23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég held, að það sé ekki bætandi á byrði hv. 10. landsk. og mun því ekki víkja að honum. En ég vil víkja að ræðu hv. þm. G.-K., sem kom hér fram fyrir hönd síns flokks. Hann hélt því fram, að í fjárlagafrv. ríkisstj. felist hreint brjálæði, að útgjaldaliðirnir væru svo háir, að þar væri um brjálæði að ræða. Ég hefi í framsöguræðu gert grein fyrir heildarupphæðum fjárlagafrv. En í sambandi við þessar umr. vil ég bæta nokkru við það, sem hæstv. atvmrh. hefir sagt um stefnu stj., og líka við það, sem ég hefi sagt hér áður við 1. umr.

Stefna ríkisstj. er sú, að auka svo atvinnu í landinu með framlagi frá því opinbera, að reynt sé að bæta aðstöðu þeirra, sem hafa hana lakari, með því að veita styrki til verklegra fyrirtækja og til atvinnugreina þeirra, sem menn leggja stund á. Þar sem stefna stj. er þessi, þá hlýtur útgjaldaliðurinn að hækka, og verður þá að sækja jafnhliða fram til þess að afla tekna móti útgjaldaaukningunni.

Ég held því fram, að það megi greina á milli stefnu íhaldsflokka og umbótaflokka í fjármálum þannig, að umbótaflokkarnir vilja hafa skatta á háum tekjum og verja því fé, sem er þannig aflað, til að bæta kjör hinna, sem verr eru stæðir, en íhaldsflokkarnir vilja hafa háa skatta á lágtekjum, og leggja ekkert fé fram til þess að bæta kjör þeirra, sem verst eru stæðir. Það hefir oft lent í erjum út af þessu. Nú verð ég að halda því fram, að með till. minni hl. fjvn. sé beinlínis sannað það, sem ég hefi haldið fram um þetta efni. Þeir flytja till. um að lækka framlagið til verklegra framkvæmda. Þið haldið kannske, að þeir flytji till. um að spara bein útgjöld? Nei, það gera þeir ekki. Allar till. þeirra fara í þá átt, að sýnilegt er, að Sjálfstfl. er í innsta eðli sínu hreinn íhaldsflokkur og ætti að heita því nafni.

Með þessum till. minni hl. fjvn. er skorið úr langri deilu um þetta efni, og er nú komin fram yfirlýsing um stefnu flokksins, og í sambandi við þá yfirlýsingu og ræðu hv. þm. G.-K. vil ég fara örfáum orðum um þetta efni. En ég get ekki farið eins rækilega út í þetta atriði eins og ég vildi, þar sem ég hefi ekki nema hálfa klukkustund til umráða. En ég vil þó reyna að segja álit mitt á þessu máli, því að ég álít, að það verði að koma fram.

Um þetta frv. ríkisstj. má það segja, að heildarstefnan er sú, að afla tekna með því að leggja á beina skatta, taka tolla af óþörfum vörum og að ná tekjum með einkasölum, þar sem hægt er að koma því við. Ég get vel skilið það, að það hafi verið freistandi fyrir hv. þm. G. K. að tala um tekju- og eignarskattsfrv. og hafa frammi blekkingar í sambandi við það, þó að ég viti, að hver einasti af hans kjósendum er með því máli, ef það er réttilega útskýrt fyrir þeim. Ég get vel skilið, að hann vilji hafa blekkingar í frammi, einkanlega viðvíkjandi þessu frv. Ég vil segja það, sem oft hefir verið tekið fram áður, að tekjuskatturinn hefir verið hækkaður á háum tekjum. Til dæmis ef maður hefir 5000 kr. tekjur, þá er hækkað á honum, og mér þætti gaman að sjá framan í þann mann, sem heldur því fram, að það séu lágar tekjur, og í sveit eru það engir, sem hafa slíkar tekjur, nema ef til vill embættismenn, og ég býst jafnvel við, að það megi finna heilar sýslur, þar sem enginn hefir svo háar tekjur. Og svo koma menn og halda því fram, að verið sé að níðast á lágtekjumönnum. Hv. þm. G.-K. var að tala um, að stj. ætlaði að fella niður toll á kaffi, en halda tolli á kaffibæti. Þetta getur nú litið nógu vel út, en hv. þm. sagði bara ekki satt, eða sagði a. m. k. ekki allan sannleikann. Hann átti að segja, að stj. legði til, að felldur væri niður gengisviðauki á kaffi og sykri. Ég játa, að í frv. stj. var fólgin nokkur hækkun á tolli á kaffibæti, en því hefir nú verið breytt svo með mínu samþykki, að sá tollur færist yfir á brjóstsykur og sódavatn. En hvernig hafa svo þessir menn, sem þykjast svo mjög bera hagsmuni lágtekjumanna fyrir brjósti, tekið á tollalækkunarfrv. ríkisstj.? Þeir hafa snúizt þannig gegn þeim, að það er augljóst, að þetta hjal þeirra er eintóm hræsni.

Til viðbótar því, sem sagt hefir verið um áætlanir stj. í fjármálum, vil ég segja þetta: Stj. vill keppa að því að auka kaupgetuna og dreifa henni til sem flestra, svo að þeir geti keypt nauðsynjar sínar. Hún vill m. a. gera þetta með því að leggja á tekjuskatt og verja því fé, sem þannig aflast, til þess að auka verklegar framkvæmdir í landinu. Ég vil taka dæmi til þess að sýna, hvernig þetta verkar. Eftir till. stj. verður tekjuskattur á 10 þús. kr. meðaltekjum hækkaður um 150 kr. Þessar 150 kr. og margar samskonar upphæðir verða til þess að auka verklegar framkvæmdir, og verða þessar upphæðir m. a. til þess að margir fá atvinnu og auknar tekjur, sem áður höfðu litlar, og geta því keypt sér ýmsar nauðsynjar. En maðurinn, sem hefir 10 þús. kr. tekjur, getur eftir sem áður keypt sér kjöt og allar lífsnauðsynjar. Ríkisstj. vill flytja peningana frá þeim, sem hafa þá of mikla, og yfir til hinna, sem hafa þá of litla. Með þessu er tvennt unnið, að bæta hag þeirra, sem atvinnuna fá, og einnig þeirra, sem selja vörur á innlendum markaði. Þetta er grundvöllurinn fyrir öllum gerðum núv. stj., vegna þess að það er aukin og dreifð kaupgeta innanlands. Það eru hagsmunir verkamanna og smáframleiðendanna, allra bænda og iðnrekenda, að innlenda framleiðslan seljist sem bezt.

Stj. er það ljóst, að það er ekki nóg að útsjá eða gera till. um framkvæmdir. Það verður jafnframt að gæta þess, um leið og kaupgetan er aukin með auknum framkvæmdum, að hún beinist ekki of mikið í eftirspurn um erlenda vöru, eða m. ö. o. að loka kaupgetuna inni í landinu. Það er fastur nauðsynlegur liður í fjármálatillögum stj. að herða á gjaldeyrisráðstöfunum og taka innflutninginn fastari tökum en áður, að gæta þess að aðeins hæfilegur hluti kaupgetunnar beinist að kaupum á erlendri vöru og þannig séu auknir sölumöguleikar innanlands, til framdráttar innlendri framleiðslu. En hvernig haldið þið, að þessum till. og áætlunum hafi verið tekið af stjórnarandstæðingum? Það er svo merkilegt, að það er óhætt að minnast á það. Þeir hafa beitt sér gegn till. stj. því hefir verið haldið fram, og þó mest af hv. 1. þm. Reykv., og það er óhætt að fullyrða, að allur Sjálfstfl. stendur bak við þá kenningu, að þessi braut sé hættuleg og skaðleg, það þurfi að slá niður kaupgetuna í landinu, svo ekki skapist of mikil eftirspurn, eða svo held ég að hv. 1. þm. Reykv. hafi komizt að orði.

Svo aumir og úrræðalausir eru þessir menn, að þeir sjá enga leið aðra, enga leið til að bæta úr vandræðunum aðra en niðurskurð á verklegum framkvæmdum.

Hvað segja menn nú um þetta, og hvernig finnst mönnum þetta koma heim? Jafnhliða og þessu er haldið fram af flokknum, þá kemur form. hans hér fram og segir, að landbúnaðurinn eigi afkomu sína undir kaupgetunni innanlands. Þetta segir form. þess flokks, sem heldur því fram, að eigi að slá kaupgetuna niður. Þetta er hræsni, og það ósvinn hræsni fyrir kjósendum. Hv. þm. G.-K. talaði mikið um, að menn skyldu gefa góðan gaum að till. Sjálfstfl. í fjármálum, því það mætti vænta þess, að þær hefðu mikil áhrif á afgreiðslu fjárl. hér á þingi, og það er sjálfsagt að eyða tíma í að gefa till. gaum. Ég ætla því að bæta úr því, sem hv. þm. G.-K. átti vangert. Hann gerði nefnil. engar tilraunir til að sýna, í hverju tillögurnar væru fólgnar. Ég skal því taka af honum ómakið og gera það. Ég skal benda á, á hvaða leið Sjálfstfl. er. Þó till. séu blekkingartill., er ekki einskis virði að gera sér grein fyrir, af hverju þær eru settar fram. Þær eru settar fram með það fyrir augum, að kjósendur trúi því, að þetta hefði flokkurinn gert, ef hann hefði farið með völdin, en nú nái þessar tillögur ekki fram að ganga. Þá eiga kjósendur að hugsa sem svo, að það sé af illvilja stjórnarflokkanna. Við skulum því gera okkur grein fyrir, hvort heil brú er í þessum till. Sjálfstfl. og hvort óhætt sé að trúa því, að þær hefðu verið framkvæmdar, ef Sjálfstfl. og Bændafl. hefðu fengið meiri hl. og myndað stjórnina. Ef niðurstaða rannsókna okkar verður sú, að þessir flokkar hefðu framkvæmt það, sem till. gera ráð fyrir, þá er eðlilegt, að þeim vaxi fylgi, en ef niðurstaðan verður hinsvegar sú, að þær séu settar fram til að sýnast, séu eingöngu blekking, þá mun þetta ekki verða til að auka fylgi þessara flokka.

Nú vita menn, að ekki var nema um tvennt að velja eftir síðustu kosningar, annaðhvort að Sjálfstfl. og Bændafl. mynduðu stjórn saman, eða þá hitt, að Alþýðufl. og Framsfl. mynduðu stjórn saman og yrðu að jafna saman sínum till. eins og nú liggur fyrir í þessu fjárlfrv. Þess vegna verðum við að gera okkur grein fyrir, hvernig tillögur Sjálfstfl. og Bændafl. verkuðu samanlagt, ef þær væru samþ., því vitaskuld meinar Bændafl., að hann hefði komið sínum till. fram með stuðningi Sjálfstfl., og Sjálfstfl. meinar það sama, ef meiningin er annars nokkur. A. m. k. er til þess ætlazt, að kjósendur líti svo á.

Útgjöldin í þessu fjárlfrv. eru áætluð 13,7 millj. króna. Sjálfstfl. hefir lagt til, að framlag til verklegra framkvæmda yrði lækkað um 620 þús. kr. En sami flokkur hefir lagt til, að Fiskveiðasjóði yrðu veittar 160 þús. kr., og mér heyrðist hv. þm. G.-K. lýsa þeirri nauðsyn með miklum fjálgleik. M. ö. o., ef aðeins eru teknar till. flokksins sjálfs, og það hefi ég gert, en ekki reiknaðar till. einstakra flokksmanna, sem þeir munu bera fram fyrir sín kjördæmi, til að geta talað um þær og sagt, að hefðu verið framkvæmdar, ef „ekki sens“ Framsóknar- og Alþýðufl. hefðu ekki ráðið, ef þeim kröfum öllum er kastað í pappírskörfuna, þá eru þó gjöldin eftir till. sjálfstæðismanna 13,3 millj. kr. Nú eru tekjurnar áætlaðar tæpar 12 millj. kr. Sjálfstfl. gerir till. um, að útflutningsgjald af sjávarafurðum renni í skuldaskilasjóð, og nemur það um 800 þús. kr. Þá flytja þeir till. um, að helmingur tekju- og eignarskatts renni til bæjar- og sveitarsjóða, eða 125 þús. kr. Þessar lækkunartillögur nema frá frv. stj. 925 þús. kr. Hinsvegar hafa þeir beitt sér á móti lækkun á kaffi- og sykurtolli, er nemur um 225 þús. kr. Útkoman verður því eftir till. Sjálfstfl. tekjulækkun, er nemur 700 þús. kr. Tekjurnar mundu þá verða eftir till. Sjálfstfl. 11250 þús. kr. Sjá menn þá, að á fjárl. yrði um 2 millj. kr. greiðsluhalli, ef fylgt væri till. Sjálfstfl.

Þetta þýðir því ekki annað en það, að annaðhvort meina þeir ekkert með skrafi sínu um tekjuhallalaus fjárlög, eða þá hitt, ef þeir kjósa þann kostinn heldur, að þeir meina ekkert með tillögunum, sem þeir flytja, og geta þeir að sjálfsögðu valið um, hvort þeir vilja láta álíta. En sagan er ekki öll sögð enn, því hér við bætist, að ef þeir ætluðu að standa við sín stefnumál, að leggja niður ríkisstofnanir, þá myndu skerðast tekjur ríkissjóðs um 740 þús. kr. Ef flokkurinn hefði staðið við þetta stefnumál, sem hann hélt mjög fast fram í kosningunum í vor, og ég vil ekki ætla, að hann hefði svikið eða þorað að renna frá, þá hefði tekjuhalli á fjárl. eftir till. flokksins, sem hann hefir fram haldið á þessu þingi og í kosningunum, numið 2800 þús. krónum.

Ég þarf ekki að taka það fram, sem allir vita, að þrátt fyrir það, að allar þessar till. eru blekkingar, og ekkert annað, þá hafa þeir verið á móti hverri einustu till., sem fram hefir komið og miðar að tekjuauka fyrir ríkissjóð. Þeir hafa verið að skrafa um, að þeir væru fúsir til samvinnu um tillögur í því að auka tekjurnar, en þeir hafa ekki komið fram með neitt ákveðið. Ef hækka á hlutfallslega skatta og tolla miðað við 2,8 millj. kr. greiðsluhalla, hvað er þá orðið um „hina sliguðu ríkissjóðsbykkju“, sem þeir hafa kallað svo. En nú er eftir einn þátturinn enn, og það er Bændafl. og allar hans miklu kröfur, sem hann vill láta líta svo á, að hann hefði gert og komið fram fyrir að ljá Sjálfstfl. fylgi. Hvernig hefði útkoman þá orðið, ef hans kröfum væri líka sinnt ofan á 2,8 millj. króna greiðsluhalla Sjálfstfl. Bændafl. flytur till. um ½ millj. kr. framlag úr ríkissjóði til bændanna, og ennfremur till. um, að fasteignaskatturinn úr sveitarfélögunum renni til þeirra, og skerða þannig tekjur ríkissjóðs um 150 þús. kr. Þeir vilja sýna, að þeirra krafa f. h. bændanna sé líka stór, eða um 700 þús. kr. Ef þeir hefðu ráðið, auðvitað með Sjálfstfl., og komið sínum kröfum fram, hefði greiðsluhalli fjárl. komizt upp í 3,5 millj. kr. Og öllum þessum till., segja þeir svo í þessum umr., er Framsókn og Alþfl. á móti! En er það til svívirðingar fyrir stj., þó hún vilji ekki afgreiða fjárl. með 3,5 millj. kr. greiðsluhalla? Þó á ég ótaldar allar till. einstakra þm. úr þessum flokkum, sem þeir eiga eftir að tönnlast á heima í héraði, að þeir hefðu komið fram, ef stjórnarflokkarnir hefðu ekki staðið í vegi. En af hverju eru till. þeirra eintóm endileysa? Hvernig stendur á því, að þessir flokkar bera fram kröfur og aftur kröfur? Af því það er ætlazt til þess, að það slái ryki í augu þeirra manna, sem ekki vilja eða geta gert sér grein fyrir málunum í heild.

Nú farið þið e. t. v. að skilja, hvers vegna form. Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., vanrækti að gera grein fyrir stefnu Sjálfstfl. í fjármálum, sem hann vænti, að til hliðsjónar yrði höfð um alla afgreiðslu fjárl. á þessu þingi.

Að lokum vil ég svo aðeins taka það fram, og get áreiðanlega mælt það fyrir hönd allrar stj., að hún treystir svo á dómgreind alls almennings, að hún er óhrædd við þennan loddaraleik, sem hér er leikinn af hálfu stjórnarandstæðinga. Allir, sem hugsa um þessi mál og hafa vit á að gera sér grein fyrir því, um hvað er að ræða, munu sjá muninn á till. núv. stj. og þeim till., sem hefðu orðið framkvæmdar í fjármálum, ef Bændafl. og Sjálfstfl. hefðu ráðið, og kunna að gera mun á þeim tekjuöflunaraðferðum, sem nú er beitt.