26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég mun gera hér að umræðuefni þær árásir, sem hæstv. landbúnaðarráðh. hefir hafið á Búnaðarfélag Íslands, þessar fádæma fólskulegu árásir, sem hann hefir hafið á þennan félagsskap. Ég vil benda á það, að ég hefi yfirlit yfir starfsemi þessa félags. Þessi stofnun, Búnaðarfél., er frá 1837. Þá var Búnaðarfél. fyrst stofnað, og frá þeim tíma til 1899 er þessi félagsskapur að þroskast upp í það, að verða það núv. Búnaðarfélag Ísland, og frá 1903 hafa ýmis búnaðarsambönd í landinu verið að rísa á stofn, og eru þau nú orðin 10, og það eru þau, sem skipa búnaðarþing Íslands, og á það svo að hafa vald til þess að skipa stjórn félagsins. Það eina, sem vantar á, að fullkomin sjálfstjórn sé innan Búnaðarfél., er, að frv. það, sem Pétur Magnússon flytur í Ed., verði að l. Ef hæstv. forsrh. og flokkur hans vill styðja að því, að svo verði, þá er ekki annað fyrir hann en að flýta því, að þetta frv. verði að l. Verður þá stjórn Búnaðarfél. skipuð nákvæmlega á sama hátt og stjórn S. Í. S. Það hefir verið talað um, að búnaðarsamböndin væru kjörmenn til að kjósa á búnaðarþingið og að því leyti frábrugðið samvinnufélagsskapnum, en þá má benda á það, að á aðalfundi kaupfélaganna eru sendir fulltrúar fyrir hvern hrepp, og má því segja, að aðalfundur kaupfélaganna er sviplíkur því, sem búnaðarsamböndin eru, þannig, að það koma fulltrúar úr ýmsum hreppum þess svæðis, sem kaupfélagið nær yfir, á aðalfund kaupfélagsins og kýs fulltrúa á aðalfund S. Í. S. Það er því ekki hægt að setja út á þá skipun Búnaðarfél., sem farið er fram á í þessu frv.

Um starf Búnaðarfél. er það að segja, að hver sem segir, að þar sé mesta aðgerðarleysi, er svo gersneyddur öllum kunnugleika á störfum félagsins sem mest má vera.

Á undanförnum tímum, eða fram til 1931, hefir eitt af störfum Búnaðarfél. verið það, að skipuleggja félagið á þeim grundvelli, sem það nú starfar á, og koma á búnaðarsamböndum, sem undirbyggju búnaðarþingið.

Búnaðarfél. hefir haft margháttaða starfsemi í þýðingarmiklum málum, m. a. búfjársýningar og fóðurtilraunir. Það hefir staðið fyrir merkum framkvæmdum og haft forgöngu fyrir geysimikilli ræktun við suma kaupstaði og kauptún, t. d. í Höfn í Hornafirði. Þá hefir félagið gefið út Búnaðarritið, fóðurfræði, líffærafræði, garðyrkjufræði, efnafræði og merkilega bók um hesta. Það hefir haft á hendi merkilega skýrslusöfnun fyrir landbúnaðinn. Búnaðarfél. hefir haft á hendi yfirstjórn fiskimála, og nú hefir það einnig tekið að sér loðdýraræktina. Búnaðarfél. hefir þannig haft á hendi margháttaða starfsemi fyrir landbúnaðinn, sem hefir orðið að miklu gagni. — Það er ástæðulaus og röng ásökun, að halda því fram, að í vor hafi enginn verið viðstaddur í Búnaðarfél. til að sinna mönnum, sem komu þangað, Metúsalem Stefánsson og Ásgeir Jónsson voru þar alltaf við, og sömuleiðis Sveinbjörn Benediktsson og hefir gert allt, sem í hans valdi hefir staðið, til að greiða fyrir mönnum. Það er því alröng ásökun, að svo mikið sundurlyndi hafi verið í Búnaðarfél., að ráðunautarnir hafi aldrei þar komið og jafnvel sent börn sín þangað til að taka þar laun sín. Þetta hefir aldrei átt sér stað nema með Pál Zóphóníasson, því að hann hefir ekki sézt þar í hálfan mánuð, og hann er sá eini, sem gæti komið til mála að senda börn sín eftir laununum. Hinir eiga engin börn til að senda. Þessi ásökun er því alröng, eins og annað, sem þessi hæstv. ráðh. sagði. Það var allt einn ósannindavefur, sem ekki er sæmilegt að flytja fram í garð félagsstofnunar bændanna. Og þegar ráðunautarnir eru á eftirlitsferð úti um land, þá er rangt að ásaka þá fyrir það, að þeir séu ekki heima. Þeir verða vegna starfa sinna að vera fjarverandi til að inna af hendi störf sín. Hvernig væri litið á það af hæstv. ráðh., ef ráðizt væri á S. Í. S. eins og hann hefir nú ráðizt á Búnaðarfélagið? Það hefir verið fordæmt, og er líka fordæmanlegt, alveg eins og það er fordæmanlegt af þessum flokki, hvernig hann ræðst á Búnaðarfélagið.

Sigurður Einarsson þurfti nú að losa sig við eina af sínum venjulegu ræpum, og var þar fátt merkilegt. Það var von, að hann þyrfti að leysa frá skjóðunni, sem hefir verið einna fjandsamlegastur í garð landbúnaðarins. Hann hefir sagt, að hann mundi engu frv. fylgja um endurbætur á sölu mjólkur, nema það væri tryggt, að mjólkin lækkaði a. m. k. um 2 aura fyrir áramót og 5 aura eftir áramót. Ef til vill á hann höfuðsökina á því, að þessi mjólkurlækkun varð, þessi þm., sem nýlega fékk þá lýsingu hjá einum af samstarfsmönnum sínum, hv. þm. Barð., að það væri öllum til skammar að hafa hann á þingi.

Hann þarf ekki að gera sig breiðan yfir því, að ég hafi verið rekinn úr Framsfl., þessi maður, sem búinn er að hrökklast milli allra flokka í landinu, ýmist rekinn eða á annan hátt hrökklazt burt. Síðast var hann rekinn úr kommúnistaflokknum, og þá bauð hann sig fram fyrir Alþfl. Hann getur aldrei boðið sig tvisvar fram fyrir sama flokk, og ef til vill verður hann bráðum rekinn úr Alþfl., því að ég hefi heyrt, að varaformaður Alþfl. hafi haft þau orð við hann, að því miður væri ekki hægt að reka hann nú vegna aðstöðunnar á þingi.

Ég get þá ekki verið að spandera meiru púðri á þennan hv. þm. Hann er svo þekktur að því að vera fjandsamlegur í garð landbúnaðarins, að það þarf ekki meira að tala um það innræti hans.

Hæstv. fjmrh. vék nokkrum orðum til mín, m. a. í sambandi við Rauðku. Hann sagði, að ég hefði þar verið á mála hjá sósíalistum að fyrirskipun Sjálfstfl. Ég veit ekki, hvernig hann getur heimfært þetta, nema hann telji, að það sé leynisamband á milli sjálfstæðismanna og sósíalista, nema þegar þeir sameiginlega vinna að því að taka valdið frá sveitunum.

Hæstv. ráðh. spurði, hvernig væri hægt að framkvæma till. Bændafl. Ég hefi bent á, að draga mætti úr ýmsum fjárframlögum, sem ætluð eru til annara hluta. Ef það hrekkur ekki til, þá er ég reiðubúinn, ef hann vill, að ræða um það, hvernig taka skuli það, sem til vantar, og hæstv. ráðh. hefir styrk til að koma gegnum þingið þeim tekjuaukafrv., sem hann vill, og ekki skal standa á minni aðstoð, ef hann vill koma fram heill og óskiptur til viðreisnar landbúnaðinum með okkur Bændaflokksmönnum.

Hæstv. landbrh. talaði um það hér í kvöld, að það væri óréttmætt að veita Bændafl. jafnan ræðutíma og öðrum flokkum. Þetta sýnir innræti hans gagnvart hagsmunamálum bænda. Hann veit vanmátt sinn til að fylgja þeim, af því að hann er bundinn á básinn hjá sósíalistum. Hann segir, að fyrrv. stj. hafi skilið við ríkiskassann tóman. En sá var þó munur á, að þegar núv. stj. tók við, var búið að inna af höndum stærstu greiðslurnar til útlanda, sem oft hefir verið erfitt að standa skil á. En þegar fyrrv. stj. tók við, þá var ekki meira í ríkiskassanum en nú var, þegar búið var að inna þessi gjöld af hendi.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um dauðan flokk. Hann sagði, að Bændafl. væri leifar af tilraun til flokksmyndunar, og þessar leifar væru notaðar til að koma inn tortryggni í garð stj. En hvernig getur það vakið tortryggni hjá mönnum, þegar rétt er skýrt frá málum? Þetta gat hæstv. ráðh. fyrirbyggt með því að láta það ekki á sannast, að hann sé að vinna á móti hagsmunamálum bændanna. Og svo vill hann vera óáreittur með svik gegn landbúnaðinum. En hann fær það ekki. Það verður stöðugt haldið áfram, á meðan Bændafl. á fulltrúa á þingi, að þeirra kröfum verði sinnt og tekið fullt tillit til þeirrar erfiðu aðstöðu, sem fátæklingarnir hafa. Hversu mikil brigðmælgi sem koma frá hæstv. ráðh. og hans flokki, þá mun ég aldrei láta undir höfuð leggjast að sjá svo um, að hann uppskeri ávöxtinn af því við þær kosningar, sem hann á eftir að ganga í gegnum.

Ég held, að ég hafi þá hrakið það, sem voru allra mest áberandi ósannindi í ræðum hæstv., stj. og þeirra, sem hennar málstað styðja. Ég mun geyma það, sem eftir er, til síðustu umr., enda mun þá flokksbróðir minn, Þorsteinn Briem, taka það til athugunar. Ég býst því við, að þetta verði í síðasta skiptið, sem ég tek til máls. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa gefið mér svo gott tilefni til að skýra frá mistökum hans í starfi hans í þágu landbúnaðarins. Ég vona, að áheyrendur hafi tekið eftir, hve máttlaus svör hans voru og aðeins tilraun til að reyna að hreinsa sig af sambúðinni við sósíalista, sem þeir geta ekki, hvernig sem þeir leggja sig í líma til að vinna það verk.