21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 1. þm. Reykv. drap á við 2. umr. þessa máls það atriði, sem hann flytur nú brtt. um á þskj. 510, og mæltist til, að iðnn. tæki það til athugunar. Hann hefir auk þess talað um málið við mig eftir að brtt. kom fram og mælzt til þess, að ég legði hana fyrir n. Síðan hefir enginn formlegur fundur verið í n., en ég hefi talað við meðnm. mína um hana, og eru þeir ekki sammála um hana. N. hefir því óbundnar hendur um atkvgr. Ég vil benda á það, að frv. þetta er samið af iðnráðinu, sem er forsvarsaðili fyrir iðnaðarmenn, a. m. k. hér í bænum. Og í meðferð málsins í Nd. komu engar raddir í ljós, sem fóru fram á, að gengið væri lengra í þessum ívilnunum en iðnráðið lagði til. Hér er lagt til, að bætt sé við atriði, sem iðnráðið hafði ekki tekið með, að fleiri fyrirtæki en það fyrsta í hverri grein skuli geta orðið aðnjótandi þessara hlunninda. Mér skilst, að aðaltilgangurinn sé sá með frv., að hjálpa fyrirtækjum yfir byrjunarörðugleika, sem alltaf verða á vegi þeirra, sem leggja út í slíkan atvinnurekstur á nýju sviði. Síðari fyrirtæki í sömu grein geta oftastnær notfært sér eitthvað af reynslu fyrirtækisins, sem byrjaði. En stefna frv. er sú, að verðlauna einmitt þessa byrjun. Ég fellst á þau ummæli hv. 1. þm. Reykv., sem hann viðhafði við 2. umr., að í sumum iðngreinum þarf að setja verksmiðjur á stofn víðar en á einum stað á landinu, t. d. þær verksmiðjur, sem vinna úr innlendum hráefnum, svo sem síldarmjölsverksmiðjur og fiskúrgangsverksmiðjur. En ég held, að hægara væri að skjóta þessu ákvæði — um hlunnindi til handa fleiri iðnfyrirtækjum en því fyrsta í hverri grein — inn síðar meir, þegar reynslan er búin að sýna fram á nauðsyn þess.