19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. iðnn., hvort hún hafi gert sér grein fyrir því, um hve mörg fyrirtæki gæti verið að ræða, sem féllu undir ákvæði brtt. á þskj. 498. Ég vil ekki andmæla till., en mér finnst samt sem áður byggt á öðru en því, sem frv. er byggt á. Frv. er flutt í þeim tilgangi að hvetja menn til þess að gera tilraun á nýjum sviðum til þess að stofna ný iðnfyrirtæki í greinum, sem ekki hafa verið starfræktar áður. Það getur vel verið, að fyrirtæki, sem eru nýbyrjuð, eigi örðugt með greiðslu útsvara og tekju- og eignarskatts, en þau eru komin á legg, svo að sá tilgangur þessa frv. að hvetja menn til að stofna fyrirtæki, nær því ekki til þeirra.

Viðvíkjandi aths. hv. 1. þm. Reykv. um að gera þá breyt. á frv., að þessi hlunnindi séu ekki bundin við eitt fyrirtæki í hverri grein, vil ég geta þess, að frv. er byggt á þeirri hugsun, að sá, sem gerir fyrstu tilraun með slík fyrirtæki, leggi mest í hættu og eigi því að njóta þessara hlunninda. Ég sé því ekki, að það sé mjög athugavert, þótt frv. gangi ekki lengra en þetta. Um hina innlendu smjörlíkisgerð vil ég segja það, án þess þó að ætla að fara að vekja deilur um það mál, að ég tel þróun hennar ekki allskostar heppilega. Við framleiðum aðeins 1200 smálestir af smjörlíki á ári, en þessi framleiðsla dreifist á 7 verksmiðjur, þar af 3 á sama stað. Framleiðsla og verzlun hljóta að verða miklu dýrari með slíkri dreifingu á margar hendur. Hinsvegar gegnir allt öðru máli um síldarverksmiðjur og beinamjölsverksmiðjur, því að þær verksmiðjur eru ekki miðaðar við innanlandssölu. Þó skal ég játa, að ekki má eingöngu líta á fjölda viðskiptamannanna, heldur einnig staðháttu.