14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

105. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég gat þess við 2. umr. málsins, að álitamál væri, hvort ekki væri rétt að taka efni tilskipunarinnar frá 12. febrúar 1872 að öllu leyti upp í þetta frv. Ég hefi þó komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki komi að sök, þó að þetta verði ekki gert að þessu sinni. Breyt. er ekki svo mikil, að bein ástæða sé til þess að gera þetta nú, en mér virðist samt, að efni tilskipunar þessarar sé orðið svo gamalt, að full ástæða sé til að taka hana til alvarlegrar meðferðar og að breyta henni í lagaform. Ég vildi láta þetta koma fram og beina því til ríkisstj., að þetta mál væri til athugunar framvegis.