25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það er eflaust rétt, sem hér hefir verið tekið fram, að það sé gott fyrir héraðsbúa, að þessi atvinnurekstur leggist ekki niður. En ég er ekki viss um það, að svo muni fara, þó að hún verði áfram í eigu núv. eiganda. Það er rétt, að fyrir útgerðarmenn er æskilegt, að sem flestar verksmiðjur séu til, svo að þeir eigi alltaf víst að geta selt aflann, en það yrði þá tryggt af samkeppni versksmiðjanna. En þegar ræða á um það, að koma nýjum síldarbræðsluverksmiðjum á fót, verður að athuga jafnframt, hvort líkur séu til, að þær fái eitthvert verkefni. Það er ekkert vit í öðru en að reyna að hafa samræmi milli verkefnisins og tækjanna, sem ætlað er að vinna úr því. Á það hefir verið bent af hv. þm. V.-Húnv. og mér, að í hinni nýju síldarbræðslust. ríkisins og með fyllri notkun Sólbakkaverksmiðjunnar verði hægt að taka á móti 150 þús. mála í bræðslu næsta sumar umfram það, sem nú er hægt. Þá má geta þess, að nú er verið að reisa síldarbræðslustöð í Djúpavík við Húnaflóa, sem á næsta ári kemur til með að bræða 2000 mál á sólarhring, sem svo sennilega má hækka upp í 4000 mál með litlum tilkostnaði. Mér kæmi ekki á óvart, þó að það reyndist rétt, sem fagmenn hafa reiknað út, að sú síld, sem undanfarin ár hafi verið boðin verksmiðjunum, sé ekki nema um 60% af því, sem þær hefðu getað annað. Sé það rétt, er öllum augljóst, að búið er að blása þessa starfrækslu út um of. Þá vil ég benda á það, að útgerðarmenn geta ekki notað sér bræðsluna eingöngu, ef sama verð helzt á síldinni og undanfarin sumur. Það hefir ekki veiðzt meira af síld síðastl. sumur en svo að engin leið hefir verið til þess að láta útgerðina bera sig með því verði, sem á síldinni hefir verið. Það yrði alveg nýtt í sögunni, ef afli yrði svo mikill, að útgerðin bæri sig með slíku verði. Undanfarin ár hafa togararnir aflað óvenjumikið. Samt hefir heildarútkoma togaraútgerðarinnar verið tap. Og smærri skipin hafa haft enn verri sögu að segja. Og þó má búast við, að þetta verði allt enn örðugra, þegar komnar eru fleiri síldarbræðslustöðvar en þarf til þess að taka við afla þeirra skipa, sem út eru gerð. Þá verður örðugra að fá skipin til þess að sigla með síldina á þá staði, sem verr liggja við, nema að hærra verð sé þar í boði. Það er ekki hægt að fiska síld í bræðslu á Önundarfirði eða við Langanes fyrir sama verð og um miðbik Norðurlandsins, Húnaflóa, Skagafjörð og Eyjafjörð. Ég held því, að öllu samanlögðu, að það sé mjög misráðið af hv. d. að heimila stj. kaup á þessari verksmiðju á Raufarhöfn. Það hefir einhverntíma verið meiri þörf á því en nú, að ríkið keypti gamlar verksmiðjur, einmitt þegar verið er að reisa aðra þá stærstu verksmiðju, sem hér hefir verið til, og á að taka til starfa á næstu síldarvertíð. Ég legg því eindregið á móti því, að þessi heimild verði gefin.