31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

105. mál, síldar- og ufsaveiði

Flm. (Jónas Guðmundsson):

Þetta frv. er ákaflega smávægilegt, og vænti ég þess, að það þurfi ekki að tefja tímann til muna. Eins og menn vita, hafa allir greitt landshlut af þeim fiski, sem dreginn hefir verið á land annars manns. En síðan farið var að nota herpi- og snurpinætur, hefir þetta orðið dálítið efamál um landshlutinn og oft risið ágreiningur um, því nótin er ekki dregin á land. Er því æskilegt að fá þessu breytt. Ég vildi aðeins taka það fram, að frv. þetta er flutt fyrir eindregin tilmæli fiskiþingsins og flestra þeirra fiskimanna, sem hlut eiga að máli, til þess að fyrirbyggja þrætur, togstreitu eða málaferli síðar út af landshlut.

Ég tel ekki þurfa langa framsögu um þetta frv. Býst ég við, að öllum, sem til þekkja, sé þetta mál ljóst, og menn séu sammála um þessar breyt. Vildi ég svo mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni, og til sjútvn.