23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Herra forseti. Samkv. venju, þegar fjárlögin koma úr nefnd til framhalds 1. umr., gera andstæðingar ríkisstjórnarinnar grein fyrir afstöðu sinni til hennar, og hæstv. stjórn svarar.

Um afstöðu þess flokks, sem ég fylgi, Bændaflokksins, vil ég þegar í upphafi taka þetta fram: Blað Bændafl. lýsti yfir því, þegar núv. stjórn var í fæðingu, að Bændafl. myndi veita henni, eins og hvaða stjórn sem væri, stuðning til allra góðra mála og drengilegra, en hinsvegar sýna henni fulla andstöðu í öllum þeim málum, er horfðu að flokksins dómi til skaðsemdar landi og þjóð.

Þessi afstaða Bændafl., sem þannig var lýst í upphafi, er enn hin sama og þá.

En því miður verð ég að játa, að stj. hefir á þeim stutta tíma, sem hún hefir farið með völd, svo mjög brugðizt vonum okkar, að við teljum okkur ekki fært að ljá henni stuðning okkar.

Þessar vonir tóku þegar að bregðast, þegar þeir samningar, sem framsóknarmenn og sósíalistar gerðu með sér um stjórnarmyndun, komu fram í dagsljósið.

Það sást þegar, er samningar þessir voru birtir, að þeir voru ekkert annað en endurprentun á 4 ára áætlun sósíalista fyrir kosningarnar í vor. Alþýðublaðið sýndi mjög greinilega fram á þetta með því að prenta samninginn með tilvitnunum í 4 ára áætlunina við hvert einasta atriði samningsins. Með þessu vildi aðalmálgagn sósíalista sýna flokksmönnum sínum yfirburði foringja sinna í samningagerðinni, og jafnframt að sýna fylgjendum sínum, sem nær allir eru kaupstaðabúar, það svart á hvítu, að þeir hefðu þar með markað stefnu stjórnarinnar undir sitt mark, og stjórnin væri því sósíalistastjórn, en ekki bændastjórn. Hefi ég ekki ástæðu til að lá blaði sósíalista þetta, því að ég ætla, að það hafi oft farið með meiri fjarstæður.

Þetta er að vísu í samræmi við þau straumbrigði, sem orðið hafa meðal fjölda manna hin síðustu kreppuár — þau straumbrigði, að fjöldi manna er að missa trú á landbúnaðinn, missa trú á framleiðsluna, en vill fremur vinna fyrir kaupi í kaupstöðunum, og hugsar þá til atvinnubótavinnunnar í bakhöndinni, ef annað bregzt. Því freistast menn til að prófa leiðir sósíalista og jafnvel kommúnistanna. En Bændafl. vill rísa í móti þeim straumi. Bændafl. lítur svo á, að framleiðslan til lands og sjávar sé undirstaðan, sem allt þjóðlífið hvílir á, og því sé það hinn mesti voði hinni íslenzku þjóð, ef menn missa trúna á framleiðsluna og hverfa frá henni.

Ein hin ríkasta skylda þjóðfélagsins er því sú, að dómi okkar, að styðja framleiðsluna og stuðla að því á allan hátt, að hún fái borið sig. Að vinna að því af fremst megni, að framleiðendurnir missi ekki móðinn, heldur kosti alls kapps um að reka framleiðsluna með orku og hagsýni. Sérstaka áherzlu leggur þó Bændafl. á landbúnaðinn, með því að hann er traustasti hornsteinn þjóðfélagsins og þjóðernis vors.

Ég veit, að andstæðingar okkar til beggja handa líta á okkur smáum augum, sökum æsku og smæðar flokksins. En flokkurinn var aðeins nokkurra mánaða gamall í síðustu kosningum, en þá hlaut hann þó þegar fylgi nálega sjötta hluta sveitafólksins. Hvorugur stjórnarflokkurinn hefir átt þar svo miklu fylgi að fagna í byrjun.

Flokkur vor vill reynast kjósendum sínum og stefnu sinni trúr. Þess vegna munum vér Bændaflokksmenn miða afstöðu vora til stjórnarinnar við landbúnaðarmálin fyrst og fremst. Skal það þá fyrst viðurkennt, sem stj. hefir rétt gert í þeim málum. Það skal játað, að hin nýja stjórn tók til meðferðar þau mál, sem fyrrv. stjórn hafði sérstaklega látið undirbúa og fékk henni því nálega fulltilbúin í hendur, er hún settist að völdum. En það voru afurðasölumálin.

Með skipun afurðasölunefndarinnar, sem fyrrv. landbúnaðarráðh. skipaði á síðastl. vetri samkv. þáltill., sem Jón í Stóradal bar fram í Ed. í fyrra, hafði fyrrv. stjórn undirbúið kjötsölulögin, svo að núv. stj. þurfti ekki annað en fá undirskrift konungs. Það munaði því aðeins nokkrum dögum, hvor stjórnin, sú fyrrv. eða núv., hefði getað getið kjötsölulögin út sem bráðabirgðalög. En strax í þessu fyrsta máli kom það fram, sem Alþbl. hafði sýnt svo ljóslega, er það birti stjórnarmyndunarsamninginn, að sósíalistar höfðu markað stefnu stj. undir sitt mark.

Í kjötsölulagafrv., sem fyrrv. stjórn hafði látið undirbúa, breytti núv. stjórn aðeins einu atriði. Hún nam burt það ákvæði frv., að Búnaðarfélag Íslands, sem er hið eina allsherjarfélag íslenzkra bænda, skyldi eiga fulltrúa í kjötverðlagsnefndinni. En í stað þess fékk þar sæti einn samherji sósíalista í því, að fá verðið knúð niður. Íslenzkir bændur voru ekki virtir þess, að þetta allsherjarfélag þeirra mætti tilnefna mann í nefnd til að ákveða verðlag á þeirra eigin framleiðslu.

Nú er það svo, að kjötsölulögin eru í raun og veru aðeins umgerð eða rammi, sem fylla verður út jafnóðum og þau eru framkvæmd. Það má því segja, að allt sé undir framkvæmd laganna komið um það, hvort þau koma að tilætluðum notum eða ekki. Og ég verð því miður að játa það, að hæstv. stj. hafa orðið mjög mislagðar hendur um framkvæmd laganna, þótt henni hafi að vísu verið gert erfiðara fyrir en ella myndi vegna algerlega ástæðulausra árása af hálfu blaða Sjálfstfl. á kjötsölulögin, vegna verðhækkunar á kjöti hér í bænum. Hversu ástæðulausar þær árásir hafa verið, sést bezt á því, að skýrslur hagstofunnar sýna, að vísitala kjötverðs var lægri í septembermánuði í ár heldur en í fyrra. Það getur orkað mjög tvímælis, hvort kjötverðið hefir ekki verið ákveðið of lágt. A. m. k. er óhætt að fullyrða, að hin síðasta lækkun hafi verið úr hófi fram, enda var hún ákveðin þvert ofan í kröfur stjórnar Sláturfél. Suðurlands.

Þó að fullyrða megi, að kjötið hefði hækkað eitthvað í haust án sérstakra lagaráðstafana, er þó víst, að lögin hafa gert sunnlenzkum bændum mikið gagn. En hlutverk kjötlaganna á að ná lengra en það, að hækka verðið á aðalmarkaðinum innanlands. Þau eiga jafnframt að stuðla með verðjöfnunargjaldinu að verðhækkun á því kjöti, sem flutt er út úr landinu. En nú er það komið í ljós, sem ég lét í ljós ótta um fyrir mörgum vikum, að verðjöfnunargjaldið myndi ekki hrökkva til að bæta bændum upp hallann á hinu útflutta kjöti. Það má vera, að sjóður þessi, sem mun verða um 130—150 þús. kr., hrökkvi til þess að bæta bændum upp að nokkru hallann á útfluttu saltkjöti. En það er fjarri lagi, að hann nægi til þess að bæta einnig upp hallann á freðkjöti, sízt þar sem horfur eru á, að verðið verði nú 10 aurum lægra á kg. en í fyrra.

Ég benti á þessa hættu fyrir alllöngu hér á þingi, og vænti þá þess, að stj. hefði forgöngu um að bæta úr þessum vandræðum. En þegar auðsætt var, að stj. ætlaði ekkert að gera í málinu, flutti Bændafl. brtt. við kjötsölulögin í Ed., á þessa leið:

„Nú verður verð á útfluttu kjöti tilfinnanlega lágt, svo að verðjöfnunarsjóður hrekkur hvergi nærri til að bæta upp verð útflutta kjötsins til nokkurs samræmis við kjötverð á innlendum markaði, og er ríkisstjórninni þá heimilt að greiða úr ríkissjóði framlag til verðjöfnunarsjóðs til aukaverðuppbótar á útflutt kjöt, allt að þeirri upphæð, er aðrar tekjur sjóðsins nema það söluár“.

Ég hafði nú vænzt þess, að þessi brtt. fengi góðar undirtektir hjá hæstv. stj., af því að hún og flokkar hennar höfðu fáum dögum áður samþ. hlutaruppbót til sjómanna úr ríkissjóði, sem nam sem svarar þessari upphæð. Þeirri uppbót átti auk þess að verja með þeim kynlega hætti, að þeir fengju mest, er mest höfðu aflað, en hinir minnst, er mesta höfðu þörfina. En eftir þessari brtt. minni hefðu þeir bændur fengið uppbót, sem mesta höfðu þörfina, þ. e. bændur á Norður- og Austurlandi og nokkrum hluta Vesturlands. Þessir bændur urðu fyrir miklum vanhöldum á fé sínu í fyrra vegna fjársýki, og sumarið síðasta var á þessum slóðum eitthvert hið mesta votviðrasumar, svo að varla náðist óskemmd tugga. Þetta hlaut að hafa mikil fóðurbætiskaup í för með sér fyrir bændur í þessum landshlutum og setja þá í nýjar skuldir. Ofan á þetta bætist svo verðfall kjötsins á erlendum markaði í haust.

En gegn þessu gekk stj. og flokkar hennar og felldu tillöguna. Það var eftirtektarvert, að í þessu máli tók stj. saman höndum við þá tvo hv. þm. Sjálfstfl., sem helzt hafa verið kallaðir fulltrúar Reykjavíkur.

Samkv. núgildandi fjárl. er heimild fyrir ríkisstj. til að veita uppbót á útflutt kjöt í fyrra. Þessa var sannarlega ekki vanþörf, því að saltkjötsverðið varð ekki nema 55—60 aurar kg. Freðkjötið var nokkru hærra, en sérstaka nauðsyn bar til að bæta upp saltkjötið til samræmis við hitt. Fyrrv. stj. hafði auglýst eftir skýrslum um kjötútflutning frá öllum þeim, er selt höfðu saltkjöt til útlanda, en þessar skýrslur voru ekki allar komnar, er hún lét af völdum, og var því ekki hægt að greiða þessa verðuppbót fyrir stjórnarskiptin, eins og þá var ákveðið.

Nýja stjórnin hefir algerlega daufheyrzt við því að veita þessa sjálfsögðu og nauðsynlegu uppbót. Hinsvegar hefir hún veitt stórfé til sundhallar í Reykjavík og hækkað kaup í opinberri vinnu, svo að nema mun 1000 kr. á dag. Ég vil spyrja hæstv. stj., hvað þessu máli liður, og hvort hún ætli algerlega að láta það undir höfuð leggjast.

Um mjólkurlögin er það að segja, að þau voru ekki eins aðkallandi og kjötsölulögin. Þegar þing kom saman, var ekki farið að framkvæma þau á nokkurn hátt, og enn hefir ekkert verið gert nema að lækka mjólkina í verði. Þessa verðlækkun verður að telja alveg ástæðulausa, þar sem bændur eru ekki enn farnir að njóta neins góðs af hinu nýja skipulagi, og meira að segja vafasamt, hvort hún er lögleg, þar sem engin reglugerð hefir verið gefin út ennþá.

Einmitt þessi lækkunarráðstöfun varð til þess, að við tveir landbnm. í Ed. fluttum svo hljóðandi brtt. við mjólkursölulögin:

„Við ákvörðun á útsöluverði mjólkur og mjólkurafurða skal sérstaklega hafa hliðsjón af kostnaði við framleiðsluna á hverjum tíma, og þess gætt, að framleiðendur njóti að fullu þess hagnaðar, er leiða kann af breyttri tilhögun mjólkursölunnar, að minnsta kosti að eins miklu leyti sem þarf til þess, að mjólkurframleiðslan geti borið sig. Í því skyni skal við ákvörðun mjólkurverðsins stuðzt við verðvísitölur, er sýni aðalkostnaðarliði framleiðslunnar hvert ár, eftir nánari ákvæðum, er ráðherra setur í reglugerð“.

Í þessari till. er aðeins farið fram á það, að bændur fái það verð fyrir mjólk sína, að búskapur þeirra geti borið sig, svo að þeir geti lifað af framleiðslunni. En þessi brtt. var felld með atkv. stjórnarflokkanna og tveggja sjálfstæðismanna úr Rvík. Þennan sama dag var einnig felld brtt. um uppbót á kjöti með sama liðstyrk, og má því segja, að á þessum degi hafi þeir Heródes og Pílatus tvisvar orðið vinir.

Þetta eru nú þá í fám orðum afskipti núv. stj. af þeim málum, sem fyrrv. stj. hafði undirbúið. Aftur á móti hefir stj. algerlega vanrækt að hrinda fram lækkun vaxta á fasteignalánum bænda, bæði almennum fasteignalánum og lánum úr Byggingar- og landnámssjóði. Bændaflokkurinn bar því fram till. um framlenging á vaxtatillögum ríkissjóðs á þessa leið:

„4. gr. laganna orðist svo:

Heimilt er ríkisstjórninni, að fengnum meðmælum stjórnar Kreppulánasjóðs, að greiða árlega úr ríkissjóði allt að 2% af vöxtum fasteignalána og lána gegn afgjaldskvöð þeirra manna, er reka landbúnað sem aðalatvinnuveg, þó ekki meira en svo, að lántakandi greiði sjálfur 2% vöxtu af lánum til nýbýla frá byggingar- og landnámssjóði og 3% af lánum til endurbygginga íbúðarhúsa í sveitum, en 4% af öðrum fasteignalánum.

Heimild þessi nær og til greiðslu vaxta af stofnlánum frystihúsa og mjólkurbúa, enda séu þau eign samvinnufélaga bænda eða sýslufélaga“.

Er hér nokkru aukið við það vaxtatillag, sem greitt var síðastl. 2 ár samkv. heimild í l. frá 1933, sem nú eru úr gildi fallin.

Þessi aukning myndi nema um 40 þús. kr. á hinum almennu fasteignalánum og um 20 þús. kr. á lánum Byggingar- og landnámssjóðs.

Fyrst eftir að flm. höfðu margsinnis rekið á eftir því, að þetta mál yrði tekið fyrir, fól stj. landbn. Nd. að flytja frv. um þetta efni. Samkv. því eiga vextir af nokkrum hluta lána bænda að lækka niður í 5%. Vextirnir verða því 1% hærri heldur en eftir till. okkar og ½% hærri en síðastl. 2 ár. Auk þess á engin lækkun að verða á vöxtum af lánum úr Byggingar- og landnámssjóði eftir frv. nefndarinnar.

Þá hefir stj. ekki tekið mjúklega í frv. Bændafl. um breyt. á jarðræktarlögunum, til að styðja bændur til umbóta á jörðum sínum. Í því frv. er lagt til, að hækkaður verði styrkur til nauðsynlegustu jarðabóta: Á safnþrær á styrkurinn að hækka um 50 aura á dagsverk, fyrir framræslu um 50 aura, fyrir hlöður um helming, fyrir matjurtagarða um 50 aura og fyrir votheystóftir verði styrkurinn fjórum sinnum hærri en hann nú er, miðað við dagsverk. Var styrkurinn til votheystóftanna sérstaklega aðkallandi mál, þar sem við höfum nú fengið svo rækilega áminningu í því efni undanfarið ár vegna hinna miklu votviðra, sem náðu yfir því nær þrjá landsfjórðunga síðastl. sumar. Með votheystóftum má tryggja, að 1/3 heyaflans fáist með sæmilegri verkun án nokkurs verulegs efnataps. Í þessu umbótamáli landbúnaðarins fékk Bændafl. ekki annað svar frá Framsóknarfl. en skammir hjá einum af foringjum flokksins. Þótt ríkisstj. hafi þannig viljað draga úr fjárveitingum til landbúnaðarins, hefir hún verið allörlát á aðra hluti. Hún var fljót á sér að lofa fé til sundhallarbyggingar í Reykjavík, og það kom á undan verðuppbót á útflutt saltkjöt á árinu 1933, sem heimilt er að greiða eftir núgildandi fjárl. og fyrrv. stj. hafði verið að safna skýrslum til þess að geta greitt. Hv. stj. hefir hinsvegar séð sér fært að auka framlag til atvinnubótavinnu í kaupstöðum í þessu fjárlfrv. úr 300 þús. kr. í ½ milljón á næsta ári. Aftur á móti hefir stj. ekki séð sér fært að verja til sýsluvegasjóða nema helmingi þess fjár, sem veitt er í gildandi fjárl. Hinsvegar hefir hún gert ráð fyrir að nota til fullnustu heimild til malbikunar á vegum í kaupstöðum. Er það sérstaklega leiðinleg hlutdrægni hjá stj., sem þykist bera fyrir brjósti hag sveitanna. Þá hefir ekki fyrr sézt jafnmikil pólitísk hlutdrægni í úthlutun á vegafé til einstakra héraða og í þessu fjárlagafrv. Þó vegaféð sé í heild nokkuð meira en undanfarin ár, þá eru sum héruð herfilega afskipt. Það er þó ekki fyrir það, að í þeim héruðum sé minni þörf á vegabótum en annarsstaðar, og ekki er heldur svo, að þar sé að ræða um vegi, sem séu eingöngu fyrir þau héruð, heldur eru þeir liðir í heildarvegakerfi landsins, og mátti því hér líta á alþjóðarþörf.

Þá kem ég að því máli, sem vakið hefir almennasta undrun og gremju meðal bænda landsins, þegar fréttist um tilræði hv. stj. í fjárlfrv. gegn Búnaðarfélagi Íslands. Það er öllum landslýð kunnugt, að það félag er og hefir verið eitt hið mesta nytsemdarfélag hér á landi í áratugi. Það hefir haft forustu í sandgræðslumálunum, það hefir stjórnað og komið skipulagi á búfjárræktina og jarðræktina, það hefir í síðustu áratugi verið höfuðráðgjafi og leiðbeinandi bænda í öllum búnaðarmálum. Enginn bóndi hefir ráðizt í neinar verulegar umbætur, hvorki jarðabætur eða aðrar, án þess að njóta beint eða óbeint leiðbeininga frá Búnaðarfélagi Íslands, og Búnaðarfél. má þakka þær framfarir í búnaðarframkvæmdum, einkum í jarðræktinni, sem orðið hafa síðan félagið var stofnað. Búnaðarfél. Ísl. hefir jafnan notið viðurkenningar og virðingar hæstv. ríkisstjórna þangað til nú. Þess er áður getið, að hæstv. stj. gat ekki þolað, að Búnaðarfélagið ætti fulltrúa í kjötverðlagsnefnd. En árásin á félagið í fjárlfrv. er einstæð. Þar er það gert að skilyrði fyrir útborgun allra fjárveitinga til félagsins, að þegar í stað á næsta ári verði gerð stórvægileg breyting á skipulagi félagsins eftir geðþótta hæstv. landbúnaðarráðh. Og ef Búnaðarfél. Ísl. vill ekki láta hábinda sig, þá á landbúnaðarráðh. að taka stjórn þess í sínar hendur. Búnaðarfél. Ísl. setti sér árið 1931 ágætt skipulag, sem er reist á fullkomnum lýðræðisgrundvelli. Hreppabúnaðarfélögin kjósa fulltrúa á fundi búnaðarsambandanna, en búnaðarsamböndin kjósa aftur á móti fulltrúa á búnaðarþing í tiltölu við fjölda bænda á hverju sambandssvæði. Eru þessar reglur að mestu leyti hliðstæðar þeim, sem gilda hjá S. Í. S. Búnaðarþing á samkv. lögum Búnaðarfél. að kjósa félaginu stjórn. Á þessu hefir Alþingi gert þá takmörkun, að 2/3 stjórnarinnar skuli kosnir af landbn. beggja deilda Alþingis. Hefir Búnaðarfél. hvað eftir annað farið fram á að fá afnumda þessa takmörkun á sjálfsstjórn félagsins, til þess að lýðræðisfyrirkomulag þess geti að fullu notið sin. En þrátt fyrir það, þó Búnaðarfél. Ísl. sé byggt á svo öruggum lýðræðisgrundvelli, þrátt fyrir það, þó að Búnaðarfélagið sé svo þýðingarmikill fulltrúi landbúnaðarins sem kunnugt er, og þrátt fyrir það, þó Búnaðarfélagið hafi unnið jafnmikið og raun ber vitni um til eflingar búnaðarframkvæmda og umbóta í landinu, þá skirrist stj. ekki við því að setja það skilyrði fyrir styrkveitingu til félagsins, sem útilokað er, að félagið geti gengið að. Styrkurinn er hreint og beint skipun til Búnaðarfélagsins um að leggja sjálft sig niður, og þar með væru búnaðarsamböndin rofin. Hinsvegar á að stofna til nýs bændaþings. En á engan hátt er það betur tryggt, að þar eigi sæti hinir beztu bændur á þessu sviði, nema síður sé. Stjórn Búnaðarfél. Ísl. er nú kosin að 2/3 af landbúnaðarnefndum beggja deilda Alþingis samkv. jarðræktarlögunum, en það er ekki á valdi. búnaðarþings að breyta þeim l. Skipun búnaðarþings fer aftur eftir l. Búnaðarfél. frá 1931, og þeim l. er erfitt að breyta áður en næstu fjárl. koma til framkvæmda. Skilyrðið fyrir fjárveitingu til félagsins er því hnefahögg til Búnaðarfélagsins, það er hnefahögg í andlit bændastéttarinnar íslenzku af hendi núv. stj.

Ég hefi nú rakið afstöðu Bændafl. til stj. og rakið afskipti hennar af landbúnaðarmálunum. Síðar gefst e. t. v. tilefni til þess að minnast á ýmis þau mál, sem hæstv. stj. hefir lagt fram hér á Alþingi, og á stefnu hennar í þeim málum. Það er haft eftir einum góðum framsóknarmanni daginn sem stj. var mynduð, að það væri ekki mikill bændasvipur á henni. Því miður er þetta satt; það er ekki mikill bændasvipur á henni. Hún hefir að vísu borið fram það frv., er fyrrv. stj. var búin að undirbúa. Það skal ég viðurkenna og þakka, og ég vil vona, ef ekki fer því óhönduglegar með framkvæmd þess, að þá geti það orðið bændum til mikils hagnaðar, en bændastéttin hefir því miður ekki orðið vör við eins mikla velvild frá hálfu stj. eins og hún hefði getað búizt við. Ríkisstj. hefir, eins og ég sagði áðan, reitt til höggs gegn einu allra helzta og bezta félagi íslenzkra bænda, stj. hefir gert tilraun til að hrifsa allt vald úr höndum Búnaðarfélagsins og leggja það í félagslegan dróma. Í fjárlfrv. hótar hún að svipta félagið ríkissjóðsstyrk og gera það óstarfhæft. Hún hefir látið ógert að bæta upp saltkjötsverðið frá 1933, þrátt fyrir lagafyrirmæli. Á sama tíma hefir hún látið samþ. l. um að greiða hlutaruppbót úr ríkissjóði til sjómanna, er síldveiði hafa stundað, og það mest til þeirra, sem hæstan hlut fengu, en minnst til hinna, er lélegasta hlutinn báru úr býtum. Hún leggur ekki fyrir þingið frv. um að framlengja lögin um vaxtalækkun á landbúnaðarmálum, sem ganga úr gildi um næstu áramót, og hún hefir tekið með kulda frv. Bændafl. um að lækka vexti af fasteignalánum bænda, af nýbýlalánum niður í 2%, af lánum Byggingar- og landnámssjóðs til endurbygginga á íbúðarhúsum úr 5% í 3%, og af öðrum fasteignalánum úr 6% í 4%. Og Framsfl. hefir tekið frv. Bændafl. um aukinn jarðræktarstyrk með skömmum frá formanni flokksins. Stj. hefir sett sýsluvegina skör lægra en bæjarvegi, og dregið úr fjárveitingu til þeirra þrátt fyrir skýlausa heimild. Stj. hefir lækkað mjólkurverðið, í beinni óþökk bænda, sem þörfnuðust meira verðs. Loks hefir hún á einum og sama degi látið fella í hv. Ed. tvær brtt., er stefndu til bóta fyrir landbúnaðinn, aðra um að greiða í verðjöfnunarsjóð gjald til þess að bæta upp verð fyrir útflutt kjöt, hina um að bændur skyldu fá framleiðsluverð fyrir mjólk sína. Stjórnin hefir þannig gengið berlega á móti hagsmunum bændanna, og veitt jafnvel högg, þar sem hlífa skyldi.

Ég bíð rólegur andsvara frá hæstv. stj. og öðrum andstæðingum. Næstkomandi mánudag mun ég og aðrir flokksmenn mínir svara þeim. Hitt vona ég, að bændaflokksmenn og aðrir sveitamenn gæti vel að, hvert horfir, og séu vakandi á verði, a. m. k. meðan ekki er meiri bændasvipur á hæstv. stjórn en nú er.