26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1935

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Það var minnzt á það í síðustu orðum hv. þm. V.-Húnv., að menn mundu taka eftir, hvað mér hefði orðið erfitt um svör, og þá sérstaklega í landbúnaðarmálum. Það, sem ráðizt hefir verið á mig fyrir, er fyrst og fremst það, að ég hefi leyst mjólkurmálið og fengið samþ. l. um kjötsöluna, sem ég hefi hvorttveggja leyst. En það, sem umr. hér hafa aðallega snúizt um og ég vil vekja athygli á, eru svör fyrrv. landbúnaðarráðh. fyrir aðgerðarleysi hans í málinu. Annars ætla ég ekki að víkja sérstaklega að honum eða hv. þm. V.-Húnv., vegna þess að hér kom fram einn sérstakur þm., hv. þm. G.-K., sem vék að mér á einkennilegan hátt. Og af því að menn eru nú orðnir leiðir á þessu þjarki um sömu atriði, þá vil ég víkja nokkrum orðum að þessum hv. þm.

Menn munu afsaka, þó að ég víki frá efninu, því að hann gaf tilefni til þess. Hann var að beina til mín persónulegum meiningum. Ég er ekki vanur að vera persónulegur í ræðum mínum, en ég vil þó minnast lítið eitt á þetta atriði. Hann minntist á, að forsætisráðherra væri oft skoðaður sem höfuð stjórnarinnar, en núv. forsrh. væri aldrei kallaður það. Hann minntist á, að glottið, sem ég var með, hefði verið góðmannlegt eða hitt þó heldur. Þetta er meining um það, hvað ég sé einfaldur og mikið illmenni. Þetta er nú satt að segja það, sem alltaf hefir staðið í sjálfstæðisblöðunum síðustu 3 árin. Þar hefir verið mikið talað um, hvað þessi maður, Hermann Jónasson, væri mikið illmenni, heimskur, lyginn, hrokafullur, ofstopagjarn o. s. frv. Þetta hefir alltaf staðið í blöðunum nú í 3½ ár, og þessu hefir aldrei verið mótmælt, og eftir þeim sönnunargögnum, sem Morgunblaðið tekur gild, þá er þetta satt, þar sem því hefir ekki verið mótmælt.

Við skulum nú ganga út frá því, að þetta sé allt satt; ég er ekki hingað kominn til að mótmæla því. En því víkur þá eitthvað öðruvísi við með þennan hv. þm., því að þessi hv. þm. er alstaðar viðurkenndur fyrir gáfur og djúpskyggni. Menn kannast við þetta, það var viðurkennt strax í skóla. Þeir, sem með honum voru sáu, að hér var stórvitur maður, sá gáfaðasti í þeim bekk og jafnvel sá gáfaðasti, sem í skólann hafði komið. Það fór líka svo, að hann hætti brátt við nám, vitanlega af því, að hann var svo gáfaður, að hann gat þar ekkert lært.

En látum þetta svo vera. Það er sömuleiðis einkenni á þessum hv. þm., hvað hann er ákaflega mikið prúðmenni. Menn munu kannske segja sem svo, að það sé ekki mikil prúðmennska, að hafa það til að kalla menn asna, þöngulhausa og aula. Þetta hefir hann gert daglega. En þetta er eðlilegt, því að maðurinn er sjálfur tröll að gáfum, og því ofbýður honum aulaskapur þeirra manna, sem í kringum hann eru. Það er því von, að honum leiðist þessir einfeldningar. Þess vegna er það, að þegar hann er kominn til valda, þá eyðir hann þremur árum til að reyna að koma einum mesta einfeldningnum undir borðið. Það tókst samt ekki, en það stafar vitanlega ekki af því, að hann hafi ekki reiknað taflið rétt, heldur er það aðeins tilviljun. Og svo er verið að breiða það út um land, hvað þessi maður hafi gert mikla vitleysu í lögregluþjónamálinu og kollumálinu, og nú síðast er það breitt út, hvað heimskulega hann hafi hagað sér í lögregluþjónsmálinu og Björns Gíslasonar málinu. En alltaf gengur taflið öfugt við það, sem þessi hv. þm. hefir reiknað út, og það er ekki fyrir það, að hann hafi verr vit á þessu en aðrir þm., heldur er það eintóm tilviljun, eins og menn skilja, og það er eðlilegt, að þessum mikla manni gremjist þessi tilviljun.

Ég vil einnig minna á það í þessu sambandi, að það hlýtur að vera gremjulegt fyrir þennan hv. þm., þegar hann er daglega að standa hér upp og skýra mönnum frá því, hvað hann sé vitur og hvað hann búi yfir mikilli þekkingu, þá er það gremjulegt fyrir hann, að hann skuli aldrei geta komið neinum í skilning um þetta, en verður að horfa á alla þessa aula, sem hér eru í d., glotta eða jafnvel hlæja. Og því meiri leiðindum hlýtur hann að verða fyrir, þegar hann er að færa fram rök sín, sem hann færði fram viðvíkjandi sjávarútveginum, því að þessi vitri maður gat engan fengið þar til að skilja sig. Þar talaði hann um það, að á íslenzku skipunum væru beztu sjómenn heimsins, útgerðarmennirnir framúrskarandi miklir hyggindamenn, og fiskimiðin þau beztu í víðri veröld. En þrátt fyrir allt þetta, þá er allt komið í vandræði hjá sjávarútveginum, og svo ráðast þeir á stj. fyrir það. Okkur einfeldningana minnir nú samt, að þessi vísi þm. hafi stjórnað þessum málum undanfarin ár og hafi haft aðstöðu til að stjórna sjávarútvegsmálunum í gegnum þann ráðh., sem þar hefir verið fyrir Sjálfstfl. hönd.

Nú er svo komið, að það er almennt gert gys að þessum röksemdum og menn líta svo á, að vitanlega sé þetta tóm vitleysa, þessi hv. þm. hafi hlaupið á sig og verið að gefa sjálfum sér utan undir. Það er hlegið að þessu um allan bæinn. Ólafur Thors er kallaður Ólafur hinn ráðkæni. En það hlýtur að vera til mikillar gremju fyrir þetta andlega tröll, að gert sé gys að honum, þegar hann er að færa fram röksemdir, sem eru fyrir ofan skilning manna í þessari d. Slíkt hlýtur að verða mesta kvalræði fyrir slíkt andlegt tröll sem hann er. Við einfeldningarnir megum þakka fyrir að vera einfeldningar.

Ég þarf ekki langan tíma til að svara hv. 10. landsk., fyrst og fremst af því, að ég þarf þar ekki að taka fram annað en það, sem ég þegar hefi sagt, og sé ég ekki ástæðu til að fara að endurtaka það, sem hefir verið deilt um áður og verið færð rök að, að hann fór þar ekki rétt með. Hann sagði, að skipun kjötnefndarinnar hefði verið breytt, af því að sósíalistar hefðu heimtað að fá mann í nefndina. Ég vil bara sýna fram á það, hvernig þessi hv. þm. fer með rök, því að það er viðurkennt, að sá maður, sem er í kjötverðlagsnefndinni af hálfu Iðnsambands Íslands, er sjálfstæðismaður. Það eru því ekki sósíalistar, sem hafa gert kröfu til að fá mann í nefndina.

Það er einkennilegt, að þessi hv. þm. yfirgefur Framsfl. af því að hann vildi ekki leysa afurðasölumálið með honum, en nú er það viðurkennt hér á Alþingi undir umr., að nokkur hluti Sjálfstfl. hefir annað tveggja setið hjá, við atkvgr. um málið, eða þá beinlínis greitt atkv. á móti því. Það er því sannað, að hv. þm. var ómögulegt að leysa afurðasölumálið hér á Alþingi nema með stuðningi þess flokks, sem hann yfirgaf. Hefðu sjálfstæðismenn náð völdum, má telja nærri víst, að þeir hefðu allir verið á móti lausn þessa máls. En þegar svo er komið sem hér, að málinu er tryggt fylgi, þá gera sumir þeirra það kjósendanna vegna að ganga með því, til þess að geta svo veifað því á eftir, að þeir hafi verið málinu hlynntir. Til þess að sýna heilindi hins svonefnda Bændafl. í þessu máli, vil ég benda á eitt atriði. Þegar rætt var um verðjöfnunargjaldið, var því haldið fram af hv. þm. V.-Húnv., að það mætti ekki vera undir 10 au. á kg., og það var víst tvisvar talað um það af flokksmönnum Bændafl., að það hefði verið yfirsjón af stj. að setja það ekki upphaflega 10 au. En hvað skeður svo, þegar flokksblað þeirra, „Framsókn“, kemur út eftir að búið var að heimila, að gjald þetta væri 10 au. á kg.? Þá segir blaðið: „Og hvað segja bændur, sem selja á innlendum markaði, um stórfellda hækkun verðjöfnunarskattsins frá því sem nú er? Ætli mönnum finnist þeim veita af því verði, sem þeir nú fá, til þess að búrekstur þeirra geti borið sig?“ Þarna er beinlínis verið að ráðast á hækkun verðjöfnunargjaldsins, til þess eins að gera bændur á Suðurlandsundirlendinu óánægða. Þetta segir blaðið, enda þótt þm. V.-Húnv. hafi haldið því fram, að gjaldið hefði átt að vera 10 au. í upphafi. Svona snúast þessir menn bara eftir því, hvernig vindurinn blæs. Þeir hringsnúast eftir því sem þeir halda, að bezt sé í það og það skiptið. Þessi og þvílík er framkoma hv. 10. landsk. í þessu mikla hagsmunamáli landbúnaðarins, mannsins, sem sat við völd í tvö ár án þess að geta leyst málið. —. Vegna þess að tími minn er nú á þrotum, verð ég að láta nokkru ósvarað af því, sem ég hefði viljað svara.