25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. gat um, hefi ég ekki skrifað undir álit meiri hl. n., og það af þeirri ástæðu, að ég tel það a. m. k. mjög vafasamt, að rétt sé að styðja að kaupum ríkissjóðs á þessari verksmiðju. Það er alltaf athugavert, þegar verið er að bjóða til kaups eitthvað gamalt skrap, sem eigendurnir geta ekki notað sjálfir af einhverjum ástæðum. verður að athuga nákvæmlega áður en flanað er að kaupunum, hvers vegna eigandinn vill selja, og hvað það er, sem boðið er til kaups. Það er auðsætt, að í þessu tilfelli er í raun og veru verið að bjóða út rústir. Eigandinn kvað hafa boðið verksmiðjuna fyrir 35—40 þús. kr. í fyrra, en eftir því sem stjórn síldarbræðsluverksmiðjunnar á Siglufirði segir, mun kosta um 160 þús. kr. að gera við þetta 35 þús. kr. rusl, sem ég vil leyfa mér að kalla svo. Mér finnst þetta vera ákaflega tortryggilegt allt saman. Menn verða að athuga, að hér liggur ekki aðalkostnaðurinn í kaupunum sjálfum, heldur þeim umbótum og aðgerðum, sem nauðsynlegar eru til þess að gera verksmiðjuna starfhæfa. Í þessu sambandi þarf líka að athuga það, hvort ríkið ætlar sér yfirleitt að færa út kvíarnar í þessum efnum. Það getur farið svo, að einn góðan veðurdag vakni menn upp við vondan draum og sjái, að ríkið hefir lagt fé í fyrirtæki á stöðum, þar sem sízt skyldi. Hér var rætt um það í fyrra, að mig minnir, að kaupa verksmiðjuna vestur á Sólbakka í Önundarfirði. Sú verksmiðja þykir liggja óhagstætt fyrir síldveiðina. Nú er hér komin fram till. um að kaupa verksmiðju austan til á landinu, þótt reynsla fyrri ára sýni, að svo miklu leyti, sem hægt er að sjá hana í áliti verksmiðjustj. á Siglufirði, að verksmiðjan hefir fengið mjög misjafnt aflamagn til vinnslu hin ýmsu starfræksluár. Ég tel ekki hægt að svo komnu máli að átta sig á því, hvort þetta verksmiðjuslátur er þess virði, að það borgaði sig að gera við það, og svo hvort verksmiðjan yrði þarna heppilega sett. Ennfremur er órannsakað, hvort framboð á síld til bræðslu er það mikið, að þær verksmiðjur, sem fyrir eru og til verða næsta ár, ekki anni því. Eftir því, sem mér hefir verið tjáð og skrifað hefir verið í norðlenzk blöð, virðist á næsta sumri hægt að taka á móti miklu meiri síld í verksmiðjurnar en líkindi eru til að veiðist, miðað við sæmilega gott síldarár. Allt, sem að þessu máli lýtur, er svo lítið rannsakað, að ég treysti mér alls ekki til þess að leggja með því, að ríkið fari að kaupa þessa verksmiðju, þótt kaupverðið sjálft sé að vísu lágt, en því fylgir sá böggull að koma verksmiðjunni í starfhæft ástand. Og þótt gert sé ráð fyrir því, að ekki kosti nema 160 þús. kr. að gera við þetta, sem kaupa á á 35 þús. kr., þá getur sá kostnaður orðið miklu meiri.

Ég skal játa, að mín sérstaða í þessu máli er meir fyrir það, að ég tel málið ekki nægilega rannsakað, heldur en að ég teldi mig sitja inni með nokkra sérstaka sérþekkingu á þessum hlutum, og ég tel það ærna ástæðu, hve lítið þetta mál er undirbúið, til þess að fresta því að taka nokkra ákvörðun nú. Ég hefi svo ekki meiru við þetta að bæta.