23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1935

Ólafur Thors:

Sjálfstæðisflokkurinn hefir talið rétt að notfæra sér heimild þingskapanna til þess að ávarpa kjósendur landsins við framhald 1. umr. fjárl., m. a. og fyrst og fremst vegna þeirra, sem í fjarlægðinni búa og ekki geta fylgzt með því, sem gerist í sölum Alþingis og að tjaldabaki í herbúðum stjórnmálaflokkanna.

Úrslit kosninganna í júlímánuði síðastl. komu flestum á óvart. Sjálfstæðismenn bjuggust við meiri sigri en raun varð á, og þeir munu fáir, sem gerðu sér í hugarlund, að sósíalistar og Framsókn næðu meiri hluta, enda réð því hending ein, eins og öllum er kunnugt.

Það verður að telja fullkomlega eðlilega afleiðingu kosningaúrslitanna, að Framsfl. og sósíalistar gengju til samstarfs um stjórnarmyndun og framgang mála. Hitt er stórmerkur viðburður í stjórnmálasögu þjóðarinnar, að allir 14 liðir þess málefnasamnings, sem þessir flokkar gerðu með sér, eru teknir upp úr 4 ára áætlun sósíalista. Með undirskrift sinni undir þennan samning er hélzt að sjá sem Framsfl. hafi beiðzt og fengið upptöku í sósíalistafl., enda benda síðari viðburðir til þess, að svo hafi verið til ætlazt. Að ég nefni þetta stórmerkan viðburð, er ekki af því, að samruni þessara flokka kæmi kunnugum á óvart, — þvert á móti. Heldur af hinn, að það er líklega eins dæmi í stjórnmálasögu þingræðislanda, að stór stjórnmálaflokkur renni inn í annan flokk, þegar í stað að afloknum kosningum og án þess að hafa gert kjósendum sínum aðvart fyrir kosningar. Slíkt atferli er beinlínis sviksamlegt gagnvart kjósendum, og hvort sem það kann að verða fyrirgefið eða eigi, verður að telja alveg víst, að ýmsir þeirra, er kusu Framsfl. við síðustu kosningar, séu andvígir sósíalismanum, þ. á. m. því, að ríkið eigi allar jarðir, en sjálfseignarbændur hverfi úr sögunni.

Strax eftir að hin nýja stj. settist að völdum, virðist hún hafa verið ráðin í því að geta sér orðstír fyrir athafnasemi. Er út af fyrir sig engin ástæða til að finna að því, en hitt verður að vita, að ríkisstj. í þessu skyni gaf út gersamlega að nauðsynjalausu ýms bráðabirgðalög, en það er beint brot á anda stjskr. Hefir stj. sætt ávítum fyrir þetta á Alþingi, og þá fyrst og fremst hæstv. forsrh., sem hlaut ámæli bæði sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna út af þessu. Tók hæstv. forsrh. þeim alveg réttmætu ásökunum með svo mikilli vanstillingu og óþinglegri hegðun, að víða í öðrum löndum mundi það hafa varðað vantraustsyfirlýsingu á stjórnina.

Á landsfundi sjálfstæðismanna, sem haldinn var í aprílmánuði síðastl., voru rædd öll helztu þjóðmálin og þau viðfangsefni, er þurfa þóttu bráðrar úrlausnar. Bjuggust sjálfstæðismenn við því, að þeir mundu taka við ríkisstj., og má því líta á ályktanir landsfundarins sem þá stefnuskrá, sem Sjálfstfl. mundi hafa lagt til grundvallar fyrir löggjöf og stjórnarstarfsemi, ef hann hefði náð völdum. Á þeim fundi var lögð höfuðáherzla á þrennt. Í fyrsta lagi að tryggja varfærna, skynsamlega og ráðvanda meðferð ríkisfjár. Í öðru lagi að skipuleggja sölu ísl. landbúnaðarafurða á innlendum markaði. Í þriðja lagi að efla annan atvinnurekstur í landinu, þ. á m. og einkum sjávarútveginn. Var í því sambandi lögð rík áherzla á, að lagt yrði inn á nýjar leiðir, til þess að hagnýta alla þá möguleika, sem fyrir hendi kunna að vera um sölu íslenzkra sjávarafurða.

Þó að nú svo færi sem fór, að Sjálfstfl. næði ekki völdum, þá hefir hann talið sér skylt að gera sitt ýtrasta til þess að koma þessum boðorðum landsfundarins á framfæri.

Í því skyni hafa sjálfstæðismenn í efri deild borið fram frv. um ríkisgjaldanefnd, sem mun girða fyrir, að önnur eins misnotkun á ríkisfé og átti sér stað á fyrri valdaárum Framsóknar og sósíalista geti endurtekið sig. Er ólíklegt annað en að frumvarpið nái fram að ganga, vegna þess, að sósíalistar höfðu séð sér vænlegast fyrir kosningar að lofa því fylgi.

Sjálfstæðismenn munu og freista þess að færa niður útgjöld fjárlaga, en fjárlögin eru frá hendi hins unga og óreynda fjmrh. sérstaklega ógætilega samin, einkum þegar tekið er tillit til hins óvenju erfiða árferðis. Væntir Sjálfstfl., að tillögur hans verði að einhverju leyti teknar til greina, því að þrátt fyrir auðsveipni og hlýðni einstakra þingmanna við herra sína, er ekki úrkula vonar, að almenningsálítið knýi einstaka stjórnarliða til samstarfs við Sjálfstfl. í þessum efnum.

Að öðru leyti er það um fjárl. að segja, að þau eru alveg einstök fyrir það tvennt, að útgjaldahlið þeirra er hærri en nokkurra annara fjárl., sem fyrir Alþingi hafa verið lögð, og jafnframt gætir í samningu þeirra alveg óvenjulegrar hlutdrægni. Má sem dæmi um hlutdrægnina geta þess, að lagt er til, að dýrtíðaruppbót af launum embættismanna yfir 4600 krónur, þeirra sem laun taka eftir launalögunum, sé felld niður, en hinsvegar er ekki gerð nein till. um lækkun á launum alls þess aragrúa launamanna, sem laun taka utan launalaga, en þeir eru miklu hærra launaðir. Ókunnugir koma kannske ekki auga á, af hverju þetta stafar, en kunnugir vita, að orsökin er sú, að hinir háttlaunuðu, sem eiga að halda launum sínum, eru bitlingahjörðin, sem raðað var á jötuna í fyrri stjórnartíð Framsóknar og sósíalista.

Er það með öllu óverjandi, að skattþegnarnir, sem þurfa að rýja sig inn að skyrtunni til að rísa undir nauðsynlegustu þörfum ríkísins, geta ekki verið nokkurn veginn vissir um, að sæmilegs siðgæðis sé gætt í úthlutun þessa blóðpenings.

Þessum athugasemdum um fjárlögin vil ég ljúka með því að skýra frá því, að meiri hluti Alþingis hefir eigi fundið annan mann hæfari til þess að endurskoða tillögur stj. og reyna að finna leið til þess að tryggja sem viturlegasta og réttlátasta meðferð á ríkisfé á þessum erfiðu tímum heldur en hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, manninn, sem liggur undir eilífu ámæli fyrir stórvítaverða, óleyfilega óhófseyðslu, jafnvel svo að við lög varðar, á sínum valdaárum. En þennan mann gerði þingmeirihlutinn að formanni fjárveitinganefndar. Mér er eigi ljóst, hvernig hægt er að sýna meira alvöruleysi og meiri lítilsvirðingu fyrir aðþrengdum almenningi heldur en þingmeirihlutinn hefir gert með þessu.

Að því er snertir önnur höfuðviðfangsefni landsfundarins, nefnilega skipulagningu á sölu landbúnaðarafurða á innlendum markaði, þá vil ég fúslega viðurkenna, að hæstv. forsrh. hefir a. m. k. á yfirborðinu sýnt viðleitni í þeim efnum. Frumvörp þau, er fyrir Alþingi liggja, bæði í kjöt- og mjólkurmálinu, fullnægja að ýmsu leyti tilgangi landsfundarins, og hafa því yfirleitt mætt samúð og stuðningi Sjálfstfl. á Alþingi.

Á báðum þessum frv. eru þó smíðagallar, sem enn skal ósagt um, hverju illu geta komið til leiðar, og um frumvörpin er í rauninni það að segja, að gildi þeirra veltur að mestu leyti á framkvæmdinni. Þykir því enn eigi kominn tími til að kveða upp dóm í þessum málum, að öðru leyti en því, að sjálfstæðismenn telja, að viturlegar hefði mátt skipa um forstöðu í þessum vandamálum heldur en gert hefir verið. Og það er þegar orðið tímabært að aðvara gegn hlutdrægni í framkvæmd laganna. Verði ákvæðum laganna þegar í öndverðu misbeitt, falla þau þar með sem dauður og ógildur bókstafur. Jafnframt benda sjálfstæðismenn á það, að vegna þess að gildi slíkrar löggjafar veltur mikið á því, að tryggð sé samúð neytenda, þá er óhætt að fullyrða, að Sjálfstfl. mundi hafa haft miklu betri aðstöðu til þess að fullnægja þörf bændanna.

Mikill meiri hl. neytenda, sem hlut eiga að máli, eru flokksmenn í Sjálfstfl. og hafa þess vegna af alveg eðlilegum ástæðum meiri samúð með þeim ráðstöfunum, sem rætur sínar eiga að rekja til óska og tillagna ráðamanna Sjálfstfl.

Ég nota þetta tækifæri til að mótmæla sem alveg rakalausum staðhæfingum og skætingi hv. 10. landsk., í garð blaða Sjálfstfl. út af kjötsölulögunum. Hann gat ekki um óhæfilegan rithátt Nýja dagbl. í þessu máli. Það sýnir, að hv. 10. landsk. er enn ekki með öllu losnaður úr álögum, og kann því enn ekki eins vel að fara með sannleikann í þingsalnum og í kirkjunni. Að öðru leyti get ég tekið undir margt af því, sem hv. 10. landsk. sagði um landbúnaðarmálin.

Þá vil ég víkja að þriðja höfuðviðfangsefni landsfundar sjálfstæðismanna, þ. e. a. s. viðreisn og efling sjávarútvegsins. Í þeim efnum hefir lítið bólað á úrræðum frá þingmeirihlutanum, sem kannske heldur er ekki að vænta, þar eð stjórnarliðið skortir bæði fullkomna þekkingu á og samúð með þessum höfuðatvinnuvegi landsmanna. Hefir því Sjálfstfl. orðið að taka forystuna í þessum málum, og þykir rétt að greina nokkuð nánar frá hinum stórmerkilegu tilraunum, sem Sjálfstfl. hefir gert á því sviði.

Á aðalþinginu 1933 báru sjálfstæðismenn fram till. um skipun milliþinganefndar til þess að rannsaka efnahags- og rekstrarafkomu sjávarútvegsins. Nefnd þessa skipuðu þeir Jóhann Þ. Jósefsson og Sigurður Kristjánsson alþingismenn og Kristján Jónsson frá Ísafirði. Á öndverðu þingi lögðu þeir fyrir ríkisstj. till. sínar í því skyni, að þær yrðu bornar fram á Alþingi sem stjfrv. Eftir að ráðh. hafði haft þessi frv. til athugunar í 17 daga, tilkynnti hann þeim, að hann teldi ekki fært að bera þau fram, og þá ekki heldur, að fyrirmæli þeirra yrðu lögfest á Alþingi. Þeir Sig. Kristjánsson og Jóhann Þ. Jósefsson, sem báðir eiga sæti í sjúvn. Nd., leituðu nú hófanna við samnefndarmenn sína um sameiginlegan flutning þessara mála, en þeir reyndust ekki reiðubúnir til þess, og tóku þá sjálfstæðismenn til sinna ráða, nefnil. þeirra, að bera málin fram á Alþingi einir, í fullu trausti þess, að sú þjóðarnauðsyn, sem liggur til grundvallar fyrir frv., mundi skapa þeim svo mikla samúð, er þau kæmu fyrir almenningssjónir, að einstakir þm. innan stjórnarliðsins léðust til fylgis við þau. Eru góðar horfur á, að þetta muni takast, og sjálfstæðismenn þannig fái borið fram til sigurs þessi miklu þjóðþrifamál, sem mjög margir sjómenn og útvegsmenn eiga framtíð sína undir, að leysist á farsælan hátt.

Sjálfstfl. hefir tekið til meðferðar og gert tillögur til úrlausnar í þríþættum vanda sjávarútvegsins. Hann hefir borið fram þrjú sjálfstæð frv., sem hvert um sig miðar að því að leysa sinn þáttinn í þessum örðugleikum, og þykir mér rétt að víkja örfáum orðum að þessum frumvörpum.

Frumv. um skuldaskilasjóð útvegsmanna er ætlað að leysa svipaða þörf útvegsmanna eins og kreppulánasjóður bændanna. Stofnfé skuldaskilasjóðs á að vera á millj., og grundvallarhugsunin er sú, að útvegsmenn fái að reisa sig við sjálfir á þann hátt, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum renni, um takmarkaðan tíma, til þessa sjóðs. Sjóðnum á svo að verja til þess að veita nauðulega stöddum útvegsmönnum lán, í því skyni að koma undir þá fótunum af nýju. Þessi lán eiga að vera afborgunarlaus fyrsta árið, en síðan að greiðast á 20 árum. Þau eru vaxtalaus fyrstu 3 árin, en að þeim liðnum getur sjóðsstjórnin ákveðið, að teknir skuli vextir af þeim, en þó aldrei meira en 3% á ári. — Með þessum hagstæðu lánum er svo útvegsmönnum ætlað að ná hagkvæmum samningum um afslátt og greiðslu þeirra skulda, er nú hvíla á þeim.

Annað aðalfrumv. sjálfstæðismanna er frumvarp um Fiskveiðasjóð Íslands. Tilgangur sjóðsins er fyrst og fremst sá, að veita útvegsmönnum aðstöðu til þess að endurnýja skipastólinn. Höfuðtekjustofn þessa sjóðs verður útflutningsgjaldið af sjávarafurðum, sem renna á í Fiskveiðasjóð, eftir að skuldaskilasjóður hefir fengið sinn höfuðstól, en gera má ráð fyrir, að svo verði í árslok 1940. En jafnframt er farið fram á árlegt framlag úr ríkissjóði, og einnig svo ákveðið, að fiskveiðasjóðsgjaldið samkv. lögum frá 1930 renni óskert í sjóðinn. Með þessum hætti verður stofnfé sjóðsins um 10 millj. króna. Nauðsynlegt hefir þótt að mæla svo fyrir, að sjóðurinn bæti fyrst úr þörf smærri útvegsmanna, þ. e. a. s. að í öndverðu verði veitt veðréttarlán í skip allt að 60 rúmlestum að stærð. Þar næst koma lánveitingar gegn veði í frystihúsum, lifrarbræðslustöðvum, fiskimjölsverksmiðjum og öðrum iðnaðarfyrirtækjum, sem vinna að hagnýtingu fiskiafurða. Þá koma veðlán til fiskverkunarstöðva og loks veðlán út á fiskiskip, sem stærri eru en 60 rúmlestir, en slík lán má þó eigi veita fyrr en eftir 1940, að gera má ráð fyrir, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum fari að renna í þennan sjóð.

Rökin fyrir nauðsyn þessara mála eru augljós. Hin stórmerkilega rannsókn og skýrslugerð mþn. í sjávarútvegsmálum sannar, að undanfarin 5 ár hafa útvegsmenn tapað aleigunni. Á árunum 1930, 1931 og 1932 er tap þeirra útvegsmanna, er skýrslur gáfu nefndinni, hvorki meira né minna en 8 millj. 649 þús. króna, og skortir þó nokkuð á, að allir útvegsmenn gæfu skýrslu, og í árslok 1932 er svo komið, að skuldir útvegsmanna eru orðnar rúmlega 26½ millj., en eignir aðeins tæpar 32½ millj. króna. Síðan hefir sigið í sömu átt, og þykir mér líklegt, að áhöld séu nú um, hvort meira er, skuldir útvegsmanna eða eignir, sem þó nær allar eru óseljanlegar, bæði af því að fáir geta keypt og jafnframt af hinn, að enginn vill kaupa þau framleiðslutæki, sem rekin eru með stöðugu tapi.

Vilja nú ýmsir ganga á lagið og vega að útvegsmönnum meðan þeir eru máttfarnir eftir blóðtökuna. En mikil er skammsýni slíkra heiftblindra manna, og mikil ógæfa þjóðarinnar, ef þeir fá ráðið. Því þótt útvegsmenn séu nú rúnir að fjármunum, eiga þeir í fórum sínum þá reynslu og þekkingu, sem þjóðin má ekki án vera. Undanfarin 5 ár hafa þær 32 millj., sem í sjávarútvegnum liggja, skapað yfir 90% af útflutningsvöru landsmanna, að andvirði rúml. 53 millj. króna á ári, og jafnframt hefir útgerðin staðið undir langsamlega mestum hluta ríkisþarfanna. Veit ég þess engin dæmi, að svo lítið fé fæði af sér jafnmikil verðmæti, enda kemur þar allt saman, ríkustu fiskimið, dugmesta sjómannastétt og djarfir og ráðkænir útvegsmenn.

Við sjálfstæðismenn krefjumst þess, að útvegsmenn verði réttir úr kútnum. Við beiðumst engrar ölmusu þeim til handa, alls engrar. Við förum ekki einu sinni fram á, að útgerðin fái að snara af sér klyfjunum. Við vitum sem er, að þess er enginn kostur. Þess vegna bjóðum við fram, að útgerðin haldi áfram að rogast undir háum innflutningsgjöldum af öllu, er til útvegsins þarf, kolum, salti, öllu, veiðarfærum, matvælum og sérhverju öðru, og reyni jafnvel að greiða hinn óheyrilega háa tekjuskatt, ef eitthvað skyldi rofa til.

En við viljum, að pinklunum, sem lagðir hafa verið ofan á milli klyfjanna, verði létt af útvegnum. Útflutningsgjaldinu, þessu gjaldi, sem hvergi þekkist annarsstaðar en hér, heimtum við, að útvegurinn fái að halda sjálfum sér til viðreisnar. Fyrst til þess að losna af versta skuldaklafanum og síðan til þess að endurnýja flotann. Meðalaldur togaranna er orðinn yfir 14 ár, línuveiðara 30 ár, og vélbátarnir ganga unnvörpum úr sér. Minnist ég þess, að fyrir stríðið þótti varhugavert að kaupa 5 ára gamla togara, og talið var, að þeir hefðu lifað sitt fegursta er þeir voru orðnir 12 ára. Hitt er og augljóst, að fyrir fiskiveiðaþjóð eins og Íslendinga hlýtur það að vera ófrávíkjanleg skylda, af því það er lífsnauðsyn, að halda vel við og endurnýja fiskiflotann eftir eðlilegum hætti.

Og ef til vill sýnir ekkert eins vel eymd og volæði atvinnulífsins eins og það, að nær fullkomin þögn ríkir um þá staðreynd, að árin eru smátt og smátt að breyta fiskiflotanum í ryðkláfa og fúaduggur. Svo hörð er lífsbaráttan, svo örðug glíman við hið lága afurðaverð og sligandi skattpyndingar ríkisvaldsins, að útvegsmenn geta sér hvorki tíma til þess að líta um öxl eða horfa fram á veginn, en einblína á þann hjallann, sem næstur er, til þess að missa ekki fótanna. Þannig draga þrengingar líðandi stundar athyglina frá þeim voða, sem framundan bíður, þegar útvegsmenn, sjómenn og verkamenn, þegar öll íslenzka þjóðin vaknar til fulls skilnings á þeirri hræðilegu staðreynd, að fiskiskipin eru orðin mannskaðabollar, ósjófærar fleytur, sem samt verða notaðar, af því okkar fátæka þjóð á sér ekki annars úrkosta til lífsframfæris, notaðar þar til þeim smáfækkar sem líkkistum dugmestu sjómanna heimsins.

Allt þetta, sem ég hefi nú sagt, er satt og rétt og í engu ofmælt. Flestir hv. þm. vita það og skilja. Sú vitneskja verður að knýja þá til fylgis við skuldaskilasjóðinn og fiskveiðasjóðinn. Hjálpin verður að koma áður en allt er um seinan, og ég held, að nú séu síðustu forvöð, og að einu leyti er a. m. k. mikil hætta í sérhverri bið, sú hætta, sem af því leiðir, ef útvegsmenn skyldu gugna í baráttunni, en kjarkurinn, þessi þrekmikla karlmannslund, sem aldrei vill undan láta og alltaf reynir á nýjan leik, er einmitt á tímum neyðarinnar meira virði en margan ef til vill grunar. Færi hinsvegar svo, að útvegsmenn kiknuðu, vaxa og margfaldast örðugleikar viðreisnarinnar, svo að þá verður ef til vill ekki við neitt ráðið.

Af þessum ástæðum, af umhyggjunni fyrir útvegsmönnum, sjómönnum, verkalýðnum, af skilningi þess, hversu mikið þjóðin á í húfi, skora sjálfstæðismenn á alla þm. til fylgis við þessi mál, fara fram á, að sverðin séu slíðruð og niður falli flokkadeilur þá stundina, en allir sameinist í einlægri viðleitni til þess að bjarga þjóðfélaginu.

Fjárskortur ríkissjóðs er ekki frambærileg rök gegn þessum málum. Stjórnarliðar geta aldrei neitað því, að í fjárlögum eru nær öll útgjöldin óþörf, miðað við það, að forða útvegnum frá rústum, og auk þess mundu menn jafnvel vilja vinna til að auka að einhverju leyti nýja skatta, fremur en sitja auðum höndum og hafast ekkert að gegn voðanum.

Bændur Íslands skilja þörf útvegsmanna. Frá þeim er áreiðanlega skilnings og samúðar að vænta. Öndvegismenn sveitanna, gerið þingmönnum ykkar boð og segið þeim, hvers þið óskið og af þeim væntið. Og þið, sem við sjávarsíðuna búið, látið raddir ykkar hljóma, krefjist tafarlausrar úrlausnar þessara nytjamála, án allra undanbragða. Verði þær raddir nógu margar og nógu háværar, fæst lausnin í tæka tíð, þ. e. a. s. nú á þessu þingi. Annars ekki.

Takist nú svo giftusamlega til, að leyst verði sú þörf útvegsins, er ég nú hefi rætt, mun mörgum létta. Samt sem áður má ekki leggja árar í bát, heldur verður að róa lífróður til þess að hafa sig undan þeirri öldu, er nú berst að ströndum landsins og risið hefir í fjarlægðinni. Á ég þar við þann geigvænlega voða, sem Íslendingum er búinn af haftastefnum viðskiptaþjóðanna. Verður ekki enn með vissu sagt, hverjar afleiðingar hennar verða fyrir Íslendinga, en eins og nú horfir, má telja, að þeim málum skipist sæmilega, ef Íslendingar fá að halda áfram 2/3 hluta síns sölumarkaðs í Suðurlöndum. Ýmsar leiðir liggja að því að draga úr eða ráða bót á því böli, sem við blasir, ef ekkert er aðhafzt. Er í greinargerð frumv. um fiskiráð bent á nokkur helztu úrræðin, svo sem betri hagnýtingu eldri markaða fyrir bæði saltfisk og ísfisk, og öflun nýrra markaða fyrir þær framleiðsluvörur. Ennfremur og einkum þó hitt, að lagt sé inn á nýjar leiðir í meðferð framleiðsluvörunnar, og þá fyrst og fremst með því ýmist að herða fisk eða frysta hann.

Margt af því, sem þar er nefnt, hafa menn skrafað um sín á milli og verið sammála um, að rétt væri að reyna. En við það hefir líka setið. En nú er svo komið, að ekki dugir lengur að láta við svo búið standa. Nú verða athafnir að fylgja orðum, nú verða Íslendingar að leggja inn á nýjar leiðir í meðferð, hagnýtingu og sölu sjávarafurða. Í þessu skyni verður tafarlaust að hefja skipulagðar, víðtækar og e. t. v. fjárfrekar tilraunir, undir forystu vitrustu og fróðustu manna á þessu sviði. Og til þess að tryggja þjóðinni þá forystu í varnar- og viðreisnarbaráttunni, bera sjálfstæðismenn fram frv. um fiskiráð. Frumv. mælir svo fyrir, að sjö manna ráð skuli skipa til þess að rannsaka og gera till. um bættar og nýjar aðferðir í framleiðslu og sölu sjávarafurða, útvega nýja markaði og annað, sem lýtur að vexti og viðgangi sjávarútvegsins, og ber fiskiráðinu að gera allt, sem í þess valdi stendur, til þess að koma þessu í framkvæmd. Með fyrirmælum um skipun ráðsins, er leitazt við að tryggja það tvennt, að fullnægjandi þekking á viðfangsefnum sé fyrir hendi, og jafnframt, að það sé nokkurn veginn tryggt, að það, sem fiskiráðið leggur til, komi tafarlaust í framkvæmd. Get ég að öðru leyti vísað til grg. frumv., sem prentuð hefir verið í víðlesnustu blöðum landsins og ætla má, að sé almenningi kunn.

Andstæðingar sjálfstæðismanna hafa reynt að finna þessu frumv. það til foráttu, að eigi væri nægilega séð fyrir fjármagni og valdi fiskiráðsins. En það er skoðun sjálfstæðismanna, og hún er rétt, að þessar aðfinnslur eigi við engin rök að styðjast. Þess eru nóg dæmi, þó skammt sé leitað, að slík ráð eða nefndir koma að fullu liði, enda þótt vald þeirra sé ekki tryggt með lögum. Skal ég færa á það fullar sönnur, verði það véfengt í þessum umræðum.

Undirtektir einstakra þm. í stjórnarliðinu undir þetta mál lýsa skilningsleysi, ábyrgðarleysi og fullkomnum stráksskap. En fyrir því get ég látið mér þau andmæli — eða öllu heldur árásir — í léttu rúmi liggja, og fyrir því get ég með meiri hugarró talað um þetta frumv. en frumvörpin um skuldaskilasjóð og fiskiveiðasjóð, að enn er allt í óvissu um hin síðarnefndu, en allar horfur eru á því, að fiskiráðshugmyndinni sé tryggður framgangur. Árásirnar á fiskiráðið eru nefnilega sprottnar af andúð gegn mér sjálfum, en ekki málefninu. Það sést meðal annars á því, að stjórnarliðið hefir viðurkennt þá þörf, sem liggur til grundvallar fyrir frumv., og tekið fyrirmæli þess upp í frumv. sitt um fiskimálanefnd. Höfum við sjálfstæðismenn því vakið af svefni stjórnina og lið hennar og leitt valdhafana til skilnings á voðanum. Og enda þótt umbúðirnar, sem hugmynd okkar er sveipuð í, í frumv. hv. andstæðinga, séu lélegar og með öllu óhæfar, má vonandi ráða bót á því í meðferð þingsins á frumv. um fiskimálanefnd. Tel ég því allar horfur á, að takast megi að skipa þjóðinni forystu í baráttunni gegn aðsteðjandi og yfirvofandi voða, og er þá fullnægt tilgangi okkar sjálfstæðismanna með flutningi þessa frumv.

Um frumv. stjórnarliða um fiskimálanefnd vil ég að öðru leyti segja það eitt, að í því sé ég auk hugmynda okkar um fiskiráð ekkert nema einkasölu á saltfiski. Fyrsta afleiðing þess verður sú, að sölusamband ísl. fiskframleiðenda leggst niður. Tel ég flutning þess inn á Alþingi stórvægilega yfirsjón, og verði það að lögum, sýnist mér hinar mestu líkur til þess, að af hljótist þjóðarböl, bölvun, sem við sjálfir að nauðsynjalausu höfum yfir okkur fært og aldrei fáum undir risið.

Er ég reiðubúinn að færa þeim orðum stað og mun; ef svo ber undir, gera það áður þessum umr. lýkur, enda þótt mér sé nauðugt að láta uppi allt, sem veldur kvíða mínum, af ótta við það, að opnar umræður um málið bæti á þá hættu, sem frumv. færir yfir þjóðina.

Þessi þrjú frumv., frv. um skuldaskilasjóð, fiskiveiðasjóð og fiskiráðið, eru tillögur sjálfstæðismanna um alhliða viðreisn og eflingu sjávarútvegsins. Þegar þess er nú gætt, að landbúnaðurinn selur 2/3 hluta kjöts og alla mjólk og mjólkurafurðir á innlendum markaði, og á því afkomu sína undir kaupgetu á þessum markaði, og að sú kaupgeta getur ekki skapazt með öðru en velgengni sjávarútvegsins, þá má alveg eins segja, að þessi frv. séu um alhliða eflingu og viðreisn beggja höfuðatvinnuvega landsmanna.

Það má náttúrlega afsaka ríkisstj. og hennar lið fyrir að hafa enga forystu í því að bæta úr hinni augljósu og aðkallandi þjóðarþörf á þessu sviði, vegna þess, að stjórnarliðið ræður ekki yfir nægilegri þekkingu í þeim efnum. Hitt er ámælisvert, hversu treglega stjórnarliðið hefir laðazt til fylgis við forystu sjálfstæðismanna, og það er beinlínis hneykslanlegt, hversu einstakir þm. hafa leitazt við að hafa þessi alvörumál að fíflskaparmálum, eingöngu af því, að persónuleg andúð gegn flutningsmönnunum hefir orðið yfirsterkari þeirri ábyrgðartilfinningu, sem einhversstaðar kann að leynast í hugarfari þessara manna. En þeim þm., sem setja persónulega andúð ofar þörf þjóðarinnar, munu fljótlega hljóta maklegan dóm kjósenda sinna.

Sjálfstæðisfl. hefir flutt á þessu þingi ýms önnur þarfleg mál, sem hér vinnst ekki tími til að greina frá, en þó þykir mér rétt að vekja athygli allra hinna mörgu hlustenda á tveim frumvörpum. Annað er frv. hv. 2. þm. Rang. (PM) um breyt. á kreppulánalögunum. Nái það frv. lögfestu, er þar með ráðin bót á þeim mikla ágalla kreppulánalöggjafarinnar, hversu ábyrgðarmenn lántakenda í kreppulánasjóði oft og einatt verða illa úti. Er það réttlætismál og nauðsynjamál, sem áreiðanlega mun fagna miklum vinsældum um allar byggðir landsins.

Hitt er frv. það um óðalsrétt, sem hv. 7. landsk., Jón á Reynistað, flytur ásamt nokkrum flokksbræðrum sínum.

Í grg. þess frv. segir m. a.:

„Það, sem við leggjum sérstaka áherzlu á að koma til leiðar, er:

að jarðir haldist í sjálfsábúð og að sjálfseignarbændum fjölgi,

að komið sé í veg fyrir, að óbærilegar veðskuldir safnist á jarðirnar, svo búreksturinn á þeim beri sig ekki,

að sjálfseignarbændur þurfi ekki að kaupa ábýlisjarðir sínar af meðerfingjum sínum þannig, að hver ættliður stofni þess vegna til stórskulda, er hann býr að alla æfi,

að sporna við því, að bóndi geti með óreiðu eða ónytjungshætti eyðilagt staðfestu barns síns eða ættingja eða framtíð þeirra,

að glæða og þroska heilbrigðan ættarmetnað og tryggð bænda við föðurleifð sína og íslenzkan landbúnað“.

Ég er þess fullviss, að nái þetta frumv. lögfestu, og það gerir það áður en langt um líður, mun það þegar fram líða stundir verða talið ein merkasta löggjöf og ein mesta lyftistöng íslenzks landbúnaðar.

Ég hefi nú sýnt fram á, að Sjálfstfl. hefir orðið að hafa forystuna um tillögur um lausn flestra höfuðvandamálanna, enda þótt slík skylda eigi samkv. eðli málsins að hvíla á ríkisstj. En þrátt fyrir þetta er stjórnarliðið enganveginn aðgerðarlaust á Alþingi. Þess er auðvitað enginn kostur að rekja til hlítar þær till., sem stj. og lið hennar ber fram á Alþingi, en nokkra höfuðdrætti má draga upp, og uggir mig, að úr muni verða ófögur mynd af hugarfari og hæfileikum þeirra, sem þjóðin hefir falið forystu á þessum erfiðu tímum.

Ég hefi þegar drepið á það ábyrgðarleysi og þá hlutdrægni, sem lýsir sér í samningu fjárlaganna. Við það þykir mér svo rétt að bæta þeim upplýsingum, að fjmrh. leggur fyrir Alþingi mikinn fjölda skattafrv., sumpart um framlengingu laga, sem gilt hafa um stundarsakir og ætluð voru til bráðabirgða, og sumpart algerlega nýjar, mjög stórfelldar og þungbærar skattahækkanir.

Meðal nýmæla skal tilgreint, að fjmrh. fer fram á stórvægilega hækkun á tekju- og eignarskattinum, og er sú hækkun hlutfallslega mest á lágum og miðlungstekjum, og meiri utan Reykjavíkur en í Reykjavík. Er hækkun þessi svo gífurleg, að jafnvel á 1 þús. króna tekjum er hún orðin milli 40—50%, og komin um og yfir 100% á 4 þús. króna tekjum, þegar um er að ræða einstaklinga utan Rvíkur, og það þó að miðað sé við hreinar tekjur, eins og fjmrh. gerir í þeim mjög veigalitlu tilraunum, sem hann nú að undanförnu hefir gert í blöðum sínum til þess að verja þessa einstaklega óvinsælu skattapyndingu. Á 5 manna fjölskyldu utan Rvíkur er hækkunin orðin 26% á 1 þús. króna tekjum og á 5 þús. króna tekjum er hún orðin 108%, þegar miðað er við skattskyldar tekjur, en sé miðað við hreinar tekjur, þá kemst hækkunin upp í 100% á 7 þús. króna tekjum. Þessi skattahækkun er ennþá varhugaverðari fyrir það, að útsvörin hafa til þessa verið aðaltekjustofn sveitarsjóða, og það er alveg augljóst, að eftir því sem ríkissjóður krefst hærri tekju- og eignarskatts, því erfiðara verður það sveitarsjóðum að afla sinna tekna með útsvörum. Þetta er líka þegar komið í ljós í ýmsum kaupstöðum landsins. Reykjavík reið á vaðið meðan Eysteinn Jónsson var skattstjóri, og Vestmannaeyjar, Akureyri og Siglufjörður eru nú að sigla í kjölfarið um það að leggja tolla í einu eða öðru formi á neyzluvörur almennings. Með því eru þessar nauðsynjavörur orðnar gjaldstofn, ekki eingöngu til ríkissjóðs, heldur og til sveitarsjóða. Þegar nú fjmrh. tvöfaldar tekju- og eignarskattinn, neyðir hann sveitarfélögin enn á ný til að stórhækka toll á nauðsynjavörum fólksins, og þykir sérstök ástæða til þess að vekja athygli skattþegnanna á því, að þingmeirihlutinn, sem læzt vilja lækka tolla á nauðsynjavörum almennings, efnir sín loforð þannig, að hann að vísu skortir þrek til þess beinlínis sjálfur að hækka þessa tolla ríkissjóði til hagsmuna, en neyðir hinsvegar með ráðstöfunum sínum sveitarfélögin til þess að hækka þá. Má vera, að þannig takist að blekkja almenning um stundarsakir, en hitt stendur eigi að síður óhrekjanlegt, að þessir menn, þingmeirihlutinn, eru í raun og veru að hækka tollana, og það mun aldrei dyljast skattþegunum til langframa.

Með þessu frumv. sínu hyggst ráðh. að leggja átta hundruð þúsund króna nýjan skatt á þjóðina, og verður að telja líklegt, að honum takist það, þó að vísu sé ekki ennþá með öllu víst, að sósíalistar þori að fylgja honum í þeirri herferð.

Þá er það eftirtektarvert, að fjmrh. hefir mikið gumað af því, að fátækum almenningi til framdráttar hafi hann aflétt gengisviðaukanum á kaffi. Nemur sú lækkun 75 þús. króna árlega. En jafnframt ber ráðh. fram í öðru frv. hækkun á tolli á exportkaffi, sem nemur einnig 75 þús. króna árlega, og ennfremur tveggja króna tollhækkun á hverju kg. af neftóbaki, munntóbaki og reyktóbaki, og nemur nefskattur þessi hvorki meira né minna en 140 þús. kr. árlega. En um þetta hafa blöð stjórnarliðsins lítið talað.

Þá er og meðal hinna ýmsu tekjufrumvarpa frv. um að hækka benzínskattinn úr 4 aurum og upp í 8 aura af hverjum lítra af benzíni. Er með því ætlað að ná í ríkissjóð árlega 250 þús. króna. Má mér sérstaklega vera ljúft að rifja upp fornar umr. á Alþingi um þetta mál, er ég á þinginu 1927 bar fram frv. um að breyta bifreiðaskattinum, sem miðaður var við hestorku, yfir í lágan benzínskatt. Sætti ég af þessu harðvítugri og ósvífinni árás, bæði frá Tímamönnum, og ekki síður frá benzínsalanum, hv. 2. þm. Reykv. (HV). Mun margir kannast við blaðaskrif um þetta frv., sem andstæðingar mínir nefndu aldrei annað en „litla ljóta frv.“, og sem þá var talið vera niðurdrep fyrir allar samgöngur í bílum hér innanlands, og þá ekki sízt á Suðurlandsundirlendinu. Nú bera þessir sömu andstæðingar mínir fram till. um margfaldan benzínskatt, og verður nú fróðlegt að sjá, hvernig vörn þeirra verður um þetta „stóra ljóta frumvarp“ þeirra.

Fjmrh. hefir ekki gert neina tilraun til að gera þinginu grein fyrir, hverju muni nema þeir nýju skattar, sem hann ætlar að leggja á þjóðina, enda mun hann ekki einu sinni hafa gert sjálfum sér neina grein fyrir því. Þetta er náttúrlega mjög vítavert, en að öðru leyti í fullu samræmi við allan frágang þeirra mála, sem hann leggur fyrir Alþingi, því hann er allur svo óvandaður, að þingnefndir og einstakir þm. verða að leggjast á eitt um að leiðrétta það, sem aflaga hefir farið hjá honum, svo að ekki verði til stórvansa í löggjöfinni.

Ég hefi reynt að gera mér nokkra grein fyrir, hverra tekna sé von í ríkissjóðinn af þessum nýju sköttum, og komizt að þeirri lauslegu niðurstöðu, að nýju skattarnir nema alls um eða yfir 2 millj. króna.

Heildarblærinn á fjármálastjórninni er þessi: Það er hvergi reynt að spara. Það er hinsvegar leitazt við að leggja svo háa nýja skatta á þjóðina, að jöfnuður sýnist á tekjum og útgjöldum fjárl. Ég segi sýnist, vegna þess, að þegar skattaæðið keyrir svo úr hófi sem nú er orðið, má telja fullvíst, að sumir skattarnir bregðist að meira eða minna leyti. Þetta ber vott um, að fjmrh. skilur ekki, hversu komið er högum þjóðarinnar. Hann virðist álíta öllu borgið, meðan hægt er að kreista út úr skattþegnunum það, sem stj. þarf til þess að geta leikið sér með fjármuni ríkissjóðs eftir geðþótta. Slíkt skattaæði, slíkur feigðardans á rústum lamaðs og lémagna atvinnulífs endar auðvitað í alveg fyrirsjáanlegu bráðu gjaldþroti ríkis og einstaklinga.

Það er ákaflega sorglegt, að einmitt á þessum örlagatímum, þegar þjóðinni reið lífið á, að fjármálastjórnin yrði einbeitt, sterk og hugrökk, þá skyldi til forystu veljast óreyndur unglingur, sem að vísu kann vel að fara með tölur og er tvímælalaust reikningsglöggur, en skortir auðvitað allt það samband við lífið og raunveruleikann, allan þann dýpri skilning á þörfum og getu þjóðar sinnar, sem telja má von um, að hann búi yfir eftir 20—30 ár, auðnist honum líf og heilsa. — Slík forysta stýrir ekki lukku.

Það má afsaka þennan unga mann þótt óvenjuleg framhleypni og valdafíkn hafi afvegaleitt hann upp í ráðherrasess, einmitt af því hann skortir lífsreynslu.

Flokkurinn, sem lét eftir þessum hégómagjarna ungling, á sér engar afsakanir. Samfara skattaæðinu virðist einokunarstefnan fara hamförum á Alþingi. Hefir stj. og lið hennar borið fram fjölda frv. um nýjar einokanir, á smáu og stóru. Ætla ég hér aðeins að víkja með örfáum orðum að einu af þessum frumv., svona rétt til að sýna andann, sem yfir vötnunum svífur. Það er frv. um heimild handa ríkisstj. um einkasölu á bifreiðum, mótorvélum, rafmagnsvélum, rafmagnsáhöldum og efni til raflagninga. Í l. gr. þessa frv. eru nánar tilgreindar allar þær vörur, sem ríkisstj. með frv. er heimilað að taka einkasölu á, og þær vörur eru feiknalega margar. Í 2. gr. frv. er svo sagt, að „ríkisstj. er heimilt að taka einkasölu á einum framantalinna vöruflokka án þess að hinir fylgi með, og henni er einnig heimilt að taka einkasölu á einstaka tegund innan vöruflokka þeirra, sem í 1. gr. getur, án þess að tekin sé einkasala á þeim öllum“. Frv. þetta er flutt af formanni sósíalistaflokksins, eftir tilmælum fjmrh., og það er alveg sérstaklega eftirtektarvert, að í grg. þessa frv. er ekki svo mikið sem einu orði minnzt á, hverjar tekjur það muni færa ríkisstj., né heldur hver áhrif það hafi á hagsmuni almennings í landinu.

Að sósíalistar, eins og þeir, sem að þessu frv. standa, flytja frv. um einkasölu á ákveðinni vörutegund og láta máli sínu til stuðnings fylgja grg. og skýrslu um tekjur ríkissjóðs af frumvarpinu og áhrif þess á hagsmuni almennings, verða auðvitað andstæðingar einokunarstefnunnar að sætta sig við og telja eftir atvikum eðlilegt. En frv. eins og þetta, um einkasölu á ótölulegum grúa af vörum, flutt inn á Alþingi án allrar greinargerðar, stefnir nærri því að vera hneyksli, og ekki sízt þegar þess er gætt, að frv. gefur ríkisstj. heimild, sem hún getur notað að öllu, miklu, litlu eða engu leyti, rétt eftir því, sem henni þykir henta. — Hér á landi eru nú hundruð og jafnvel þúsundir manna, sem eiga framfærslumöguleika sína alveg undir því, hvort ríkisstj. eða sá ráðh., er þetta heyrir undir, þóknast að nota þessa heimild. Hafa menn nú gert sér grein fyrir, hvaða vald ráðherra er fengið í hendur með slíkri heimild? Hvernig löggjafinn svo að segja afhendir slíkum manni umráð yfir fjármunum og atvinnu ótölulegs fjölda af borgurum í landinu? Og hafa menn gert sér grein fyrir því, hvernig hægt er að misnota slíka heimild?

Það er langt fyrir neðan allt velsæmi að flytja slík mál inn á hið háa Alþingi. Hitt er svo alveg auðljóst, að ríkissjóður, sem kominn er í mestu fjárþröng vegna óhófseyðslu sósíalista og Framsóknar á fyrri valdaárum þeirra, hefir náttúrlega engin tök á því að byrja að reka verzlun með þessar vörur, því til þess þarf margar millj. króna, sem ekki verður að telja líklegt, að nokkur gerist til að lána ríkisstj. eins og nú standa sakir. Það er þess vegna alveg sama, frá hvaða sjónarmiði þetta frv. er skoðað, það er og verður blettur á Alþingi og þeim, sem það hafa flutt inn á þingið.

Þetta eru drættir af ófagurri ásjónu, sem þó ófríkkar, ef við er bætt. Tilraunir þær, sem hafðar eru í frammi á Alþingi til þess að nota hinn hæpna og ranglega fengna þingmeirihluta, sem stj. styðst við, til þess að brjóta á bak aftur það vald, sem lýðræðislega réttkosinn meiri hluti bæjarstjórnar Reykjavíkur að lögum og samkv. stjórnarskránni hefir um stjórn og meðferð málefna Reykjavíkurbæjar, eru víst alveg einsdæmi í þingsögunni. Nægir í því sambandi að minna á frumvörpin um vinnumiðlun og verkamannabústaði, sem bæði sýna fádæma ofbeldis- og kúgunarhneigð stjórnarliðsins.

Við þetta ætla ég svo bara að bæta einni hrukku. Það eru frumvörp þau, sem stjórnarliðar bera fram eingöngu í því skyni að bægja frá atvinnu stjórnmálaandstæðingum sínum. Þau frv. eru mörg, svo sem frv. hv. 2. þm. Reykv. (Hv) um að bola Jóni frá Stóradal frá stjórn Kreppulánasjóðs, frv. fjmrh. um gjaldeyrisverzlun, sem hefir þann aðaltilgang að bægja hv. þm. V.-Húnv. úr gjaldeyrisnefnd, frv. þm. Ísaf. (FJ), sem fyrst og fremst miðar að því að bola Sveini Benediktssyni og Jóni Þórðarsyni úr stjórn Síldarverksmiðju ríkisins, frumv. um breyt. á útvarpslögunum, í því skyni að koma Helga Hjörvar frá formennsku útvarpsráðsins, vinnumiðlunin, er ég áðan drap á, sem ætluð er til höfuðs Gunnari Benediktssyni, o. fl. o. fl.

Hv. hlustendur hafa sjálfsagt veitt því eftirtekt, að ég hefi leitt hjá mér að tala um eitt aðalhneykslismál þingsins, rauðku-frumvarpið svokallaða. Þetta stafar bæði af því, að um það mái fóru fram allítarlegar útvarpsumræður nú nýverið, en auk þess hefir nú neðri deild samþykkt, að Sjálfstfl. gefist kostur á að nefna tvo menn í nefndina. Noti flokkurinn þann rétt, skal ég lofa því, að allfruntalega skal verða kippt í tauminn, svo Rauðka lulli út af þjóðnýtingarbrautinni og í áttina til annarar skrifstofu, sem aðaltamningamaður Rauðku situr á. Þar munum við sjálfstæðismenn rannsaka, hvers vegna olían er helmingi dýrari hér en í nágrannalöndunum. Þaðan munum við svo halda á Rauðku, þangað sem geymdar eru upplýsingar um það, sem almenning til sjávar og sveita varðar, upplýsingar, sem til þessa hafa aðeins verið skoðaðar gegnum rauð gleraugu.

Ég neita því ekki, að margan sjálfstæðismann hálflangar að fá sér sprett á Rauðku. Með fáum dráttum hefi ég nú leitazt við að bregða upp mynd af ríkisstj. og Alþingi. Hún sýnir að stjórnina skortir ef til vill ekki dugnað. Óhófleg og hlutdræg fjáreyðsla, nýir skattar, nýjar einkasölur, sem svipta fjölda andstæðinga atvinnu, lítilmótlegar tilraunir til þess með sérstakri löggjöf og ákvæðum fjárlaga að ná sér niðri á þeim andstæðingum, sem stjórnarliðar bera þyngstan hug til, og samtímis á sama hátt að hagna samherjum, allt er þetta dugnaður fyrir sig, dugnaður þeirrar stj., sem skortir lífsreynslu og alla yfirsýn yfir þjóðmálin, dugnaður flokksstjórnar, en ekki þjóðstjórnar, dugnaður, sem leiðir til heiftar og bölvunar, en ekki friðar og blessunar, af því hann lætur stjórnast af ógöfugum hvötum.

Þetta er myndin af stjórninni og liði hennar. Sjálfstfl. hefir auðvitað reynt að standa gegn óþrifunum. Af því spinnast deilur, og stundum harðar. Það getur hver sem vill láð okkur. Við munum ekkert tillit taka til þess, heldur verjast með öllu löglegu móti, og berjast þar til yfir lýkur og sigur er fenginn.

Samtímis hefir Sjálfstfl. tekið forystuna í þeim málum, sem þjóðin á lífsframfæri sitt undir, að vel leysist og giftusamlega, hversu sem til tekst um að knýja stjórnarliðið til fylgis.

Í örfáum orðum ætla ég að lokum að bregða upp annari mynd, mynd af þjóðinni okkar og högum hennar.

Fyrir tveim árum fór fram rannsókn á hag bændanna. Hún leiddi til þess, að Alþingi samþykkti tólf millj. króna fjárframlag til bjargar þeim bágstöddustu. Enn er þó allt í óvissu, og þó raunar heldur voða um fjárhagsafkomu bænda, þar eð búskapurinn ber sig ekki.

Milliþinganefndin í sjávarútvegsmálum hefir nú upplýst, að ennþá verr eru útvegsmenn farnir. Hálfum öðrum miljónatug hafa þeir tapað síðustu 5 árin, og standa nú uppi eignalausir með óarðbæran atvinnurekstur.

Hér við má bæta fátækum verkalýð og illa höldnum embættismönnum. Þá sjá menn þjóðarauðinn, þó að því viðhættu, að skuldir okkar erlendis eru orðnar milli 90 og 100 millj. króna, en nýjar geigvænlegar utanaðkomandi hættur steðja að þjóðinni, svo að allt má heita í óvissu um sölu framleiðsluvörunnar.

Sjá nú ekki allir menn, hver voði leiðir af því, að ríkisstj. hegðar sér eins og grimmúðug flokksstjórn. Skilja ekki allir nauðsyn þess, að valdhafarnir komi fram með fullum skilningi á og samúð með hagsmunum allrar þjóðarinnar, einnig andstæðinganna, til þess þannig að afla sér trausts og skapa sér aðstöðu til að efla til samstarfs alla beztu krafta þjóðfélagsins í baráttunni fyrir lífi og frelsi þjóðarinnar, þeirri baráttu, sem ekki getur endað nema á einn veg, ef valdhafarnir sjá ekki að sér.

ríkisstj., sem nú fer með völdin, hefir enn ekki sýnt hinn allra minnsta skilning á þessu. Hún hagar sér eins og harðvítug flokksstjórn á tímum ársældar og velfarnaðar.

Ég geri þó skyldu mína, þegar ég aðvara hana og segi: Bæti ríkisstj. ekki ráð sitt í einu og öllu, þá er það ekki slys, sem bíður þjóðarinnar, heldur sjálfsmorð.