27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Við 2. umr. þessa máls virtist mér koma fram upplýsingar, sem gera það vafasamt hvort rétt muni vera að samþ. þessa heimild. Það er tvennt, sem taka þarf til athugunar í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi, að það hefir áreiðanlega áhrif, hvort fyrirtækið starfar áfram, hvort það verður keypt eða ekki, og hvort hægt er að reka þar verksmiðja eða ekki á ríkisins kostnað.

Við 2. umr. upplýstist ekkert um það, hvort fyrirtækið yrði lagt niður, jafnvel þótt eigendaskipti yrðu ekki. Ef það er ekki víst, að það verði lagt niður, þá sýnist mér ekki ástæða til þess, að ríkið kaupi það. Í öðru lagi virðast allar upplýsingar benda í þá átt, að eigendur vilji losna við fyrirtækið, vegna þess að það hefir ekki borgað sig undanfarin ár, og þeir búast við, að það muni ekki svara kostnaði að reka það áfram.

Ég vil vekja athygli á því, að það hefir komið fram hjá einum hv. ræðumanni, að það gengi mjög illa að fá nægilegt síldarmagn til þess að vinna úr í verksmiðjunni. Frá þessu sjónarmiði finnst mér ekki liggja þau gögn fyrir, sem geti gert það eðlilegt, að þingið samþ. þessa heimild til kaupanna.

Þeir, sem bera fullt traust til ríkisstj., treysta því, að hún geri engin kaup, nema hún afli sér upplýsinga því viðvíkjandi, sem gera kaupin nauðsynleg, en við, sem berum takmarkað traust til hennar í þessu efni, æskjum fullkominna upplýsinga, sem við teljum nauðsynlegar til þessara kaupa. Fyrirtækið er boðið fyrir 35 til 40 þús. kr., en áætlað er, að til þess að koma því í stand þurfi töluvert á annað hundrað þús. kr. Hér virðist vera um fyrirtæki að ræða, sem er í slæmu ásigkomulagi. — Þetta vildi ég taka fram við þessa umr. málsins, til þess að skýra það út. Ef ekki koma nýjar upplýsingar um málið, mun ég greiða atkv. á móti þessari heimild.