11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Allshn., sem hefir haft þetta mál til meðferðar, sem hefir þegar verið samþ. í Ed., hefir ekki öll orðið sammála um það, þannig, að hv. þm. Barð. hefir ekki viljað ganga með frv.

Hinar almennu ástæður fyrir því, að frv. þetta er fram komið, eru þær, að í kauptúni því, sem hér um ræðir, sem er Ólafsfjörður, er þannig ástatt, að íbúatala þar vex allört, og sérstaklega er þar yfir sumarmánuðina mjög mikið starf fyrir oddvita og hreppstjóra. Og það er svo umfangsmikið, að þeir þykjast ekki geta annað því, enda tekur það frá þeim verulegan tíma, og laun þeirra eru mjög lítil. Það hafa í seinni tíð ýmsir smærri bæir óskað aukinna réttinda í þessum efnum. Á síðustu þingum hafa komið fram frv. um það, að veita kauptúnum rétt til þess að hafa lögreglustjóra, eins og t. d. Akranesi, Bolungavík og Keflavík. Með þessu er það spor stigið, að sameina hreppstjóra- og oddvitastarfið, og skipa mann til þess að annast þau störf, sem fær í laun 2 þús. kr. á ári úr ríkissjóði. Hann hefir á hendi innheimtu í ríkissjóð og hann hefir lögreglustjóravald. Í Ólafsfirði hagar svo til, að það er mjög erfitt að komast þangað, sérstaklega á vetrum, þar sem landleiðis er ekki hægt að komast, nema þá vestur í Fljót, og þá er yfir langan fjallveg að fara, en til Eyjafjarðar er oft ófært langan tíma af vetrinum, vegna brima, enda eru venjulega allir bátar á landi þar, þegar á veturinn líður, svo að þegar af þeirri ástæðu er erfitt um samgöngur þar. Þessi staður er svo afskekktur og er orðinn það stór, að hann virðist, þegar tekið er tillit til þeirra fordæma, sem þegar hafa verið gefin, eiga fyllilega kröfu til þess að fá rétt til þess, að þar starfi sérstakur maður með lögregluvaldi. Sá maður ætti að annast þau störf, sem hreppstjóri og oddviti nú vinna.

Hv. minni hl. allshn. mun nú halda því fram, að ef þetta frv. verði samþ., þá muni fara svo, að hvert kauptúnið á fætur öðru komi með sömu kröfu, og að þetta geti þá orðið allveruleg útgjöld fyrir ríkissjóð, og þess vegna muni verða erfitt að segja til um það, hverjum skuli neitað. En í fyrsta lagi hefir þingið þegar gengið inn á þessa braut, og meira að segja á síðasta þingi voru samþ. 2 frv., sem gengu í svipaða átt og þetta frumvarp, og auk þess tel ég ekki neinn vafa á því, að Ólafsfjörður sé sá kaupstaður, sem fyllstu og réttlátustu kröfu hefir til þess að hafa mann með þessu valdi. Það er vegna þess, eins og ég hefi áður tekið fram, að hann er afskekktur og mannmargur, og miklir örðugleikar á að ná til yfirvalda, ef á þarf að halda. Þar að auki eru hreppstjóra- og oddvitastörfin þar svo mikil, að varla fæst maður til þess að gegna þeim, og eru þar að auki því nær ólaunuð. Launin, sem þessi lögreglustjóri fengi úr ríkissjóði, eru ákaflega lág, 2 þús. kr., og því mjög vafasamt, að lögfræðingur fengist til þess að gegna starfinu. En þó hefir það sýnt sig, að á þeim öðrum stöðum, þar sem slíkar stöður hafa verið veittar, hafa fengizt lögfræðingar til þess að gegna þeim. Þessi maður mundi vitanlega fá nokkur aukastörf á staðnum, svo að þar gæti orðið lífvænlegt fyrir hann, þó að launin sjálf væru ekki nægileg til þess, að hann gæti lifað á þeim. Meiri hl. n. vill því mælast til þess, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd.