12.11.1934
Neðri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál. Eins og nál. á þskj. 364 ber með sér, hafa samgmn. beggja deilda rætt þetta mál á sameiginlegum fundi og orðið ásáttar um afgreiðslu þess í höfuðatriðum, á þá leið, að ekki sé rétt að synja félaginu um þá ríkisábyrgð, sem hér er farið fram á í frv., og hafa nefndirnar fallizt á að mæla með því.

Um hitt atriðið, framlag úr ríkissjóði til hlutafjáraukningar í h/f Skallagrími, allt að 50 þús. kr., er nokkuð svipað að segja. Samgmn. beggja deilda hafa einnig orðið sammála um að mæla með því, eins og þetta mál horfir nú við, að þetta framlag verði innt af hendi sem hlutafé. Þó telur nefndin fordæmi þetta ekki alls kostar rétt. En með því að hér er myndarlega á stað farið af félaginu og nægileg trygging fyrir því, að skipið sé gott og vandað — en það er mikils um vert, því að þessi sjóleið, á milli Borgarness og Rvíkur, er mjög fjölfarin, ekki einungis frá Borgarnesi og Akranesi, heldur af ferðafólki víðsvegar af Suður-, Norður- og Vesturlandi. hefir n. mælt með hlutafjárframlagi því, sem fyrr er greint.

Samgmn. gerir till. um, að eigi megi greiða hluthöfum arð af hlutafé þeirra í félaginu meðan ríkið stendur í ábyrgð fyrir félagið.

Þetta mál var rætt svo ýtarlega við 1. umr. og skýrt í grg. frv. og nál., sem fyrir liggur, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það. Að vísu eru hér fram komnar brtt. við frv. frá hv. þm. Barð. og Snæf., og munu þeir að sjálfsögðu mæla fyrir þeim. Verður þá tekin afstaða til þeirra frá hálfu samgmn.