12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Þorsteinn Þorsteinsson [óyfirl.]:

Það hefir mikið verið talað um. hve embættismenn væru margir í þessu landi og hversu fjárhagsástandið væri erfitt. Þetta mun og hvorttveggja vera rétt. Mér þykir því varhugavert að halda áfram á þeirri braut, að láta kauptún úti um land fá sérstaka embættismenn, því eins og sagt er í nál., er enginn vafi á, að fjöldinn muni koma á eftir og krefjast hins sama réttar. Í fyrra lágu fyrir tvær beiðnir um lögreglustjóra, í Bolungavík og Keflavík, og þó sumir væru á móti þessum nýju embættum, var þetta samt samþ. á þinginu. En þó þingið hafi einu sinni sveigt inn á þessa braut, þá má ekki halda lengra áfram á henni, því hér er um töluverða fjárupphæð að ræða. Þessir menn fá byrjunarlaun presta úr ríkissjóði, 2 þús. kr., en það, sem sparast, eru að vísu ein hreppstjóralaun, sem eru rúmar kr. 100. Annað sparast ekki úr ríkissjóði, því þó þeir eigi að hafa tollinnheimtu og fleiri innheimtur á staðnum, þá er búið að ákveða sýslumunni ákveðið skrifstofufé, og það virðist vera jafnt, hvað margir lögreglustjórar sem settir eru í þeirra lögsagnarumdæmi.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir mínu atkv. í stuttu máli. Ég var á móti þessum nýju lögreglustjóraembættum í fyrra og mun greiða atkv. á móti þeim enn. En ég skal taka það fram, að ég geri það ekki af þeirri ástæðu, að ég álíti, að Ólafsfjörður verðskuldi það ekki eins og sum önnur kauptún á landinu að hafa lögreglustjóra.

Andstaða mín beinist ekki gegn þessu eina kauptúni, heldur gegn stefnunni almennt, sem ég álít varhugaverða, því það mun sjást seinna, að hér er verið að baka ríkinu geysimikil útgjöld, sem munu aukast eftir því, sem tíminn líður, því mörg kauptún munu koma á eftir. Menn eru í vandræðum með oddvita og vilja losa hreppinn við þeirra laun, og mega menn því vera vissir um, að það siglir stór floti í kjölfar þessarar skútu.