26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get ekki komizt yfir að svara nema fáu í þeim mörgu ræðum, sem hér hafa verið haldnar. Sú er þó bót í máli, að fá má einn samnefnara fyrir allar þessar ræður, því að ádeiluatriðin á stj. hafa svo oft verið endurtekin. — Því hefir verið haldið fram, að gengið væri um of á rétt bæjar- og sveitarfélaga með skattafrv. stj. Það er vitanlega fylgt sömu stefnu gegn þeim eins og einstaklingunum, að þeim er ætlað að greiða mest, sem af mestu hafa að taka. En þetta er og hefir alltaf verið eitur í beinum sjálfstæðismanna. Hv. 1. þm. Skagf. minntist á orð hv. 1. þm. Reykv. um kaupgetuna og vildi halda því fram, að orð hans hefðu fallið á þá leið, að kaupgetuna bæri að minnka, en ekki slá hana niður. Hann sagði víst hvorttveggja, og ég held, að það sé öllum kunnugt, að hann hélt því fram, að kaupgetuna bæri að minnka. Annars skal ég nota tækifærið til að óska hv. 1. þm. Reykv. til hamingju með afmælið, — ég geri ráð fyrir, að hann heyri til mín, þó að hann sé ekki hér staddur, — og ég samgleðst honum fyrir að geta haft það til afsökunar fyrir fjarveru sinni og komast þannig hjá að tala um kaupgetuna.

Ég saknaði þess, að hv. þm. G.-K. flutti mér ekki þakkir fyrir að gera grein fyrir till. stjórnarandstæðinga í fjármálunum. Mér kom það á óvart, því að ég hélt, að sú grg. hefði glatt hann. Ég sýndi fram á, að till. sjálfstæðismanna í fjármálunum væru hrein skrípalæti og að niðurstaðan hjá þeim væri 3½ millj. kr. tekjuhalli, þar sem þeir gera engar till. um tekjuöflun. Þó að hv. þm. G.-K. reyndi að þrífa einhverja flík úr fatabúri stjórnarinnar til þess að hylja nekt sína og síns flokks í þessum málum, kemur það honum að engu haldi. Hann stendur jafnnakinn eftir sem áður, og þannig mun skilið við hann í þessum umr.

Þá var hv. þm. G.-K. að tala hér eins og aðrir hv. þm. um, að Framsfl. væri runninn inn í Alþfl. Sönnunin fyrir þessu á að vera sú, að eitthvað í þá átt hafi staðið í Alþýðublaðinu, jafnhliða því, sem málefnasamningarnir voru birtir. Þetta taldi hann svo góða sönnun, að hann gæti ekki komið með aðra betri. Hingað til hefir hann þó ekki lagt mikið upp úr Alþýðublaðinu sem sönnunargagni. Sjálfstæðismenn hafa haldið því fram, að Alþfl. væri á móti afurðasölumálinu. Samt hefir hann nú í samvinnu við Framsfl. gengið að því að leysa þau. Svo á það að vera vottur þess, að framsóknarmenn séu í þeirra vasa. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu; hún er of strembin fyrir mig, og ég hygg fyrir marga.

Þá kom fram hv. þm. Borgf. og talaði í sama anda, og má segja, að ræða hans gengi upp í ræðu hins. Þó var eitt atriði frumlegt hjá þessum hv. þm. Hann var eitthvað að tala um rúm, mér skildist helzt hjónarúm, sem búið væri að taka úr skilrúmið. Ég þekki nú ekki slík skilrúm, en þau tíðkast máske í hans byggðarlagi og eru tekin burt þegar ástin er komin á eitthvert visst stig.

Þá hefir verið nefnt enn eitt, sem á að sýna, að Framsfl. sé genginn inn á stefnu sósíalista, og það er, að flokkurinn vilji láta ríkið eiga jarðirnar. Hefir þar verið borið fram, að flokkurinn hafi svikið eftir kosningar. Til þess að hrekja þessi staðlausu ósannindi vil ég lesa hér upp úr stefnuskrá Framsfl., sem hann birti fyrir kosningar í Tímanum: „Að koma á löggjöf um erfðaábúð á jörðum, sem eru í eign ríkisins, og stuðla að því, að ríkið eða sveitarfélög geti eignazt með hæfilegu verði jarðir þær, sem einstaklingar eða lánstofnanir vilja selja“. Þetta tekur því af allan vafa um, að flokkurinn hefir komið hreint fram í þessu máli eins og öðrum, og kjósendum því fullkomlega ljóst, að hverju þeir gengu.

Þá hafa þeir hv. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. talað mikið um einkasölufarganið, sem gengi úr öllu hófi, og þar væri Framsfl. að svíkja kjósendurna. Hv. þm. G.-K. hafði nákvæmlega sömu ummæli í útvarpsumr. á föstudagskvöldið. Það er nákvæmlega sama hugvekjan, sem hann les yfir kjósendunum. Á Alþingi 1930 var flutt frv. um einkasölu á bifreiðum og mótorum af 2 framsóknarmönnum. Þetta er því ekki aðeins í samræmi við stefnu flokksins, heldur hafa framsóknarmenn áður borið fram samskonar frv. Á það mætti líka benda, að þegar hv. þm. G.-K. var sjávarútvegsmálarh., gaf hann út bráðabirgðalög um einkasölu á saltfiski til handa Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Þá var þessi hv. þm. ekki hræddur við, að afleiðingarnar spilltu sölunni til útlanda. En ætli það hafi ekki gert muninn, að þá átti allt að vera undir stjórn Kveldúlfs, og því ekkert að óttast. En í frv. því, sem stj. flytur um fisksölumálin, er ætlazt til, að þessum málum verði stjórnað af fiskframleiðendum sjálfum, eða öðrum, sem bera ábyrgð fyrir Alþingi. Þetta er sá mikli munur. Eftir þeirra frv. var öll stjórn í höndum fámennrar klíku, en eftir frv. stj. er stjórnin á valdi framleiðendanna sjálfra. Þá minntist hv. þm. á þetta ægilega fyrirbrigði, sem Sjálfstfl. kallar Rauðku — ég get gert það til gamans að kalla hana Rauðku —, og taldi hana öruggt tákn þess, að við værum á valdi Alþfl., þar sem tveir af okkar mönnum hefðu tekið þátt í n. eftir skipun Alþýðufl.rh. En hvernig er um afstöðu Sjálfstfl. til Rauðku? Þeir hafa ekki linnt á látum, svo ólmir eru þeir að fá að vera með í Rauðku. Þeir vilja endilega fá að vera með í n. og segja þó, að hún stefni að þjóðnýtingu. En svo þegar þeim var gefinn kostur á að setja menn í n., ætluðu þeir að komast hjá því að taka hreina afstöðu með því að láta verkfæri sitt, hv. þm. V.-Húnv., greiða atkv. á móti till. um það, en dugði ekki og var það því samþ. Þeir eru því komnir í þá klípu, að annaðhvort verða þeir að nefna menn í n. eða gera allt hjal sitt um Rauðku ómerkt. Og mér skilst, að þeir ætli að nefna menn í n. og fara þá eftir sama skipunarbréfi og framsóknarmennirnir í n., og eftir þeirra eigin rökum ganga með í þjóðnýtingunni. N. hefir hér alltaf verið líkt við Rauðku. Hv. þm. Borgf. sagði, að ekki væri vafi á því, hvert Rauðka stefnir. Samt vilja sjálfstæðismenn ólmir komast á bak Rauðku. Þeir munu þó vissulega litla stjórn hafa á henni, og mun hún hlaupa eftir sínum götum, jafnvel þó að þær liggi til þjóðnýtingar. Þessi málfærsla andstæðinganna er hæfileg fyrir þá, og eru þeir ekki ofhaldnir af að beita slíkum rökum hér í umræðunum.