóri sé ekki studdur af meiri hl. bæjarstj.

Í þessari sömu ræðu sagði hv. þm., að þeir sömu bæjarfulltrúar á Ísafirði, sem ekki vildu fallast á að leyfa Jóni Auðun Jónssyni bæjarstjóra að ráða Fannberg, hefðu samt ráðið hann. Ég skal upplýsa um, að þetta er alveg skakkt. (MG: Hann er ráðinn til áramóta). Hann er ekki ráðinn af þeim 4 Alþfl.mönnum í bæjarstj., sem ekki féllust á beiðni J. A. J. Þeir greiddu því ekki atkv. (JÁJ: Þeir greiddu ekki heldur atkv. á móti). Það var vegna þess, eins og hv. þm. hlýtur sjálfum að vera bezt kunnugt, að þeir sáu, í hvert óefni var komið. (MG: Því er þá ekki reynt að kjósa bæjarstjóra nú?).