25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

81. mál, hafnargerð á Hornafirði

Flm. (Þorbergur Þorleifsson):

Skipulag er það orð, sem mönnum má vera minnisstæðast úr umr. hér í hv. d. og í þinginu. Hafnarlög eru sett til þess að geta skipulagt hafnargerðirnar víðsvegar á landinu, og er sú skipulagning ekki neitt nýtt fyrirbrigði. Frv. þetta á að vera undirstaða skipulagningar á hafnargerð á Hornafirði. Það er í flestum greinum sniðið eftir lögum, sem áður hafa verið sett um sama efni, og vænti ég því, að hv. d. taki þessu frv. vel. Það er aðeins eitt atriði í frv., sem ég get búizt við, að ágreiningur kunni að verða um, en það er ákvæði um framlag úr ríkissjóði til hafnargerðarinnar. Í frv. er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til þessarar hafnargerðar verði helmingur kostnaðar, en í öðrum hafnarlögum mun gengið út frá, að ríkið leggi fram kostnaðar. Að ég hefi sett þetta tillag hærra hér en annarsstaðar, stafar af því, að á Hornafirði er dálítið öðruvísi ástatt en á öðrum stöðum, þar sem hafnarlög hafa verið sett. Þarna er aðeins ein sveit, sem verður að greiða eða taka á sig ábyrgð á framlaginu á móti ríkissjóði, en hinsvegar er það heill landsfjórðungur, sem hefir víðtækt gagn af þessari hafnargerð, þar sem eru allir Austfirðir. Því er það alls ekki sanngjarnt, að einn lítill hreppur taki á sig mikla ábyrgð á stóru mannvirki, sem landsfjórðungur hefir mikið gagn af. Hinsvegar skal það játað, til þess að það valdi ekki misskilningi eftir á, að þrátt fyrir það, þó Austfirðir hafi mikið gagn af þessari höfn, þá er líka mikið gagn að henni fyrir það sýslufélag, sem höfnin er í. Framtíðarmöguleikar AusturSkaftafellssýslu eru mikið undir því komnir, að bráður bugur verði að því undinn að gera höfn á Hornafirði. Nesjahreppur hefir mikla möguleika til aukinnar ræktunar og landbúskapar, og hefir þegar verið hafizt handa á síðustu 5 árum um ræktun, sérstaklega út frá kauptúninu í Hornafirði. Og til þess að framhald verði á eðlilegri þróun í þessu efni, er fyrsta skilyrðið, að samgöngurnar batni. En þó að höfn á þessum stað sé þýðingarmikil fyrir landbúnaðinn, þá er hún það þó enn meir fyrir sjávarútveginn, sem allir Austfirðir taka þátt í á þessum stað, því þangað safnast á vetrarvertíðinni bátar víðsvegar af Austfjörðum. Þar, sem Hornafjarðarkaupstaður stendur, er útfiri mikið, svo að um fjöru er ekki fært um höfnina nema smærri bátum. Bátaleiðin hefir grynnkað á seinni árum samtímis því að vélhátarnir hafa stækkað. Þess vegna hafa risið upp smáútgerðir úti um eyjar til óhagræðis fyrir kauptúnið og skaða fyrir útgerðarmenn. Aftur á móti stendur að nokkru ónotuð stór útgerðarstöð í landi, og margir bátaeigendur á Hornafirði geta ekki gert út fyrir þetta slæma ástand.

Það var einu sinni ráðizt í mikið mannvirki hér á landi, sem þótti nokkuð vafasamt, og var þá kveðið: „Prýði' að brúnni allt eins er uppi' á þurru landi“. Það má segja, að útgerðarstöðin á Hornafirði sé „prýði“ uppi á þurru landi, en nútíma umbótamenn vilja ekki aðeins, að það sé prýði að hlutunum, heldur einnig, að hafa megi af þeim eitthvert gagn. En til þess að verstöðin á Hornafirði geti komið að gagni, þá verður að gera skipgengt þangað inn. Það hefir oft átt sér stað, að þeir, sem hafa komið að til þess að stunda sjó á Hornafirði yfir vetrarvertíðina, hafa orðið að lifa af því mestallt árið, sem þeir höfðu þar upp, af því afli heima hjá þeim hefir brugðizt, enda hefir það hjálpað þessum mönnum, að ódýrt er að gera út frá Hornafirði. Mér finnst skylt að hlúa að stöðum eins og Hornafirði, og ekki óeðlilegt, að ríkið leggi þar til hafnargerðar dálítið meira en annarsstaðar, þar sem ekki hafa átt hlut að máli nema eitt sýslufélag eða fáar sveitir.

Hafnargerð á Hornafirði er búin að dragast allt of lengi og þolir alls enga bið. Drátturinn virðist hafa orsakazt af því, að nokkurt hik mun hafa verið á vitamálastjóra um það, hvað eiga að gera þarna.

Eins og vitanlegt er, þá erum við á byrjunarstigi með margar framkvæmdir, og sá skapandi máttur, sem býr með þjóðinni, hefir brotizt út á öðrum sviðum meir en því verklega, svo sem eins og í skáldskap og öðru slíku.

Þeir verkfræðingar, sem þarna hafa athugað staðhætti, virðast helzt hallast að því, að hlaðnir væru garðar til að hindra framrás vatnsins. Sú „idea“ mun vera komin frá Kirk, dönskum verkfræðingi, sem athugaði höfnina einhverntíma fyrir 1920. En það er álit verkfræðinga, að þessir garðar verði dýrir. Aftur á móti er önnur leið, að dýpka bátaleiðina, og mun vitamálastjóri fremur hallast að þeirri aðferð og telur hana ódýrari, og það hefir þann kost, að sú hafnarbót kemur strax að gagni, en þegar það hefir verið gert, reynir á hitt, hvort verkfræðingarnir sjá ráð til þess að halda dýpinu við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv. Ég þykist þess fullviss, að yfirleitt muni hv. d. fylgja þessu frv. Það getur orðið ágreiningur um, hvernig kostnaðurinn á að skiptast, og einnig um það, hvað helzt eigi að gera, en um það verða verkfræðingarnir að úrskurða á sínum tíma. Að lokum óska ég þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.