25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Finnur Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. mikið fram yfir það, sem orðið er, enda er ég að miklu leyti sammála hv. 6. þm. Reykv. um það, að vel þarf að afhuga áður en farið er að bæta við nýjum verksmiðjum. Þó ber þess að gæta, að hér er ekki um það að ræða að bæta nýrri verksmiðju við, heldur aðeins að höfð séu eigendaskipti á verksmiðju, sem þegar er fyrir, og tryggja, að verksmiðjan geti verið í gangi án þess að vinnslumagn aukist umfram það, sem nú er. Hv. þm. sagði að það væri gott fyrir útgerðarmenn, að sem flestar verksmiðjur væru í gangi. Þetta er ekki rétt. Þeir hafa bezt af því, að til séu hæfilega margar verksmiðjur. Ég er á því, að síldarútvegurinn aukist á næstu árum, en þó tel ég sjálfsagt, að líkurnar fyrir því verði athugaðar gaumgæfilega áður en nýjum síldarbræðslum yrði bætt við þær, sem fyrir eru. Ég hefi nú lagt fram lagafrv., ásamt öðrum hv. þm., sem gengur í þá átt. Ég hefi áður drepið á það, að mestur hluti togaraflotans liggur aðgerðarlaus yfir síldveiðitímann, og þó er ekki talið óálitlegra að gera togara út á síld en svo að annað stærsta togarafélagið á landinu er að láta reisa síldarbræðslustöð við Húnaflóa og ætlar sýnilega að láta togara sína fara á síldveiðar næsta sumar. Engu væri spillt, þó að fleiri togarafélög fylgdu dæmi þess, en þá verða líka síldarbræðslustöðvarnar að vera nógu margar. Hv. 6. þm. Reykv. hélt, að ríkið hefði engan hagnað af því að kaupa þessa verksmiðju. En ég tel það sterk rök með mínu máli, að stjórn síldarbræðsluverksmiðju ríkisins, sem sérstaklega hefir kynnt sér ástand verksmiðjunnar á Raufarhöfn, leggur eindregið til, að ríkið eignist hana. Og meðan ekki koma önnur og sterkari rök fram gegn því að veita stj. þessa heimild en hv. 6. þm. Reykv. kom með, sé ég ekki því neitt til fyrirstöðu.