27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hér er rætt um það, að samþykkt till. þeirrar, sem hér liggur fyrir, lýsi annaðhvort trausti eða vantrausti á ríkisstj. Hv. þm. Ísaf. taldi víst, að mitt fylgi við þessa heimild stæði í sambandi við traustsyfirlýsingu á stj. af minni hálfu. Ég get ekki séð, að þetta komi neitt sérstaklega því máli við, sem hér er um að ræða. Það var deilt um það í fyrra viðvíkjandi Flateyrarverksmiðjunni, hvort gefa ætti ríkisstj. heimild til þess að kaupa hana. Endirinn varð sá, að þingið veitti heimildina, en stj. notaði hana ekki. Hinsvegar var verksmiðjan rekin í sumar fyrir ríkisins reikning.

Ég hefi ekki orðið var við annað en það, sem ég sagði þá, að það væri ekkert ómögulegt fyrir yfirstjórn síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði að geta beint einhverjum hluta af veiðiskipaflotanum jafnvel suður á bóginn til Flateyrar, til þess að losna við síldina. Það hefir ekki ávallt verið hægðarleikur fyrir skipin að fá fljóta afgreiðslu við verksmiðjurnar. Þess vegna hefir mér virzt maður verða að taka nokkuð sérstaka afstöðu til þessa rekstrar, sem nú orðið er að miklu leyti kominn í hendur ríkisins, þannig að gengið sé út frá því, að síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði hafi betri aðstöðu til þess að bera fram álit í þessum málum. Hún fær tilboð frá skipunum, togurum, vélbátum og línunveiðurunum, um innlagningu í verksmiðjuna. Þess vegna er betri aðstaða til þess að skipta niður afhleðslu flotans en ella hefði verið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sýnilega borið fram vegna þess, að fólkið á Raufarhöfn, sem hefir haft talsverða atvinnu vegna rekstrar verksmiðjunnar á Raufarhöfn, óskar eftir, að rekstur verksmiðjunnar komist á tryggari grundvöll. Það er skýrt frá því í grg., að sá, sem nú á þessa verksmiðju, hafi í rauninni eignazt hana gagnstætt vilja sínum. Firmað, sem á verksmiðjuna nú, ætlaði sér ekki upphaflega að reka síldarbræðsluverksmiðju á Íslandi, heldur hefir þetta firma, sem er hlutafélag í Bergen, eignazt hana vegna skuldaviðskipta sinna við upphaflegan eiganda verksmiðjunnar. Þegar þetta er athugað, og eins líka hitt, að aðburður af síld er misjafn á ári hverju, þá er sýnilegt, að þetta stendur völtum fæti, og atvinna fólksins á Raufarhöfn er því mjög stopul og léleg.

Þetta skilst mér vera ástæðan, fyrst og fremst, fyrir því, að farið er fram á, að ríkisstj. sé heimilað að bæta þessari verksmiðju við það kerfi af síldarverksmiðjum, sem hún hefir með höndum.

Ég álít mikilsvert atriði, að þetta litla þorp og afkomumöguleikar þess séu tryggðir eins og unnt er, og einkum og sér í lagi sumarvinnan, sem er talsverð, ef rekstur síldarverksmiðjunnar þar á staðnum er öruggur.

Mér finnst ekki vert að gera ráð fyrir því, að á Raufarhöfn eigi að vera stór og fullkomin verksmiðja. Mér finnst ekki sjálfsagt að gera ráð fyrir því, en vil þó ekki, sökum þekkingarskorts á rekstri síldarbræðsluverksmiðja yfirleitt, taka neitt af í þessu efni. Það gæti komið til mála, ef ríkið keypti verksmiðjuna, að það tæki hana eins og hún er og ynni úr svipuðu magni og hún gerir, þegar bezt lætur, án þess að leggja mjög mikið í tilkostnað til hennar.

Aðrir, sem mælt hafa með þessu máli, hafa rætt um það, hvort við hefðum traust á hæstv. stj. eða ekki. Ég fyrir mitt leyti get sagt það, að ég ber það traust til hvaða ríkisstj. sem er, enn sem komið er, að ég treysti henni til þess að taka tillit til þess, sem fram kemur við afgreiðslu mála hér á þingi, og ganga ekki framhjá því, sem þar er lagt til. Nú er það kunnugt, að hér er um gamlar vélar og gömul hús að ræða. Þess vegna er rétt, ef ríkisstj. ætlar að kaupa þau af hinum norsku eigendum, að það verði gert eftir mati óvilhallra manna og að mat á vélum og húsum sé á undan gengið. Ég vil leggja áherzlu á þetta fyrir mitt leyti. Deildin sker úr því með atkv. sínum, hvort stj. eigi að fá þessa heimild eða ekki. Meiri hl. sjútvn. hefir tekið þá afstöðu, sem kemur fram í nál. og hefir þegar verið lýst.