02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Mig langar til að segja fáein orð umfram það, sem í grg. stendur. — Eins og kunnugt er, hefir hlutafélagið Skallagrímur í Borgarnesi fyrir 2 árum keypt skipið Suðurland og haldið með því uppi ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness. Síðan félagið tók við samgöngunum, hafa þær batnað stórum. Þær hafa betur verið sniðnar eftir þörfum héraðsbúa, og hefir almenn ánægja verið að. Enda þótt föstum ferðum hafi fjölgað, hefir fyrirtækið borið sig vel. Hefir vel verið á öllu haldið. En nú er þetta gamla skip að gefast upp. Var síðasti klassi þess útrunninn 1. okt. Það kostar nú 80—100 þús. kr. að klassa skipið upp, og hefir það ekki þótt geta komið til mála. Hefir því verið leitað tilboðs um nýtt skip. Má öllum ljóst vera, hversu nauðsynlegt er, að góðum samgöngum sé haldið uppi á þessari leið. Það er ekki aðeins Borgarfjarðarsýsla, sem góðs nýtur af þessum samgöngum, heldur og fleiri héruð, svo sem Mýrasýsla, Snæfellsnessýsla, og Dalasýsla að nokkru leyti. Öll þessi héruð njóta að meira eða minna leyti góðs af samgöngunum, og sama má jafnvel segja um Norðurland. Auk þess er þetta miklu beinni leið milli Norður- og Suðurlands heldur en að fara á bílum kringum Hvalfjörð. Það er því hugmyndin, að fara megi á einum degi á milli Rvíkur og Akureyrar, en til þess að það geti orðið, þarf skip það, er gengur á milli Rvíkur og Borgarness, að vera hraðskreitt, en það á hið nýja skip einmitt að vera.

Annars er það víst, hvað sem þessu liður, að það yrði hreinasta neyð, ef samgöngur á þessari leið féllu niður. Nú standa sakir þannig, að h/f Skallagrímur í Borgarnesi hefir fengið tilboð um smiði á nýju skipi, beinlínis sniðið eftir flutningaþörfinni á þessari leið. Það er lítið eitt stærra en Suðurlandið, eða 125 fet á lengd og 22 fet á breidd. Brúttóstærð þess er um 300 tonn, og á það að geta flutt 250 farþega mest. Vélin í því á að vera dieselvél, með 440—490 hestöflum. Auk þess á það að vera útbúið til þess að geta tekið 10 bíla á dekk. Það getur því orðið nokkurskonar bílferja hér á milli. Kaupverð þess er 290 þús. kr. Af þessari upphæð eiga 47500 kr. að greiðast meðan á byggingunni stendur. Hitt á að greiðast með jöfnum greiðslum á 5 árum, en það er gert sem skilyrði, að skipið sjálft og ábyrgð ríkisins sé sett sem trygging fyrir þessari upphæð meðan á greiðslunni stendur.

H/f Skallagrímur hefir von um að geta lagt fram 90 þús. í hlutafé, en treystir sér hinsvegar ekki til að leggja út í fyrirtækið, nema með því móti, að geta tryggt sér í hlutafé sem svarar helmingi af kaupverði skipsins, eða sem næst 150 þús. kr., og fyrir því leyfir það sér að snúa sér til hins háa Alþingis um 50 þús. kr. framlag til hlutafjárkaupa, og getur sætt sig við, að upphæðin greiðist á 5 árum með jöfnum greiðslum, svo það ætti ekki að verða ríkissjóði mjög tilfinnanlegt.

Treysti Alþingi sér ekki til þess að verða við þessari beiðni, þá mun félagið ekki telja sig megnugt að leggja út í fyrirtækið, og þá myndu þær 90 þús., sem nú eru til, renna í vasa einstakra hluthafa í gamla félaginu, en ríkissjóður verða að annast samgöngurnar á þessari leið.

Ég vænti nú, að hv. þm. taki þessu með velvilja og greiði götu málsins gegnum þingið. — Að svo mæltu óska ég frv. vísað til samgmn. að umr. lokinni.