27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir verið sýnt fram á, að þær ríkisverksmiðjur, sem fyrir eru, þurfi a. m. k. 10 togara afla til þess að starfræksla verði með svipuðu móti og undanfarið, og gætu þó verksmiðjurnar tekið á móti meiri afla en þær hafa gert, og myndu gefa betri arð, ef þær fengju hann. Og auk þeirra verksmiðja, sem þegar eru fyrir, er í byggingu á Siglufirði ný síldarverksmiðja, vönduð og stór, sem á að geta framleitt jafnmikið og stærri verksmiðjan. Aflinn mætti því aukast um 20%, en á því finnst mér mikill vafi, eins og horfur eru nú, að síldveiði verði meiri næstu ár en undanfarið.

Ég vil benda á þetta til þess að sýna fram á það, að frekari framkvæmdir í byggingum síldarverksmiðja eru því óþarfar eins og stendur, og geta jafnvel verið skaðlegar. Annar þeirra hv. þm., sem flytja þetta frv., hefir líka sagt, að gerðar muni verða ráðstafanir á þessu þingi til þess að hindra, að fleiri verksmiðjur verði reistar, og það er að mínu áliti alveg rétt. En úr því að rétt þykir að takmarka fjölda síldarverksmiðjanna, því er þá verið að gefa heimild til að kaupa þessa verksmiðju?

Annars vil ég benda á, að til eru í 2. gr. ákvæði, sem gefa ríkinu forkaupsrétt að síldarverksmiðjum, og þau eru alltaf til.

Ef á annað borð þykir heppilegt og nauðsynlegt að hafa síldarverksmiðju á Raufarhöfn, þá vil ég benda á, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um ástand gömlu verksmiðjunnar, virðist vera miklu nær að byggja þar nýja verksmiðju heldur en að fara að lappa upp á gamlan verksmiðjugarm, þar sem viðgerð kostar fjórum sinnum meira en verksmiðjan sjálf.

Ég hefi viljað benda á þetta til að sýna, að líkur eru til þess, að þær síldarverksmiðjur, sem þegar eru til, séu þess fullkomlega umkomnar að taka á móti allri þeirri síld, sem líklegt er, að veidd verði á næstu árum, og gætu þó tekið á móti 20% meira án þess að auka rekstrarkostnað sinn að nokkrum mun.