25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og hv. þdm. sjá á nál. á þskj. 141, hefir meiri hl. sjútvn. lagt til, að ríkisstj. verði veitt heimild sú, sem hér ræðir um, sem sé til að kaupa og starfrækja síldarbræðsluverksmiðjuna á Raufarhöfn. Ríkið hefir nú þegar með höndum svo mikinn atvinnurekstur af þessu tægi, og þessi verksmiðja tiltölulega nálægt verksmiðjum þess á Siglufirði, að það má því álíta, að ekki sé óhentugt, að þessi verksmiðja komi í kerfið, sem þegar er fyrir norðan. Nú vill n. samt leggja áherzlu á það, að hér er ekki um neina skipun að ræða til ríkisstj. um þessi kaup, heldur einungis heimild. Og þar sem n. sjálf hafði enga aðstöðu til að kynna sér, hvernig háttað er með þessa verksmiðju, í hvaða ástandi hús og vélar eru o. s. frv., varð hún að byggja á umsögn annara í því efni. Það er því rétt að hafa allan fyrirvara með þessi kaup, og auðvitað sé ekki keypt nema sýnt sé, að kaupin séu hagfelld. N. leitaði álits stjórnar síldarbræðsluverksmiðju ríkisins á Siglufirði um kaupin, og fékk skriflegt álit frá stj. sem prentað er sem fskj. með nál. á þskj. 141. Þar er, eins og dm. sjálfsagt hafa tekið eftir, lagt með því, að þessi heimild verði samþ. Verksmiðjustj. telur mikla hagsbót að því fyrir útvegsmenn, ef verksmiðjan á Raufarhöfn gæti verið í gangi árlega. En á því hefir viljað verða misbrestur nokkur, eins og sést af þeim skjölum, sem fyrir lágu, og þess vegna hefir það verið álitið nauðsynlegt að athuga, hvort ekki sé rétt, að ríkið eignist þessa verksmiðju, bæði vegna hagsmuna síldarútvegsins og íbúanna á Raufarhöfn.

Hv. 6. þm. Reykv. kveðst hafa nokkra sérstöðu í málinu, og hefir því ekki skrifað undir álit meiri hl. n.