08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

81. mál, hafnargerð á Hornafirði

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er ekki langt síðan — skiptir ekki tugum ára — ríkissjóður var ófáanlegur til að leggja meira fram til hafnarmannvirkja heldur en ¼ kostnaðar. Vitaskuld var það allt of lágt, enda kom fljótlega í ljós, að þetta framlag þurfti að hækka, og mörg hafnarlög hafa verið afgr. með ákvæði um, að ríkið legði fram 1/3 kostnaðar. Það hefir verið talsverður ágreiningur um það í sjútvn., t. d. á síðasta og næstsíðasta þingi, hvort ekki ætti að halda fast við þá reglu, að ríkið legði fram kostnaðar til hafnargerða, í stað þess að hækka framlagið upp í 2/5. Sú hækkun hefir komizt inn í eitthvað þrenn hafnarlög, Sauðárkróks, Skagastrandar og Dalvíkur, að ég hygg. Hér er því n. alveg í hámarki, og sé boginn spenntur það hátt að veita helming kostnaðar til þessarar hafnargerðar, þá er hætt við, að aðrir komi og geri kröfur um það sama, þeir, sem eftir eiga að koma fram með samskonar frv. Ég verð þess vegna að halda því fram sem ákveðinni skoðun sjútvn., að hún fari það lengsta, sem sanngjarnt er, með því að leggja til, að ríkissjóður leggi fram 2/5 kostnaðar til Hornafjarðarhafnar.