26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1935

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Í þeim umr., sem nú standa yfir, hafa fulltrúar stjórnarflokkanna rakið mjög ýtarlega gang málanna á hinum síðustu tímum, og verður þar ekki um bætt. En mér þykir hlýða að rifja nokkuð upp stjórnarfar síðustu ára, síðan þeir flokkar tóku við stjórnartaumunum, sem nú eru í minni hl. og deila á þá stj., sem nú situr, og stuðningsmenn hennar.

Ég veitti því eftirtekt, að formaður Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., byrjaði frumræðu sína á því að láta í ljós mikla undrun yfir því, að flokkur hans hefði ekki unnið sigur við kosningarnar í vor. Það var auðséð, að honum hafa verið þetta sár vonbrigði. Ég býst við, að manni geti út frá þessu dottið í hug orð þau, sem Njála segir mjög greinilega frá. Maður, sem særðist mikið í orustu, horfði á fót sinn og sagði: „Ekki þarf að að hyggja, af er fóturinn“. Sama hygg ég, að form. Morgunblaðsflokksins megi um þetta segja. Ósigur hans var glöggur og greinilegur, og því átakanlegri, sem hann kom honum meir á óvart.

Ég vil reyna að svara þeirri spurningu að nokkru leyti, sem form. Morgunblaðsflokksins bar fram. Vil ég þá byrja á því, að það, sem hefir valdið ósigri hægri flokkanna, en sigri vinstri flokkanna, hafa verið jöfnum höndum málefni flokkanna og menn. Það er öllum ljóst, að höfuðsóknin af hálfu Íhaldsfl. hefir bæði nú í þessum umr. og í blöðum þeirra og á mannfundum snúizt mjög á móti framsóknarmönnum, og sér í lagi gegn þeim. Það er mönnum kunnugt, að þó að kosningasigur jafnaðarmanna væri mikill í vor sem leið, þá var hann þó ekki langt fram yfir það, sem menn bjuggust við, bæði flokksmenn Alþfl. og andstæðingar hans. Sigur Framsfl. var aftur miklu meiri en andstæðingar hans bjuggust við, eftir því sem málum var komið. Þess vegna hefir aðalandstaðan beinzt gegn okkur framsóknarmönnum, og þess vegna beita þeir nú öllum sínum kröftum til þess að reyna að hrekja okkur af velli. Þessi aðstaða íhaldsins gagnvart framsóknarmönnum kom fram strax í vor, eftir kosningarnar. Hér í Reykjavík tæmdust göturnar alveg af aðalleiðtogum flokksins fyrstu dagana á eftir, og fyndinn maður úr Árnessýslu, sem var staddur hér í bænum, sagði um leiðtoga Morgunblaðsmanna, eftir að hann hafði kynnzt ástandinu í bænum, að það færi svo lítið fyrir þeim, að það væri rétt eins og þeir óskuðu bara að fá að lifa. Þeir, sem hafa heyrt ræður hv. þm. G.-K. í þessum eldhúsumræðum, hafa hlotið að finna, að hann er gegnsýrður af sömu tilfinningunni, sem bar svona mikið á fyrst eftir kosningarnar í vor.

Þegar á að gera yfirlit yfir þetta mál, þá er ekki hægt að fara skemmra aftur í tímann en til vorsins 1932, þegar sú stj. var mynduð, sem hv. 1. þm. Skagf. og hv. 10. landsk. voru báðir í af hálfu núv. stjórnarandstæðinga. Þá um vorið, rétt eftir stjórnarskiptin, sagði Jón Þorláksson, fyrrv. form. Sjálfstfl., í Morgunblaðinu, að það væri föst stefna flokksins og sín að fá lánaða nokkra menn af framsóknarmönnum og stýra með þeim, þegar þeir hefðu ekki sjálfir meiri hl. Hann vildi koma sér upp varaliði af framsóknarmönnum, og þó undarlegt megi virðast, þá voru til menn í flokknum, sem ekki þykktust við þessa gífurlegu lítilsvirðingu, heldur fóru strax samningsbundnir í þjónustu Jóns Þorlákssonar og Sjálfstfl. Fremstur af þessum mönnum, og aðalmaðurinn í öllu þessu ráðabruggi, var þáv. landbrh., sem er nú hv. 10. landsk. þm. Hann gekk frá samningunum um þessa varaliðsmenn við ráðandi menn Morgunblaðsins, og hann hefir síðan verið aðalmaðurinn í varaliðinu, sem Sjálfstfl. taldi sig þurfa að draga að sér. Um þennan mann hefir það verið sagt af einum merkismanni Íhaldsfl., að hann kynni betur en flestir aðrir að þjóna bæði kirkjunni og veröldinni. Þetta er orð að sönnu, og þetta hefir komið fram í allri hans starfsemi. Hann var áður álitinn mjög framarlega sem leiðtogi kirkjunnar, og hafði margt til að bera, sem slíka menn má prýða. En eftir að hann gekk í þjónustu Jóns Þorlákssonar, þá hefir hann sýnt, að hann er líka veraldarinnar maður. Þá lagði hann frá sér hina kirkjulegu grímu og lét sjá framan í sitt veraldlega andlit, og honum hefir ekki tekizt að koma á sig hinni kirkjulegu grímu aftur, svo að þeir, sem hafa orðið fyrir vonbrigðum með þennan mann, hafa orðið það vegna þess, að þeir sjá nú aðeins það, sem kemur fram í þeirri aðstöðu, sem hann hefir tekið sér 2 síðustu árin.

Þegar hv. þm. G.-K. undrast yfir því, að flokkur hans var ekki betur settur en raun varð á í kosningunum í vor, verður maður að leita að nokkrum ástæðum til þess. Og þá er fyrsta spurningin um það, hvernig þau áhrif hafi verið, sem Íhaldsfl. hafði síðasta stjórnartímabil sitt. Á fjárl. var afarmikill tekjuhalli ár eftir ár, og það þrátt fyrir það, þó að þáv. fjmrh., Ásgeir Ásgeirsson, gerði sitt ýtrasta, til þess að vinna á móti því. Hann mætti þar stöðugri mótstöðu af hálfu íhaldsmanna, þar sem þeir felldu skattafrv. hans, og þeir voru alveg hlífðarlausir fyrir því, þó að stj. gengi svona illa og skuldirnar ykjust stöðugt, bæði fastar og lausar, þar sem þeir gerðu kröfur um aukin útgjöld, en neituðu aftur að samþ. nauðsynlega skatta. Ég ætla að segja frá því, hvernig stuðningsmenn þáv. stj. sökktu landinu alltaf dýpra og dýpra í skuldafenið, og minnast þá fyrst á það, að árið 1932, eftir að sjálfstæðismenn fóru að taka þátt í stj. landsins, þá myndaðist skuld við banka einn í Danmörku, sem nam kr. 800000.00, og þar að auki myndaðist þá kr. 150000.00 skuld vegna skyndilána, sem hv. 10. landsk. var svo hrifinn af að mynda hér innanlands. Þó fór hálfu verr á árinu 1933. Þá var tekið lán að upphæð kr. 1320000.00 hjá Barclay's Bank í London, og þá var líka tekið lán til vega- og brúargerða, kr. 534000.00. Það, sem liðið var af árinu 1934 áður en stjórnarskiptin urðu, voru sjálfstæðismenn og hv. 10. landsk., þáv. atvmrh., búnir að taka kr. 900000.00 lán hjá Barclay's Bank, og til vega- og brúargerða kr. 350000,00. Þannig var gengið frá fjármálunum eins og verst gat orðið. Fjárhirzlur ríkisins voru alveg tómar, þegar þessi mikli veraldarmaður, hv. 10. landsk., fór úr stj. Hann gerði meira en nokkur annar maður hefir gert af því að taka lítil lán til lítilla hluta. Það ganga nú í peninga stað víða um landið skuldabréf, sem hann hefir dreift út í kaup og á annan hátt, og það er ástæðan til þess, að núv. stj. hefir neitað að taka lán til slíkra hluta. Þeirri stj., sem nú situr, er það jafnljóst, að eins og jafnvægi verður að vera í fjárl., eins er óhugsandi að sökkva öllu í botnlausar skuldir, eins og hv. 10. landsk. gerði í sinni stjórnartíð. Nú er svo komið, að mikið af því fé, sem ganga átti til vega- og brúargerða, fer til þess að borga af bráðabirgðalánum, sem til var stofnað á áðurgreindan hátt.

Þegar þessir menn skildu við garðana í Gröf, þá er fjármálastjórn íhaldsins þannig komin, að þó að það sé álitið, að mest af efnum landsins séu saman komin í Reykjavík, þá er álitið ekki betra á fjármálum bæjarins en svo, að þegar borgarstjóri siglir til þess að reyna að fá lán til Sogsvirkjunarinnar, þá þýðir honum ekkert að fara, nema hann fái hjálp frá ríkinu, ríkisábyrgð. Með honum er svo sendur Sigurður Jónasson, fyrrum bæjarfulltrúi, til þess að aðstoða hann við lántökuna í Svíþjóð. Þetta ástand er ekki hægt að skýra nema á einn veg, sem sé með hinu gífurlega óáliti, sem myndazt hefir í öðrum löndum á efnahag ríkisins, vegna fjármálastjórnar íhaldsins.

Þessir ráðh., og samherjar þeirra, eru ákaflega hrifnir af að hafa myndað fisksölusamlagið. En hvernig eru launakjörin þar? Þau eru þannig, að 3 menn, sem skipa stjórn samlagsins, hafa hver um sig kr. 24000.00. Þeir hafa skammtað sér þetta sjálfir með góðu samþykki hins ágæta sparnaðarmanns, hv. 10. landsk. Þessir menn hafa samtals 72000 kr. í laun, á sama tíma og útvegurinn er með því yfirbragði um fjárráð, sem svo mjög er talað um á þessu þingi.

Ég ætla að taka annað dæmi þessu líkt. Pétur Magnússon málafærslum., sem er einn af helztu mönnum Sjálfstfl., sótti mál fyrir undirrétti og hæstarétti fyrir fyrrv. ríkisstj. Mér er sagt, að fyrir það hafi hann heimtað kr. 30000.00, og hann hefir sjálfsagt fengið það. Samhliða því útvegar hv. l0. landsk. honum kr. 7000.00 fyrir að líta eftir kreppulánasjóði, ofan á full bankastjóralaun í Búnaðarbankanum og allt, sem hann hefir þar fyrir utan. Þessir sömu menn, sérstaklega þó hv. 1. þm. Skagf., lét Ludvig C. Magnússon fá 5000 kr. fyrir að ofsækja Pálma Loftsson, og reyna að komast eftir því, hvort 500 fiskar hafi komið í vörpuna í hvert skipti, sem Þór kastaði vörpu við Vestmannaeyjar. Ekki tók betra við, þegar hv. 1. þm. Skagf., þáv. dómsmrh., rétti Einari Jónassyni 1000 kr. Og um sama leyti borgaði sami maður ekkju einni hér í bænum 2000 kr. fyrir það, að hún hafði misst vínveitingaleyfi, þegar bannl. voru sett á, árið 1909, og það þó að hún væri búin að tapa máli um þetta fyrir 3 dómstólum. Það er ekki hægt að hugsa sér verri fjármálastjórn en þá, þegar farið er að kasta peningum út til einstakra manna, ekki til almenningsheilla, heldur bara sem ölmusum.

Ekki batnar þessi stjórnmálasaga íhaldsins, þegar að utanríkismálunum kemur. Það er öllum kunnugt, að fyrrv. stj., einmitt þeir menn, sem eru í andstöðu við þá stj., sem nú situr, sendu mann einn, sem almennt er kallaður Laugi landi, til útlanda sem sendiherra landsins. Þetta er maður, sem mun hafa verið dæmdur fyrir brugg og mun hafa verið sendur heim áður frá útlöndum. Sveinn Björnsson sendiherra sendi þennan mann strax heim á 2. farrými, og bannaði að láta hann fá nokkuð á leiðinni nema einfaldasta mat, rétt til þess að halda í honum lífinu. Þannig fékk sú stj. þennan sendiherra heim aftur. Annað dæmi ætla ég að nefna viðvíkjandi ráðsmennskunni út á við. Þegar menn voru sendir suður til Spánar á síðasta vetri, til þess að semja um fiskinnflutning okkar þangað, þá var eindregið lagt til, að Helgi Guðmundsson bankastjóri bættist í hóp þeirra manna, sem senda átti, bæði vegna kunnugleika hans þar og annara kosta. Kveldúlfur reis þá á móti þessu af sinni venjulegu verzlunaragitationsástæðu, og við lá, að Magnús Guðmundsson ætlaði ekki að fá að senda þennan mann, sem þó vitanlega var alveg sjálfsagt. Að lokum var það þó knúið fram, að Kveldúlfur varð að láta undan og þola það, að þessi maður bættist í förina.

Maður talar ekki um smámuni eins og það, að þessir menn höfðu 4 skipstjóra á fullu kaupi, en venjulega ekki nema eitt varðskip í förum. Og ekki bætir það um, að það var svo að kalla engin landhelgisgæzla hjá þessum mönnum. Síðan Einar Einarsson skipherra tók við Ægi aftur, þá hefir brugðið svo við, að togarar sjást ekki framundan Ólafsvík eða Sandi. Ef lögbrjótarnir vita, að duglegir menn stjórna skipunum, þá hefir það þau áhrif, að landhelgin þurrkast alveg af lögbrjótum.

Þá má minna á Lárus Jóhannesson málflutningsmann. Hann ætlaði að græða 1 til 2 millj. á máli, sem hann höfðaði á vínverzlunina. Hann tapaði því nú samt sem áður. Litlu seinna höfðaði hann annað mál á vínverzlunina og ríkið, út af samningum, sem Rosenberg veitingamaður hafði gert um útsölu á áfengi. Lárus Jóhannesson taldi, að álagning vínverzlunarinnar hefði verið of há, samanborið við þær prósentur, sem Rosenberg hafði fengið af vínunum. Pétur Magnússon, sem búinn var að fá 30 þús. og sem var málafærslumaður í þessu máli, skrifaði þá 9. júlí í sumar bréf til stj., hv. 1. þm. Skagf. og hv. 10. landsk., og ráðlagði þeim að láta Lárus Jóhannesson fá peninga þá, sem hann gerði kröfu um að fá, vegna þess, að líkur væru til, að ríkið tapaði málinu. Nú hefir landið unnið þetta mál. Það eru kr. 60000.00, sem ég hefi þarna lagt á borð með mér frá fyrri tíð, en sem Pétur Magnússon ætlaði að gefa Lárusi Jóhannessyni, sem ekki varð þó af, vegna þess, að það var maður í stj., sem ekki vildi samþ. þessar fjárreiður.

Ofsóknin á hendur Einari Einarssyni skipherra kostaði landið ekki minna en kr. 30000.00. með kaupi hans þann tíma, sem hann var í landi, og þeim málafærslukostnaði, sem fór til þess að reyna að krenkja æru hans og heiður. En eftir látlausa ofsókn á hendur þessum manni í 2 ár, þá er þessi flokkur, sem stendur að Morgunblaðinu, svo niðurbrotinn, að þeir hafa ekkert að segja, þegar Einar Einarsson siglir aftur út á hafið til þess að vinna fyrir land sitt. Eitt af hinum ágætu fjármálastrikum fyrrv. stj. var það, að á meðan hið stóra sprengimál Lárusar Jóhannessonar stóð yfir, þar sem hann hélt því fram, að landið hefði grætt of mikið á áfengi, þá skrifaði þáv. dómsmrh., Magnús Guðmundsson, forstjóra áfengisverzlunarinnar og leggur það til, að vínin verði lækkuð yfirleitt til samræmis kröfum þeim, sem Lárus Jóhannesson gerði. Þessi undirmaður ráðh. gerði þetta samt ekki, heldur pantaði vínin á flöskum frá Spáni til þess að veikja ekki málstað ríkisins með lækkun á vinunum. Hann hlýddi því að forminu til skipun yfirboðara síns, en bjargaði um leið málinu. Það, sem sparaðist við það, að hv. 1. þm. Skagf. var ekki hlýtt, voru kr. 30000.00.

Menn verða nú ef til vill ekki hissa á því, þó að þjóðin óski ekki eftir að hafa slíka stjórn í landinu, og þó að hún hafi verið búin að fá nóg af þeim flokki, sem þessa stj. studdi. En ofan á þetta allt bættist þó það, að Íhaldsfl. tók jöfnum höndum saman við grímumenn, undir forustu hv. 10. landsk., og ofbeldisflokk, sem hótað hafði manndrápum og hverskonar glæpum á undanförnum missirum. Íhaldsfl. gekk i bandalag við nazista, og þeir höfðu sameiginlegan lista við bæjarstjórnarkosningarnar hér í fyrra. Jón Þorláksson þakkaði þeim, og þeir þökkuðu Jóni. Á landsfundi sjálfstæðismanna prédikaði form. flokksins þessa útlendu ofbeldiskenningu. Hann hótaði að afnema prentfrelsið, og með því fer allt annað frelsi í ofbeldislöndunum. Um sama leyti prédikaði Knútur Arngrímsson, sem flokkurinn síðan sendi til Þýzkalands, alla þá kúgun og allan þann réttindamissi, sem ofbeldisstefnu þessari fylgja. Það lá beint fyrir, að bandalag yrði gert milli Sjálfstfl. og nazista, og yfirlýsing um það var þegar komin fram. Þeir voru reiðubúnir til þess að stjórna með ofbeldi. Það er ekki hægt að segja, að þetta hafi verið heimskulegt hjá þessum mönnum, vegna þess, að aðstaðan var þannig, að annaðhvort urðu þeir að stjórna með ofbeldi, eða þá að hinar fátæku vinnandi stéttir urðu að rétta sig við, eins og nú er að stefnt. Og að því á að vinna, með því m. a, að þyngja skattana, og láta t. d. þá menn borga þá, sem skammta sér sjálfir kr. 24000.00 í laun, í viðbót við allt annað, sem þeir hafa, því að það er kunnugt, að forstjórar Kveldúlfs hafa kr. 30000.00 í eyðslueyri, hver um sig, þó að fyrirtækið gangi ekki betur en hv. þm. G.-K. hefir lýst hér.

Um það var þess vegna barizt í kosningunum í vor, hvort almenningur ætti að sigra eða útlend ofbeldisstefna, með allri þeirri takmörkun á persónufrelsi manna og öllu því menningarleysi, sem henni fylgir. Ég verð því að játa, að það var í raun og veru alls ekki heimskulegt af leiðtogum Sjálfstfl. a. m. k. að hugsa eins og þeir gerðu, þó að það hafi ef til vill ekki verið hyggilegt af þeim að tala eins og þeir hugsuðu. En þeir þóttust svo vissir um sigurinn, þegar þeir óðu framan að okkur framsóknarmönnum með fallbyssum, en grímumenn að baki okkar með vígvélum.

Ég hefi nú sagt nokkuð frá málefnum og mönnum þeirra flokka, sem undir urðu í kosningabaráttunni í vor.

Frá mínu kjördæmi er það að segja, að ég var ekki viðstaddur í kosningabaráttunni þar í vor. Ég fór þar um áður, og það varð að samkomulagi milli mín og samherja minna þar, að ég gæti unnið fyrir flokkinn annarsstaðar, þar sem honum lægi meira á. Í kjördæmið voru sendir menn frá 4 flokkum til þess að reyna að spilla kosningarsigri framsóknarmanna þar. En í hverjum einasta hreppi voru menn, sem gátu mætt hvaða manni sem var, úr hvaða stjórnmálaflokki sem var. Í þessu héraði hefir verið skipulögð samvinna í hálfa öld, og meira þó. Í þessu héraði þekkir fólkið, hvernig það á að fara að því að bjarga sér sjálft. Í stuttu máli, ástæðan til þess, að ég vann kosninguna þar í vor, var ekki mín vinna við kosninguna, heldur flokksins. Það var vinna Jóns á Gautlöndum, sem nú hvílir í gröf sinni, og annara slíkra ágætra manna. Það voru samvinnumenn, sem ekki vildu nazisma, landhelgisgæzlu eins og hún var hjá Magnúsi Guðmundssyni, og vitlausar lántökur. Þeir vildu fyrst og fremst menningu og sjálfstæði. Það var þess vegna eðlilegt, að uggur kæmi yfir sjálfstæðismenn í vor eftir kosningarnar. Þeir hafa tapað. Fólkið vill ekkert hafa með þá að gera eða ofbeldis- og kúgunarkenningu þeirra, og óstjórnlegar launagreiðslur til einstakra manna, eins og t. d. kr. 72000.00 til 3 manna fyrir að þykjast selja fisk. Það kom fram í ræðu hv. þm. G.-K. í dag, hve mikið má treysta þessum mönnum. Þessi hv. þm. sendi einu sinni nokkur hundruð skippund af frosnum fiski til Spánar svo undirbúningslaust, að hann grotnaði allur niður þegar þangað kom og gereyðilagðist. Ekkert sýnir betur algerðan menningarlegan vanmátt þessara manna en það, að engir af þessum mönnum kunna spánska tungu, eða hafa þá þekkingu á náttúru landsins, að þeir geti afstýrt öðru eins bjánastriki eins og fiskbráðnan hjá Kveldúlfi var.

Ég hefi reynt að gera það ljóst, að það, sem á milli bar í kosningunni í vor, voru annarsvegar málefni flokkanna og annarsvegar menn flokkanna.

Það er nú svo, að í 9 ár hefir enginn íhaldsforkólfur þorað að láta sjá sig í Þingeyjarsýslum. Eftir að þeir Þórólfur í Baldursheimi og Arnór Sigurjónsson stökktu á brott Jóni Þorlákssyni af fundinum á Breiðumýri, vita þeir, að þangað er þeim ekki til neins að koma í pólitískum erindagerðum. Þar, sem samvinnumenn hafa starfað jafnötullega og þar, hefir skapazt slík fyrirlitning á þessum vesælu foringjum íhaldsins, að ekkert vegur þar í móti. Þó var útlitið þar sízt glæsilegt á byrjunartímum samvinnustefnunnar. En aldrei hefði forvígismönnum samvinnustefnunnar getað komið til hugar að flytja aðra eins ræðu og hv. þm. G.-K. fór með hérna um daginn. Slíkan harmagrát hefðu þeir skammazt sín fyrir. Og þessi sami hv. þm. vill veita mönnum 30 þús. kr. árslaun fyrir að gera lítið, en láta jafnframt fél. fara á hausinn. Nú hafa samv.menn tekið höndum saman við hina skipulagsbundnu verkamenn bæjanna, og þeir ætla sér nú að reisa atvinnuvegina við á sama hátt og samvinnumenn gerðu fyrrum í Þingeyjarsýslum, með vinnu, framsýni og ráðdeild. En það er skiljanlegt, að forstjórar Kveldúlfs séu andvígir þeirri skipulagningu fisksölunnar, sem nú er ráðgerð. Þeir hafa ekki getað gert þetta með sínu einkaframtaki. Og þeir óttast, að fólk komist almennt að því, hve illa þeir eru að sér í þessum efnum. Ég skal nefna dæmi um þetta. Í fyrra fór ég til Spánar og dvaldi þar einn mánuð. Ég kann ekki spönsku, en það eitt, að ég var þarna sem túristi, varð sjálfstæðismönnum tilefni til allskonar sögusagna um það, að ég væri að ráða undan þeim fisksöluna. Af þessu sést, hve veikt þeir standa, að þeir skuli óttast, að maður, sem aðeins dvelur einn mánuð á Spáni, geti komizt að því, hve ófullkomin starfræksla þeirra er, og geti svo frætt landa sína um það. Og það ætla ég að gera með því, sem ég lærði á Spáni í fyrra, og vona ég, að það geti orðið til að draga af þeim þá hátíðlegu grímu, sem þeir setja upp, þegar minnzt er á saltfisksöluna.