27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það er alger misskilningur hjá hv. þm. N.-Þ., að nokkur hafi verið að tala um það, að hér ætti að fara að bæta nýrri síldarverksmiðju við. Allir vita, að sú verksmiðja, sem hér um ræðir, er þegar til. Ég ræddi ekki málið frá því sjónarmiði, heldur eingöngu sem hagsmunamál ríkisins. Ég skil ekki, að hv. þm. séu þess sinnis yfirleitt, að þeir telji ekki fjárhagslegu hliðina neins virði fyrir ríkið. Það væri merkilegt um menn, sem margir hverjir hafa verið hér ár eftir ár að vega það í lófa sér, hvort þeir ættu að líkna hálfnöktum og þurfandi fátækum stúdent einhversstaðar úti í löndum með 500 eða eitt þús. kr., ef þeir hinir sömu teldu gersamlega óviðkomandi þessu máli, hvort þau nokkur hundruð þús., sem ríkið fleygir í þetta, komi nokkurn tíma aftur. Hingað til hefir hlutverk þingsins aðallega verið talið það, að hugsa um fjárhag ríkisins, af því að hann stæði í talsvert nánu sambandi við fjárhag þjóðarinnar.

Það er laust við það, að þetta mál sé mér nokkurt kappsmál frá því sjónarmiði, hvort Raufarhöfn geti haft verksmiðju eða ekki. Enda geng ég út frá og þykir langeðlilegast, að verksmiðjan verði rekin þarna áfram. Það er aðeins um að ræða, hvort ríkið eigi að kaupa þessa verksmiðju með miklum fjárútlátum, í stað þess að halda sig að þeim stöðum, sem sannreynt er, að liggja vel við veiðum.

Það er vitanlega alls ekki lítilsvert atriði að þarna er nokkur hópur manna, sem á allmikið undir því, að þessi rekstur haldi áfram. En hann hefir nú haldizt undanfarin ár, og mér þykir líklegt, að eigandinn vilji ekki láta niður falla reksturinn, því að hann hefir að sjálfsögðu veitt nokkurn hagnað. En ef nú til þess kæmi, þætti mér heldur ekki ólíklegt, að það fólk, sem þarna á heima, fengi einhvern atbeina til þess að geta látið verksmiðjuna halda áfram.

Ég man ekki, hver hv. þm. það var, sem taldi, að ég hefði ómaklega gert lítið úr röksemdafærslu verksmiðjustjórnarinnar. Ég sagði, að rökstuðningur þeirra verksmiðjustjóranna hefði einmitt að ýmsu leyti verið rök gegn því, að ríkið ætti að leggja í kaupin, og þetta er alveg satt. Þau rök eru þessi, að verksmiðjan, sem á að kosta 40 þús. kr., geti ekki haldið áfram að starfa svo að viðunanlegt sé fyrir ríkið sem eiganda, nema lagt sé fram a. m. k. ferfalt eða jafnvel fimmfalt verð hennar til þess að klastra við hana. Þetta eru áreiðanlega mótrök, ef það skiptir nokkru, hvort ríkinu er látið blæða um stórfé eða ekki, — en ég geng sem sé út frá, að það skipti máli.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það hefir mikla þýðingu, hvort þessi heimild verður samþ. eða ekki, —einmitt af þeim ástæðum, sem hann tók fram. Úr því að þessi heimild er til, mun eigandinn að sjálfsögðu nota hana sem ástæðu til að klemma ríkið til kaupanna. Við höfum enga ástæðu til að ætla hann það flón, að hann sjái ekki leik á borði, að með því að neita að starfrækja og neita að leigja verksmiðjuna knýr hann ríkið til að kaupa hana. Það var minnzt á Sólbakkaverksmiðjuna. Hún var íslenzk eign, meira að segja átti ríkið sjálft hana óbeinlínis. Samt leyfði þetta fyrirtæki sér að nota sér sína aðstöðu til að gera tilraun til að pína ríkið til að kaupa verksmiðjuna. Það ráð var tekið að taka hana eignarnámi til leigu. Hvað mundi þessi útlendi borgari þá gera, sem í raun og veru kærir sig fremur lítið um þennan rekstur? Ég þekki þá illa bónþægð hæstv. stjórnar við sína fylgismenn, ef hv. þm. N.-Þ. getur ekki fengið hana til að fórna nokkrum tugum þúsunda króna til að friða fyrir honum í kjördæminu. Ég geng þess vegna út frá því sem sjálfsögðum hlut, að ef heimildin verður samþ., muni ríkið kaupa verksmiðjuna; eins og ég geng út frá því sem hér um bil vissum hlut, að verksmiðjan verði starfrækt eftir sem áður, af eiganda eða leigjanda, þó að ríkið samþ. ekki þessa heimild.