07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

149. mál, útsvar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Um þetta atriði hefi ég fátt eitt að segja. Ég eiginlega mælti með því við 2. umr. og hefi litlu við það að bæta. Ég álít bara, að þessi frestur frá því að úrskurður yfirskattanefndar fellur og þangað til áfrýjunin á að vera komin til ríkisskattanefndar sé of stuttur eins og hann er ákveðinn, 2 mánuðir. Ég er ekki að kvarta um þetta af eiginhagsmunum. Þvert á móti. Við sýslumennirnir megum fagna því, að fresturinn sé sem allra stytztur, því að þá eru líkindi til, að færri úrskurðum frá yfirskattanefndum verði skotið til sýslunefnda, og að menn fái fyrir bragðið ekki breyt. á úrskurðunum. En ég er hér að hugsa um þá menn, sem erfiða eiga aðstöðu í þessum efnum og þurfa að hafa tímann fyrir sér. Margir þurfa að fá „prokurator“ til þess að setja saman fyrir sig bréf til ríkisskattanefndarinnar, sem þeim finnst e. t. v. sumum svo virðuleg stofnun, að þeir ekki treysti sinni eigin réttritun. Ég held því, að þessi breyt. sé til bóta, ef samþ. verður, og einkum fyrir þá, sem fjarst búa og verstar hafa samgöngurnar.