26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. S.-Þ. notaði sína ½ klst. aðallega til að ráðast á mig, af því að hann vissi, að ég hafði ekki nema 15 mínútur til andsvara. Hann talaði um kosningarnar í vor og honum þótti það eiginlega undarlegt, að Sjálfstfl. skyldi ekki fá meiri hl. í þinginu. En að þetta skuli vekja undrun, sýnir einmitt það, hve miklu meira álit menn hafa á þessum flokki en öðrum flokkum. Hv. þm. vildi gera mikið úr tekjuhalla í tíð síðustu stj. og vildi kenna mér og hv. fyrrv. atvmrh. um það. Ég hefi hér fyrir framan mig landsreikninginn frá 1933, en það var eina heila árið, sem sú stjórn sat. En sá reikningur sýnir, að rekstrarhallinn var sama sem enginn. Þetta eru því bláköld ósannindi hjá hv. þm. Gegnir furðu, að hann skuli treysta sér til að fara út í þessa sálma með þá landsreikninga að baki, sem tilheyra hans stjórnartíð. Hann talaði um borgun til Péturs Magnússonar fyrir málflutning, sem hann tók að sér fyrir Áfengisverzlun ríkisins. Því er þar til að svara, að forstjóri Áfengisverzlunarinnar gerði sjálfur samning við Pétur Magnússon um þessa borgun, og auk þess var málið höfðað gegn fjmrh., en ekki dómsmrh., eins og venja er í slíkum tilfellum.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði ofsótt Pálma Loftsson. Ég þori að fullyrða, að Pálmi Loftsson ber mér ekki slíka sögu, því að sú rannsókn, sem hér er um að ræða, var framkvæmd eftir beiðni hans sjálfs. Þá sagði hv. þm., að ég hefði greitt Einari Jónassyni fyrrv. sýslumanni 1000 kr. Hann sagði þetta mjög hispurslaust, en það er eigi að síður ósatt með öllu, því að ég hefi aldrei greitt Einari Jónassyni neitt. Ennfremur sagði hann, að ég hefði greitt Margréti Zoëga 2000 kr. fyrir að tapa tveimur málum. Í þessu er ofurlítið sannleikskorn. En þessi upphæð var greidd til þess að koma í veg fyrir kröfu á hendur ríkissjóði við afnám bannlaganna, af því að vínveitingaleyfi hennar var æfilangt. Nú er þessi kvöð leyst af hinu opinbera. Annars eru þetta þeir smámunir, að það tekur því varla að minnast á það. Þá kem ég að „Lauga landa“. Hann var sendur vegna sölu á „matjesild“, og ég hélt, að þessum manni væri hægt að treysta, af því að mér var kunnugt, að hann hafði unnið samskonar verk í þjónustu síldareinkasölunnar. Ég skal fúslega játa, að það var yfirsjón hjá mér að sjá ekki, að maðurinn hlyti að vera gallaður, úr því að sú stofnun hafði haft hann í þjónustu sinni. Annars finnst mér, að þessi hv. þm. ætti að þegja þegar um svona smávægilegar fjárhæðir er að ræða, þar sem sannað er, að hann sjálfur brúkaði í sinni stjórnartíð um 60 kr. á dag úr landhelgissjóði í veizlur, hestahald og bifreiðar. Um Spánarferð Helga Guðmundssonar er það að segja, að hann færðist sjálfur undan að fara, en ég fékk hann til að fara með fullu samþykki form. Fél. ísl. botnv.skipaeigenda.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði látið Einar Einarsson fara af Ægi, en ég gerði það eftir tillögu Pálma Loftssonar, þar sem hann hafði verið sakaður um að hafa breytt tölum í bókum skipsins, er snertu töku botnvörpungs. Hann gat vitanlega ekki verið skipherra áfram nema hann hreinsaði sig af þeim sökum.

Þá talaði hv. þm. um mál Lárusar Jóhannessonar. Yfirlýsing Péturs Magnússonar fór ekki í þá átt, sem hv. þm. sagði. Hann gerði enga tillögu í málinu, þó að hann léti í ljós efa um, að það ynnist. Hv. þm. sagði, að ég hefði heimtað af áfengisverzluninni, að útsöluverð vínanna væri lækkað. Það er ekki rétt, en ég áminnti forstjórann um að hafa álagninguna samkv. lögum. Hann tók þá það ráð, að flytja vínið inn á flöskum, en ég var óánægður með þá tilhögun, vegna þess, að þá fór meira fé út úr landinu.

Þá nefndi hann landhelgisgæzluna, eins og hann er vanur, og ávítaði mig fyrir að hafa dregið úr henni. En nú leggur hann sjálfur til, að ennþá meira verði dregið úr henni en ég gerði. Hvernig getur þetta samrýmzt? Einnig sagði hann, að ég hefði fjölgað varðskipherrum. Það er gersamlega ósatt. Ég hefi engum skipherra bætt við. Ég verð að láta þetta nægja tímans vegna, enda er venjulega hægt að komast að því rétta með því að hverfa alveg við því, sem þessi hv. þm. segir.

Ég verð að koma víðar við, og vona ég, að flokksmenn mínir láti mig fá nokkrar mínútur til viðbótar, ef minn tími brestur. Hæstv. fjmrh. lét í ljós undrun sína yfir því, að ég skyldi tala um fjárlfrv., en ekki hv. 1. þm. Reykv. Þessi hæstv. ráðh. mun ekki verða spurður leyfis um það, hverjir tala hér af hálfu Sjálfstfl. En til þess að seðja forvitni hans skal ég segja honum það, að ástæðan til þess, að ég tala hér f. h. Sjálfstfl., er fyrst og fremst sú, að ég er frsm., enda hefir hv. 1. þm. Reykv. beðizt undan því að taka þátt í umr., af því að hann á afmæli í dag. Vil ég upplýsa hlustendur um þetta, vegna þess að ég veit, að þeir sakna þess, að hann tekur ekki þátt í þessum umr.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég ætti ekki að tala um illan munnsöfnuð hjá honum, meðan ég væri í flokki með hv. þm. G.-K. Ég hélt satt að segja, að hæstv. ráðh. hefði ekki ætlað að taka hann sér til fyrirmyndar, en fyrst svo er, að hann hefir ætluð að taka hann til fyrirmyndar, þá verð ég að segja, að honum hefir ekki tekizt það. Hv. þm. G.-K. var að sönnu oft bituryrtur í ræðu sinni, það er satt, en hann fór hvergi með óviðurkvæmleg orð. Og það er beinlínis eftirtektarvert í þessum umr. og umr. hér á þingi yfirleitt, hve mjög andstæðingar hans reyna að narta í hann. Og ég skil það ofur vel, því að hann tekur nokkuð harkalega á kaunum andstæðinganna, eins og sumir góðir læknar eiga til, og honum er alveg sérstaklega sú list lagin að fara hispurslausum kjarnyrðum um málstað þann, sem hann talar um. Ég skil því vel, að andstæðingum hans svíður einatt undan tökum hans, og skil, að áleitnin gegn honum sem formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins eru stunur og andvörp þeirra, sem finna, að hann hefir tekið óþægilegar á kaunum þeirra og kýlum en þeir hefðu óskað. Annars er það um andmæli hæstv. fjmrh. að segja, að hann stillti þeim yfirleitt í hóf. Þó fór hann einu sinni út af strikinu, þar sem hann sagði, að ég hefði áætlað gjöld ríkissjóðs vísvitandi rangt. Ég skora á hann að sýna og sanna, hvar og hvenær ég hefi gert það. Ég tel það skyldu hans að sanna þetta, úr því hann er að slá því fram, en veit hinsvegar, að hann getur það ekki. Hann segist ætla að taka tekjuskattinn af hreinum tekjum. En það má líka skrúfa þær upp með „kúnstugum“ meðulum, og það hefir hann gert, t. d. með því að reikna húseigendum til tekna 10% af húsverðinu. Vitanlega nær það ekki nokkurri átt, og þegar samskonar skipun var gefin út um land, hlógu allir að því og engum datt í hug að fara eftir þeirri vitleysu. Honum datt ekki í hug að neita því, að tekjuskatturinn væri hærri hér en annarsstaðar, þar sem hann þekkti til, svo að hann ætti ekki að þurfa að brigzla okkur, þó að við séum stamir á að samþykkja þessa gífurlegu hækkun hans. Ég gæti nú trúað, að það yrði tafsamt fyrir hann að smala saman þessari ½ milljón hjá verzlunarmönnum og embættismönnum í landinu, því að hann viðurkenndi, að frá atvinnurekendum væri ekki neins að vænta. Aðferð hans virðist líka vera á góðum vegi með að leiða til þess, að bæjar- og sveitarfélög verði að biðja um leyfi til þess að leggja á sérstaka tolla, af því að ríkið eyðileggur gjaldstofn sveitarfélaganna með hinum gífurlega tekju- og eignarskatti. Viðvíkjandi rekstri ríkissjóðs tel ég það forsvaranlegt, þegar neyð er í landi hjá atvinnuvegunum eins og nú, að eigi sé gengið lengra en það, að ríkisbúskapurinn sé rekstarhallalaus, þó að eigi séu borgaðar skuldir. Það þýðir, að hvorki verður tap né gróði.

Út af orðum hv. 1. þm. Reykv. um kaupgetuna skal ég segja það, að ég hlustaði á orð hans í Ed., og hann sagði, að aukin kaupgeta hlyti að koma meira eða minna fram í erlendum kaupum og ef hæstv. fjmrh. vildi koma í veg fyrir erlend kaup, þá yrði hann að minnka kaupgetuna, en ekki auka. Hæstv. fjmrh. gumaði af því, hve fjárhagsáætlunin væri rétt. Það þurfti nú samt að bæta við 100 þús. kr. til berklavarna og 50 þús. kr. í Sogsvirkjunina og skrifstofukostnaður húsameistara var áætlaður helmingi lægri en þurfti. Nefni ég þessa liði aðeins sem dæmi, til að sýna, að hæstv. ráðh. hefir enga ástæðu til að ofmetnast, því að áætlanir fjárlagafrv. voru alls ekki eins góðar og hann vildi vera láta.

Hæstv. forsrh. staðfesti það, sem ég sagði um Björn Gíslason. Viðvíkjandi fundunum í Skagafirði í vor er það að segja, að þar kom fleira fram en hér hefir verið minnzt á. Með kosningaúrslitin hvað mig snertir er ég ekki óánægður, því að ég sigraði. Hæstv. forsrh. kallaði mig 1. þm. Reykv. áðan. Það hefir kannske verið af því að hann lagði svo mikið kapp á, að ég yrði ekki þm. Skagf., en ég er það nú samt.

Um vegamálin vildi ég segja eitt orð. Mér er að vísu ekki ljúft að deila við hv. 6. landsk., því að mér hefir líkað vel við hann í fjvn., en ég tel, að talsverðri hlutdrægni hafi verið beitt í úthlutun fjár til vegamála, og hefir það komið niður á Dalasýslu, Borgarfj.sýslu, Rangárvallasýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu. En ég verð að sleppa að fara út í það frekar, því að ég er þegar farinn að taka tíma frá öðrum flokksmönnum mínum.