25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta frv. er borið fram af meiri hl. allshn. eftir beiðni hæstv. atvmrh., og áskilur n. sér rétt til að gera brtt. við einstök atriði frv., ef svo vill verkast.

Aðalnýmæli í frv. er fyrst og fremst í 1. gr., þar sem lagt er til, að lögfesta nýtt heiti á þessari stofnun, sem er Ríkisútvarp, en samkv. l., sem gilt hafa, heitir stofnunin Útvarpsstöð Íslands í Reykjavík. Það heiti hefir þótt þunglamalegt, enda hefir stofnunin þegar hlotið nafnið Ríkisútvarp manna á meðal, og virðist sjálfsagt að lögfesta það heiti. — Þá er í sömu gr. lagt til, að stofnunin heyri undir kennslumálaráðuneytið, en hún heyrir undir atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið samkv. gildandi lögum. Þessi breyt. byggist á því, að stofnunin sé í eðli sínu menningar- og menntastofnun og eigi því að teljast til kennslumálanna.

Í 2. gr. er lagt til, að öllum tekjum útvarpsins skuli varið eingöngu stofnuninni til eflingar og til hagsbóta fyrir útvarpsnotendur. Er það einnig nýmæli. — 3. gr. er um skipun útvarpsstjóra, og er hún að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum.

Í 4. gr. er höfuðnýjung frv. Þar eru ákvæði um í manna dagskrárstjórn, sem komi í stað útvarpsráðs. Formaður dagskrárstjórnar er skipaður af kennslumálaráðherra, þrír menn eru kosnir með hlutfallskosningu í sameinuðu þingi og aðrir þrír eru kosnir af útvarpsnotendum í landinu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá voru það vissar stofnanir og stéttir, sem skipuðu útvarpsráð; atvmrh. skipaði formann ráðsins, annar var skipaður af félagi útvarpsnotenda og þriðji af háskólanum. Síðar var bætt inn í útvarpsráðið einum manni frá barnakennurum og öðrum frá prestastefnu. Felst aðalbreytingin í því, að allir þeir, sem hafa útvarpstæki, eiga nú kost á að taka þátt í kosningu þriggja manna í dagskrárstjórn, í stað þess sem aðeins einn maður var kosinn áður af útvarpsnotendum, og það aðeins af þeim, sem voru í félagsskap útvarpsnotenda, en fjöldi útvarpsnotenda úti um land hafði ekki skilyrði til þess að vera í slíku félagi og gat því ekki notið réttar síns. — Eru þetta þá helztu nýmælin. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.