25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Finnur Jónsson:

Það er rétt hjá hv. þm. V.Húnv. að varhugavert er að bæta við nýjum síldarbræðsluverksmiðjum án þess að sjá fyrir aukningu síldveiðiflotans á næstu árum. En þess ber að gæta, að nú liggur allur fjöldi togaranna inni um síldveiðitímann. Öll líkindi mæla með því, að þegar togararnir eiga það víst að geta selt síld sína í bræðslu, þá fari þeir fleiri af stað. Ég vil biðja hv. þm. að athuga það, að hér er ekki verið að fara fram á, að byggð verði ný verksmiðja, heldur aðeins heimila eigendaskipti á verksmiðju, sem þegar er til. Hér hefir verið bent á, að þessi verksmiðja hafi fengið litla síld til bræðslu. Það mun vera rétt, sem hv. þm. N.-Þ. sagði því viðvíkjandi, nfl. að verksmiðjan hefði ekki verið starfrækt á sem heppilegustum tíma, og svo líka hitt, að greiðsla fyrir síldina hefir verið óviss á Raufarhöfn síðustu árin, svo að margir hafa kinokað sér við að leggja þar upp þess vegna. — Þá hefir það verið fært hér fram, að þarna sé ekkert að hafa nema rusl. Við því er það að segja, að verksmiðjunefndin, sem átti að ákveða, hvar nýja verksmiðjan skyldi reist, kom í sumar að Raufarhöfn og athugaði þá verksmiðjuna. Ennfremur rannsakaði Þórður Runólfsson, eftirlitsmaður ríkisins með vélum og verksmiðjum, þessa verksmiðju í sumar, og segir hann í áliti sínu, að verksmiðjan gæti gengið í eitt eða tvö ár án mikillar viðgerðar. Það er því ekki bein afleiðing þess, að ríkið kaupi verksmiðjuna, að strax verði farið að leggja stórfé í aðgerðir. Sú aðgerð, sem talað er um í bréfi verksmiðjustj., er, að reistur verði olíugeymir við verksmiðjuna, sem ekki hefir verið til þar áður. Aðgerð á verksmiðjunni mundi mjög mikils virði fyrir skip þau, sem veiðar stunda við Langanes og Sléttu. Ég tel því hiklaust rétt gagnvart síldarútveginum, bæði sjómönnum og útgerðarmönnum, að gefa stj. þessa heimild, og legg ég eindregið með því í trausti þess, að stj. láti nákvæma rannsókn fara fram um þessi mál, áður en hún byrjar á framkvæmdum.