12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er í raun og veru allt sagt í nál., sem segja þarf um frv. þetta. Það hefir orðið sú raunin á í seinni tíð, að þau kauptún landsins, sem eru að vaxa og eru langt frá lögreglustjóra, hafa hvert af öðru farið fram á að fá sinn sérstaka lögreglustjóra. Eins og í nál. segir, þá hefir Alþingi að undanförnu fallizt á þessar kröfur kauptúnanna, og sá allshn. sér því ekki fært að neita Ólafsfjarðarkauptúni um þetta.

Þar, sem þetta fyrirkomulag er komið á, hefir því verið hagað svo, að hreppstjóra- og oddvitastarfið hefir verið sameinað lögreglustjóraembættinu. Enda er það víða orðið svo, að þau störf eru orðin allumfangsmikil, og þykir orðið þung kvöð að hafa þau á hendi.

Á mörgum þessum stöðum er líka nauðsynlegt að fá mann með lögregluvaldi, sem skorizt getur í mál manna, þegar þess er þörf, því víða er langt til lögreglustjóra, eins og t. d. frá Ólafsfirði. Þar hagar líka svo til, að ófært getur verið að komast þaðan og þangað á sjó til yfirvaldsins á Akureyri, enda þótt innfjarðar sé, en landleið er bæði löng og erfið. Þessi sérstaka aðstaða Ólafsfjarðar eru einhver sterkustu rök með frv. — Vil ég svo f. h. allshn. leggja til, að frv. verði samþ.