19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er sjálfsagt, að n. verði við þeim tilmælum að virða þetta atriði fyrir sér. En mér skilst að þar sem aðeins er farið fram á, að fyrsta fyrirtækið í hverri iðngrein fái þessar ívilnanir, þá sé verið að ýta undir fyrstu byrjun fyrst og fremst. Ég bendi á, að í 1. gr. frv. er tekið fram, að það sé aðeins að ræða um fyrirtæki, sem stofnuð eru í nýrri iðngrein.

Hvað snertir bæði smjörlíkis- og síldariðnað, þá eru þegar komin á fót fleiri en eitt fyrirtæki í þessum greinum. En það er sem sagt velkomið, að n. athugi, hvort henni þykir ástæða til þess að rýmka um þessi ákvæði við 3. umr.