26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1935

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ræða mín mun að þessu sinni vera sundurlaus, vegna þess að ég þarf að svara nokkrum atriðum, sem er að nokkru leyti endurtekning á því, sem áður hefir verið sagt um ýmis mál.

Ég vil þá fyrst víkja að hv. 1. þm. Skagf. Það er í raun og veru ekki nema eitt atriði úr ræðu hans, sem ég þarf að svara, og það er viðvíkjandi Björns Gíslasonar málinu. Hann minntist á það, að ég hefði haldið því fram, að Björn Gíslason hefði ekki verið settur í fangahúsið, þó að svo hefði átt að vera. Hann hélt því fram, að deila okkar á fundum í Skagafirði í vor hefði aðallega snúizt um þetta atriði.

Það er fyrst og fremst rangt, að deilur okkar hafi aðallega snúizt um þetta, heldur um fjölda mörg dæmi um misnotkun á náðunarvaldinu, sem þessi fyrrv. dómsmrh. var kunnur að, og ég færði þar rök að, en þetta var aðeins eitt af því. En viðvíkjandi þessu máli er það að segja, að það stóð yfir í 3 ár og er eitt af mörgum málum, sem átti að beita gegn mér, meðan ég var lögreglustjóri, eitt af þeim málum, sem átti að nota til að ryðja mér úr veginum. Þessi maður hafði hvað eftir annað sloppið úr greipum þeirra, sem við hann höfðu átt, og nú var það trú, að með því að hjálpa honum í þessu máli mætti takast að koma mér á kné. En það mistókst, eins og aðrar þær herferðir, sem farnar voru gegn mér, svo sem ljúgvitnamálið og lögregluþjónamálið. Og ég býst við, að þeir, sem hafa staðið að þeim, mundu helzt óska eftir, að þeir hefðu aldrei lagt út í það.

En um Björn Gíslason er það að segja, að hann var af fyrrv. dómsmrh. settur í fangahúsið, en þoldi ekki refsinguna eftir nokkurn tíma, gat ekki sofið, en þoldi ekki svefnmeðöl. Fékk hann því hvíld frá refsingunni um tíma, og það er ekki skipt sér af því, hvar hann dvelst á meðan, og nú er heilsa hans undir eftirliti prófessors landsspítalans, Jóns Hjaltalíns. En um það snerist deilan, þegar við ræddum um Björn Gíslason, hvort almennir læknar eins og Eiríkur Kjerúlf, sem ég skal annars ekkert um segja, ættu að ráða, hvort menn væru settir í fangahús eða ekki, en það var vottorð frá þessum manni, sem byggt var á af fyrrv. ráðh. Um það var aðallega deilt, svo að þessi rökfærsla hefir ekki við neitt að styðjast. Þessi maður verður vitanlega látinn taka út sína refsingu, þegar prófessor Jón Hjaltalín álítur rétt að láta halda því áfram.

Það væri gaman, þótt ég sjái ekki ástæðu til, að taka upp aftur þær umr., sem fram fóru í vor í Skagafirði. Ég hefi enga ástæðu til að gera það, en það væri gaman, ef þessi hv. þm. og fyrrv. ráðh. vildi minnast á eitthvað af þeim, en það mundi taka mig of langan tíma að tala um öll hans afglöp, sem hann reyndi ekki að hrekja einu orði.

Þá skal ég koma að því, sem hv. þm. Borgf. minntist á í sinni ræðu, og eru þar aðeins örfá atriði, sem ég þarf að drepa á. Vil ég þá fyrst minnast á það, sem hann sagði viðvíkjandi framkvæmd mjólkurlaganna. — Það er gott, að hann kemur nú inn í deildina og heyrir á mál mitt.

Hv. þm. sagði, að ekki væri búið að ákveða, hvort mjólkurbú Borgarness væri tekið inn á verðjöfnunarsvæðið. Ég er undrandi yfir því, að hv. þm. skuli láta sér detta í hug að færa þetta fram sem rök. Það var minnzt á þetta mál hér á þingi fyrir nokkrum dögum. Þá upplýsti ég það, að búið væri að ganga frá þessu atriði viðvíkjandi mjólkurbúi Borgfirðinga einmitt í samráði við hv. þm. Mýr. Og þegar ég hafði tekið þetta fram í fyrsta skipti í hv. Nd., þá gekk þessi hv. þm. til formanns mjólkursölunefndar, Sveinbjörns Högnasonar, og spurði hann, hvort þetta væri rétt hjá mér, og hann staðfesti þetta. Síðan datt honum ekki í hug að mótmæla þessu á neinn hátt. En nú kemur hann og vill draga þetta í efa, þegar hann er að tala til kjósenda sinna uppi í Borgarfirði. Þá dregur hann í efa, að frá þessu hafi verið gengið. Þetta kalla ég ákaflega óheiðarlega málfærslu á þingi.

Sömuleiðis er það málfærsla, sem er óviðeigandi, þegar þessi hv. þm. fer að minnast á verðjöfnunargjaldið. Það er einkennilegt að sjá og heyra, hvernig röksemdir sjálfstæðismanna fara fram um verðjöfnunargjaldið. Því er haldið fram, þegar talað er til bændanna úti um landið, sem greiða gjaldið, að það komi fyrst og fremst niður á þeim, og það gerði hv. þm. Borgf., því að hann hefir það hlutverk. En þegar talað er um það í Ed., þá talar hv. 1. þm. Reykv. um það, að það komi eingöngu niður á neytendum, því að verðið sé miðað við það, að bændur fái nógu mikið fyrir sitt kjöt, en síðan sé þetta gjald lagt ofan á. Það hefir líka sézt í blaðagreinum, þar sem hefir verið deilt á jafnaðarmenn og verið reynt að vekja mótstöðu þeirra með því að ala á því, að neytendur verði að greiða þetta gjald. Þetta er í góðu samræmi við það, sem hv. þm. Borgf. heldur nú fram, nefnilega að framleiðendur greiði gjaldið!

Hv. þm. minntist á framkvæmd laganna yfirleitt og sagði, að mikið væri komið undir því, að hún tækist vel. Þetta minntist hv. 10. landsk. einnig á. En það hefir verið viðurkennt undir umr. um þessi mál, að sá maður, sem hefir verið valinn fyrir framkvæmdastjóra í kjötmálinu, hafi verið alveg sérstaklega vel valinn. Þetta var viðurkennt í Ed., en það þótti ekki ástæða til að taka það fram hér, þegar verið var að tala um, að framkvæmd laganna hefði ekki tekizt sem bezt, þó að engin rök væru að því færð.

Þá skal ég koma að hv. 10. landsk. Hann minntist sérstaklega á það í upphafi ræðu sinnar, hversu ég hefði verið með mikinn hroka, þegar ég flutti síðustu ræðu mína, þ. e. a. s., þegar ég talaði hér síðast í útvarpið. Ég er ekki vanur að svara því sérstaklega, sem er persónulega að mér beint, og ég þarf þess ekki heldur, ég þekki dómgreind almennings. Ég ætla því ekki að fara langt inn á ræðu hans, þar sem hann var að dæma mig, en vil þó minnast á eitt atriði, og það var um þennan hroka, sem ég hefði verið með. Ég er ekki vanur að ráðast með hroka að mönnum að fyrra bragði, sem ekkert hafa unnið til, en ég hefi það stundum til að svara óvægilega árásum, sem beint er gegn mér. Og ég held, að þeir, sem hafa verið með mestan hroka að undanförnu, og bendi ég þar til þeirra mála, sem ég minntist á áðan, hefðu helzt kosið að hafa ekki byrjað á þeim hroka, og ég vil segja í því sambandi, að það verði erfitt að sýna fram á, að ég hafi sem dómari sýnt hlutdrægni eða hroka og ennfremur, að mér hætti sérstaklega við að sýna það, sem sé eitthvað skylt við hroka, þegar ég tala við þá menn, sem ég hefi mesta andúð á, en það eru þeir menn, sem aldrei vita, í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, og eru alltaf hálfir í hverju máli. Það eru þeir menn, sem ég fyrirlít og hefi alltaf gert. Og nú skal ég sýna fram á, að þessi hv. þm. hefir hagað sér þannig í afurðasölumálinu og málum yfirleitt, að hann hefir aldrei þorað að vera afgerandi, aldrei vitað, í hvorn fótinn hann átti að stíga. Ég skal sýna fram á þetta með rökum, en áður en ég geri það, vil ég víkja örlítið að einu atriði, sem þessi hv. þm. minntist á.

Hann minntist m. a. á það, að ég hefði sagt, að Bændafl. væri dauður, en þó héldi hann uppi flokksstarfsemi. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að ekki alls fyrir löngu sendi form. Sjálfstfl., Ólafur Thors, út bréf, þar sem hann skýrir frá því — og þetta bréf hefir verið birt í viðlesnum blöðum, af því að það náðist í eitt eintakið —, að það hefði ekki munað nema hlutkestinu í Skagafirði, að sjálfstæðismenn næðu meiri hluta í þinginu. M. ö. o., hann segir frá því skýrum stöfum, að þeir eigi þessa deild, þessar leifar af tilraun til flokksmyndunar, sem er réttasta nafnið yfir þennan svokallaða „Bændaflokk“. Hann er bara sérstök deild, sem hefir verið stofnuð innan Sjálfstfl. til að halda þar uppi einstakri starfsemi, ekki flokksstarfsemi, heldur hefir hann það sérstaka hlutverk innan Sjálfstfl. að reyna að koma inn tortryggni hjá almenningi gagnvart þessari stj., hræða menn með þessari svokölluðu sósíalistagrýlu. Í sambandi við þetta vil ég minna á það, að það voru íhaldsmenn, sem beittu sér fyrir því í vor í Vestur-Húnavatnssýslu, að Hannes Jónsson yrði kosinn á þing. Hann hefir líka verið kallaður af flestum hér „mamma Bændaflokksins“, því að ef hann hefði ekki náð kjöri í Vestur-Húnavatnssýslu, hefðu hinir ekki komizt að sem uppbótarmenn. Það er því á valdi Sjálfstfl., hvort hann vill koma „mömmu“ inn á þing í annað sinn, og þar með hvort þessi „flokkur“ verður til framvegis. Og það er kannske vegna þess, að þessi hv. þm. greiðir atkv. í hverju einasta máli eins og Sjálfstfl. Hann vonar, að sjálfstæðismenn geri samskonar tilraun með hann við næstu kosningar, svo að hann fái einnig þá að fljóta inn á þing fyrir þeirra náð. En ég hefi enga trú á, að sjálfstæðismenn geri þessa tilraun í annað sinn, af því að þeir sáu, hversu geipilega hún mistókst síðast, en líklegra, að þeir geri aðra dulklædda tilraun næst, af því að þessi er orðin uppvís. En það er misnotkun á þingsköpum að láta þessa deild úr Sjálfstfl. hafa sérstakan ræðutíma, því að þá geta flokkarnir með því að skipta sér í deildir aukið við sinn ræðutíma.

Þá skal ég koma að einstökum atriðum í ræðu hv. þm., og vil ég þá fyrst víkja að Búnaðarfélaginu, og verð ég að vera þar stuttorður.

Síðan Búnaðarfélagið lenti í deilunni við Sigurð Sigurðsson, hefir það aldrei borið sitt barr. Síðan hefir það ekki verið neinn félagsskapur, eða a. m. k. ekki heilbrigður félagsskapur. Búnaðarfélagið ákærði Sigurður Sigurðsson fyrir að hafa gert sig sekan um stórvægileg embættisafglöp. En svo hafði félagið ekki þrek til að skera úr um það, hvort Sigurður ætti að fara, og það er einmitt þetta þrekleysi, sem hefir komið fram í öllum þess störfum síðan. Það hafði ekki þrek til að skera úr um þetta, heldur var Sigurður látinn vera kyrr og settur undir eftirlit. Það voru settir tveir búnaðarmálastjórar, og það hefir valdið því, að síðan hafa stöðugt verið óeirðir í félaginu og það ekki verið starfhæft.

Það má einnig benda á það í þessu sambandi, að sumir ráðunautarnir hafa varla komið í Búnaðarfélagið svo árum skiptir. Það hafa meira að segja liðið svo heil sumur, að þeir hafa ekki einn sinni sótt laun sín í Búnaðarfélagið, heldur látið börn sín gera það. Og það komst jafnvel svo langt í vor, að í Búnaðarfélaginu var lokað um langan tíma. Þá komu bændur í stríðum straumum að lokuðum dyrum í Búnaðarfélaginu. Enginn einasti maður við í Búnaðarfélagi Íslands. Hugsið ykkur þetta ástand! Hugsið þið ykkur, ef einhver deildin í stjórnarráðinn, t. d. dómsmála- eða atvinnumáladeildin, hefði verið lokuð dag eftir dag.

Hv. þm. sagði, að sjálfur hefði hann leitað upplýsinga hjá Búnaðarfélagi Íslands um öll vandamál. Ég vil nú benda á eitt mál, sem hefir vakið sérstaka athygli, vegna þess hvernig það var framkvæmt. Það var framkvæmt af þessum hv. þm., fyrrv. landbrh. Það voru kaupin á ensku nautgripunum. Hvernig stóð á því, að þessi þáv. ráðh. leitaði ekki upplýsinga í Búnaðarfél. hjá ráðunautunum í nautgriparækt? Það kom líka síðar í ljós, hversu vel allt var undirbúið. Nautgripirnir kostuðu stórfé, og þegar til kom, reyndust þeir hættulega veikir, svo að varð að skera þá alla niður, svo að af þessu hlauzt ekkert nema kostnaður. Þetta er nú ein af stjórnarframkvæmdum fyrrv. hæstv. ráðh.

Nei, Búnaðarfélagið verður nú tekið til alvarlegrar athugunar, til þess að gera það starfhæft sem stofnun bændanna. Það þýðir ekki að fara í kringum það, að félagið má ekki halda áfram að starfa í því öngþveiti, sem það er í nú. Með þeirri innbyrðis styrjöld, sem nú er í félaginu, getur það ekki komið bændum að því gagni, sem það á að koma. Þess vegna mun ekki verða hikað við að gera þær breytingar á Búnaðarfélaginu, að það verði starfhæft, en til þess hafði þessi hv. þm. ekki þrek, og það er einmitt þetta úrræðaleysi, sem einkennir allar aðgerðir þessa hv. þm. hvar sem er. — Skal ég nú rekja nokkur mál, þar sem þessi hálfvelgja og slepja sýnir sig hjá honum. Vil ég þar fyrst minna hann á kjötsölumálið og þá heimild, sem hann hafði til að skipuleggja kjötsöluna. Hann segir, að kjötsalan hafi ekki verið takmörkuð á erlenda markaðnum. En það veit hver maður, að takmarkanir voru komnar á erlenda markaðnum árið 1933. Þá var búið að takmarka markaðinn bæði í Englandi og Noregi. Það vissi enginn, þegar byrjað var að slátra um haustið, hvernig sláturtíðin mundi verða. Má benda á, að þá var selt mikið kjöt til Noregs fyrir mjög lágt verð. Það var því skylda hans að nota þessa heimild til að skipuleggja innlenda markaðinn, en hann gerði það ekki, af því að það var á móti hagsmunum þeirra manna, sem hann átti að vinna með, — kjötkaupmannanna í Reykjavík. Þess vegna notaði hann ekki heimildina.

Sama er að segja um nefndina, sem skipuð var til að rannsaka afurðasölumálið. N. var skipuð, en þessi hv. þm. lét hana ekki starfa fyrr en eftir kosningar. Þetta gerði hann til að láta líta svo út, að eitthvað væri gert, en hann þorði ekki að láta gera neitt vegna bandamanna sinna.

Sama er að segja um mjólkurmálið. Það var fyrst og fremst borgarstjóra Reykjavíkur að kenna að mjólkurmálið var drepið í höndunum á honum. Hv. þm. hafði hvorki þrek né lagni til að koma málinu svo í kring, að það yrði bændum að neinu gagni.

Alveg er sama máli að gegna um heimildina til að greiða vaxtauppbótina. Ég minntist á það síðast, þegar ég talaði í útvarpið, að ekki hefði verið séð fyrir þeim peningum, sem þurfti, til að hægt væri að greiða þessa uppbót. Og hvers vegna? Vegna þess, að ef séð hefði verið fyrir þessu fé, sem nú verður að afla til þess hægt sé að greiða þessa uppbót, þá hefði það fyrst og fremst komið niður á þeim hátekjumönnum, sem hann var að vinna með.

Alveg það sama var uppi á teningnum með kjötuppbótina. Hann segir: „Hvers vegna var ég að auglýsa það í útvarpinu í heilan mánuð, að menn kæmu með umsóknir sínar?“ Ég skal segja honum það. Hann auglýsti það í heilan mánuð, af því að það var rétt fyrir kosningarnar, en hann vissi hinsvegar, að þeir peningar, sem átti að hafa til þess að greiða þetta, þeir voru ekki til. Ríkiskassinn var tómur, þegar þessi hv. þm. skildi við. Vegna hvers gerði hv. þm. þetta? Vegna þess, að þessir menn, sem þessi hv. þm. vann með, vildu ekki leggja fram féð. En hann auglýsti til þess að láta það sýnast, að hann ætlaði að gera þetta. Þessi hálfvelgja í störfum þessa hv. þm. kemur fyrst og fremst af því, að þessi hv. þm. vissi, að þeir menn, sem hann vann með og gekk yfir til, þegar hann skarst úr leik í Framsfl., voru mótfallnir þessari löggjöf. Þess vegna gerði hann það ekki. Hann var undir áhrifum þeirra og gat ekkert gert fyrir þá sök.

Ef einhver dregur það í efa, að þessir menn hafi verið mótfallnir að framkvæma þessi l., þá væri fróðlegt, ef tími væri til, að lesa upp nokkra kafla úr greinum úr sjálfstæðisblöðunum um þessi mál. En viðvíkjandi þessari gr. í „Framsókn“, sem hv. 10. landsk. las upp úr, þá er það að segja, að hann las ekki upp þann kafla, sem aðallega skipti máli í þessu sambandi, en ég verð að bíða með það þangað til seinna, þar sem tími minn er kominn að þrotum. En ég vil benda hv. þm. Borgf. á, þegar hann er að tala um þá miklu velvild sjálfstæðismanna í garð afurðasölumálsins, að þegar form. Sjálfstfl. er að koma með yfirlýsingu um þá velvild, sem þeir hafi skapað um afurðasölumálið, því að þeir voru orðnir hræddir um sig og vildu neita því, sem þeir höfðu áður sagt, og reyna að sannfæra menn með því að láta þessa yfirlýsingu í útvarpið, að það birtist daginn eftir í Vísi grein um þetta mál, og vil ég láta þá, sem hér eru innan veggja, og þá, sem eru fjær og hlusta á mál mitt, heyra, hvaða velvild lýsir sér þar. Greinin heitir: „Hvert stefnir. Ætla Reykvíkingar að láta flá sig lifandi“. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp nokkra kafla úr þessari grein :

„Sósíalistar lofuðu bæjarbúum hér verðlækkun á mjólk. Þeir tilkynntu, að hver mjólkurlítri skyldi lækka í verði um 7—8 aura. Og sumir forsprakkarnir börðu í borðið og sögðust gera uppistand, ef þetta fengist ekki. Sömu menn hétu því, að kjöt skyldi ekki hækka í verði. Efndirnar urðu þær, að mjólkin lækkaði um 1½ eyri hver lítri og kjötið hækkaði um 33%“.

Þetta er nú inngangurinn í umræðum flokksmanna hv. þm. Borgf. og samstarfsmanna hv. 10. landsk., þeirra, sem hann ætlaði að leysa afurðasölumálið með. En nú skal ég halda áfram, því að ekki fer það batnandi:

„Það rekur auðsjáanlega að því, ef svo fer fram, sem nú horfir, að Reykvíkingar verði að breyta allmjög til um búskaparlag. Þeir verða m. a. að breyta um mataræði, reyna að gera fæðið ódýrara. Reykjavík er sjávarútvegsbær og verzlunarbær. ... Hvað er nú eðlilegra en það, er henni er sagt stríð á hendur, og reynt að koma henni á kné með öllu móti, að hún reyni að búa sem mest að sínu. Hún ætti að gera fisk og síld að höfuðfæðutegund sinni, auk mjólkur, viðbits og kornmatar“.

Hér er verið að gefa Reykvíkingum í skyn, að þeir eigi ekki að kaupa kjöt. En svo kemur aðalrúsínan:

„Mér finnst, að bæjarbúar ættu að hugleiða, hvort þeir gætu ekki aukið neyzlu þeirra matvörutegunda, sem þeir framleiða sjálfir, því að það er óneitanlega leiðinlegt að vera að knékrjúpa bændum og rella við þá um kjöt eða annað, sem þeir vilja náttúrlega helzt vera lausir við að selja okkur ræflunum, sem þeir láta blöð sín alltaf vera að svívirða.

Fiskurinn er svo ódýr og holl og góð fæðutegund, að ekki mundi skipt til hins lakara, þó neyzla hans væri aukin. Og sama máli gegnir um síldina“.

Með öðrum orðum, hv. 10. landsk. klauf sig frá framsóknarmönnum einmitt vegna þess, að hann taldi, að betra væri að leysa afurðasölumálið með sjálfstæðismönnum, og þegar hv. þm. Borgf. kemur fram og staðhæfir, að sjálfstæðismenn séu ekki á neinn hátt mótsnúnir þessari löggjöf, einmitt þá um leið kemur þessi svívirðilega yfirlýsing frá samstarfsmönnum hv. 10. landsk. og flokksmönnum hv. þm. Borgf., þar sem reynt er með öllu móti að espa upp Reykvíkinga og fá þá til að snúast á móti, þar sem Reykvíkingar eru hreint og beint hvattir lögeggjan um að rísa á móti því, að kjöts sé neytt í bænum. Með þessum mönnum vildi hv. 10. landsk. vinna í afurðasölumálinu.

Hér hjá mér hefi ég og afrit að 24 skammagreinum úr Vísi og Morgunblaðinu um afurðasölumálið. Á þeim sést bezt, hve velviljaðir þeir menn voru í garð þessa máls, sem þessi hv. þm. vildi vinna með að lausn þess. Það þýðir því ekkert fyrir þennan hv. þm. að halda því fram, að hann í raun og veru hafi ætlað að leysa málið, þar sem það var búið að vera óleyst í höndum hans í tvö ár, og að lokum sigldi hann því hér um bil í strand. Það er því næsta undarlegt, þegar hann veður hér fram á völlinn með ávítur til okkar framsóknarmanna, sem leystum málið, sem hann reyndist ómegnugur til að leysa.