20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

110. mál, mat á fiskúrgangi

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Sjútvn., sem hefir haft þetta frv. til meðferðar, hefir lagt til, að það verði samþ. óbreytt.

Eins og tekið er fram í grg. frv. og eins og komið hefir fram í umr. um annað mál hér í d., er fiskimjölsiðnaðurinn orðinn allverulegur atvinnuvegur hér á landi. En í grg. frv. er það tekið fram, sem mun vera rétt, að Íslendingar fái ekki eins gott verð fyrir sitt fiskimjöl eins og keppinautar þeirra erlendis, og er talin einhver aðalástæðan til þess, að ekki sé vandað til hráefnanna eins og æskilegt væri. Frv. þetta miðar að því, að meiri vöruvöndun eigi sér stað hér eftir en hingað til hefir verið. Það virðist ekki ástæða til, að ekki geti gilt um þessar afurðir eins og aðrar, að þær séu metnar og flokkaðar eftir gæðum. — Sjútvn. hefir því ekki séð neina ástæðu til að gera breyt. á frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.