25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er í rauninni alveg rétt fram tekið hjá hv. 6. þm. Reykv., að n. út af fyrir sig átti þess ekki kost að rannsaka þetta mál til hlítar, en henni þótti mikið leggjandi upp úr áliti þeirra manna, sem trúað hefir verið fyrir því að standa fyrir stjórn síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. En þeirra álit er, eins og sést á fskj. með nál., að þótt fyllilega væri kostað því til aðgerðar verksmiðjunnar, sem áætlað er, mundi það borga sig, þar sem verksmiðjan gæti brætt um 600 mál síldar á sólarhring. Telja þeir, að stofnkostnaður verksmiðjunnar, miðað við afköst, myndi ekki verða óhæfilega hár. Það er rétt, að verksmiðjan hefir fengið misjafnlega mikið af síld til vinnslu sum árin, eins og t. d. síðastl. ár, nærri því 35 þús. hl., en aftur árið þar á undan aðeins 8½ þús. hl. Ég veit ekki, hvort þetta bendir sérstaklega á það, að Raufarhöfn liggi illa við síldveiðum og ekki sé líklegt, að verksmiðja þar á staðnum fái nægilega hrávöru til að vinna úr. Hitt getur engu að síður verið ástæðan, að flest skipin hafi verið samningsbundin verksmiðjunum á Siglufirði, og Raufarhöfn því orðið útundan. Ég hefi persónulega orðið var við það, að hinn norski eigandi verksmiðjunnar hefir verið að skrifa hér suður á land, til þess að reyna að fá menn til þess að skipta við bræðsluna. Það bendir á, að síðan síldarbræðslurnar á Siglufirði komust á, hafi bátar fremur sótt þangað en á Raufarhöfn. Á þessu gæti orðið breyting, ef þessi verksmiðja væri undir sömu stjórn og Siglufjarðarverksmiðjurnar. — Ég skal svo ekki segja fleira um þetta mál að svo stöddu. Ég vil aðeins benda á það, að hér er einungis um heimild að ræða fyrir hæstv. stj., og það er alveg óhætt að fullyrða að það er ekki tilgangur meiri hl. sjútvn., að lagt sé út í óhagstæð kaup, bara til þess að losa hinn norska eiganda við verksmiðjuna, heldur gengur n. út frá því, að framkvæmd verði gaumgæfileg rannsókn af sérfræðingum, sem ríkisstj. hefir á að skipa, og fyrst verði keypt og lagt í endurbætur, þegar sýnt er, að hér er um hagkvæm kaup að ræða fyrir ríkissjóðinn.