25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. meiri hl. sjútvn. fyrir hinar vinsamlegu undirtektir við þetta mál og afgreiðslu hennar á því. Eins og sést af nál., hafa 4 af 5 nm. lagt til, að ríkisstj. yrði gefin þessi umbeðna heimild. Einn nm. lætur þess hinsvegar getið, að hann sé í vafa um réttmæti þessarar heimildar, þótt hann út af fyrir sig vilji ekki taka skarpa andstöðu gegn málinu. Ég vænti því, að málið fái góðar undirtektir í hv. d. og gangi greiðlega í gegnum þingið.

Ég hefi litlu við það að bæta, sem hv. frsm., þm. Vestm., sagði hér áðan. Eins og hann sagði, hefir hv. sjútvn. leitað álits stj. síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, og ég vil leggja áherzlu á það, að stj. verksmiðjunnar hefir alveg einróma samþ. að leggja til, að þessi heimild yrði veitt.

Út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan, að hér væri um gamla hluti að ræða, þá er það alveg rétt hjá hv. þm., að vélar verksmiðjunnar eru nokkuð notaðar. En ég vil benda á, að þarna er um mikinn húsakost að ræða, starfhæfa verksmiðju og góða aðstöðu. Það má heita, að verksmiðjan hafi gengið stöðugt síðastl. sumar og þrætt um 40—50 þús. hl. af síld, sem allt gekk ágætlega. Ég vil leyfa mér að taka það fram í sambandi við þær tölur, sem gefnar voru upp frá hinum ýmsu starfsárum verksmiðjunnar, að ég hygg lægstu töluna þannig til komna, að verksmiðjan hafi ekki verið starfrækt nema örstuttan tíma það ár. En það kom ekki til af því, að hún fengi ekki síld til bræðslu, heldur vegna prívat ástæðna firmans, sem átti verksmiðjuna og rak hana. — Ég hefi svo ekki miklu hér við að bæta, en vil minna á, að þótt um það væri að ræða, að lagt væri í verksmiðjuna, sem bræðir 600 mál síldar á sólarhring, um 200 þús. kr., þá er það engin feikna upphæð, miðað við þær fjárhæðir, sem lagðar hafa verið í síldarverksmiðjur undanfarið. Viðgerðarkostnaðurinn er hér miðaður við það, sem æskilegt er, að gert væri, en hinsvegar ekki einungis hið allra nauðsynlegasta, og því enginn kominn til að segja, að kostnaðurinn geti ekki orðið minni.

Ég vil enda mál mitt með því að lýsa yfir því, að ég tel það vafalaust mundu verða til mikilla hagsbóta fyrir skip, sem síldveiði stunda á Þistilfirði og Axarfirði, ef þau gætu lagt upp á Raufarhöfn, í stað þess að þurfa til Siglufjarðar.