12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Bernharð Stefánsson:

Ég þakka allshn. fyrir góða afgreiðslu þessa máls, þar sem hún leggur til, að þetta frv. verði samþ. En n. hefir ekki tekið til greina þær bendingar, sem ég gaf við l. umr. málsins um það, að komið gæti til mála, að þessi starfsmaður þyrfti ekki endilega að vera lögfræðingur, því við það gæti kostnaðurinn kannske orðið minni, og auk þess óvíst, hvort lögfræðingur fengist. En n. hefir sjálfsagt ekki séð þetta fært, og læt ég þá þar við sitja.

Hv. þm. Dal. hefir gert nokkrar aths. við þetta frv. og þá stefnu, sem fram kemur í því. Hann sagði m. a., að embættismenn hér á landi mundu vera orðnir nógu margir. Ég er honum að nokkru leyti sammála um það, og það munu sjálfsagt allir vera. En það er nú svo, að þó allir tali um, að embættismenn séu of margir, þá er fólkið alltaf að biðja um nýja og nýja. Bæjarfélögin eru ekki beint skyldug til þess að hafa bæjarstjóra, heldur gætu þau látið bæjarfógeta annast þeirra störf, en þau telja sér hag í því að hafa sérstakan bæjarstjóra, til þess að annast störf bæjarfélagsins, þó þau þurfi sjálf að launa þeim. Fólkið æskir þess, jafnvel í þeim bæjarfélögum, sem ekki eru mjög stór, ein, og t. d. á Ísafirði og Seyðisfirði, og það hefir lengi legið við borð að biðja um bæjarstjóra á Siglufirði. Eins er um Ólafsfirðinga; þeir vænta sér mikils af því, að það verði betri forstaða veitt málum þeirra, ef þeir fá fastan starfsmann.

Hv. þm. Dal. var að tala um það, að mörg kauptún mundu koma á eftir með samskonar kröfur. Ég get alveg búizt við því. En hv. frsm. gat um það, að n. hefði einmitt athugað þessa hlið málsins og komizt að þeirri niðurstöðu, að fyrst um sinn mundi sennilega ekki verða mikil brögð að því. — Ég tel samt sem áður nauðsynlegt að taka þetta til sérstakrar athugunar og setja almenn ákvæði í sveitarstjórnarlögin um stjórn stærri kauptúna, því það eiga ekki sömu ákvæði við um þau eins og um hreppa.

Hv. þm. Dal. var einnig að tala um það, að sér fyndist þetta mál ætti að bíða eftir till. launamálanefndar. Ég sé nú ekki, að þetta mál komi því beinlínis við. Auðvitað veit ég ekki, hvernig þessar till. launamálanefndar verða, en ég geri ekki ráð fyrir, að hún geri till. um það, í hvaða kauptúnum eigi að vera lögreglustjórar og hvar ekki; en að sjálfsögðu gerir hún till. um laun þessara manna. Það getur verið, að hún geri einhverjar till. um embættisskipun, en um það þori ég ekkert að fullyrða. Ég get sem sagt tekið undir það, að þetta mál þurfi að fá fastari skipun en enn er orðin, en þar sem þessar beiðnir hafa verið teknar til greina frá nokkrum öðrum kauptúnum og ekki eru enn komnar heildartill. um skipun þessara mála, þá vona ég, að hv. d. sýni málinu þá sanngirni að samþ. það.