03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það er ekki ýkjamargt, sem ég þarf að svara hv. 1. og 9. landsk. í þessu máli. Mér fannst rök þeirra ekki veigamikil. Vil ég þó víkja að nokkrum atriðum. Hv. 1. landsk. leiðrétti, að frv. hefði ekki komið frá skipulagsn., en ég hafði ástæðu til að ætla það, vegna bréfs til allshn. Eins og segir í nál. minni hl. allshn., töldum við, að þessu máli hefði frekar átt að vísa til menntmn. en allshn., og liggja til þess ýms rök. Útvarpið er nú í fyrsta sinn lagt undir kennslumálaráðuneytið, og hefir því ríkisstj. einnig réttilega álitið það heyra fremur til mennta- en atvinnumála. Er því næsta einkennilegt, að hæstv. stj. skyldi ekki vísa frv. til menntmn.

Hv. þm. vildi endilega taka upp nafnið dagskrárstjórn, en fella niður heitið útvarpsráð. Vildi hann byggja þetta á því, að vænta mætti, að orðið útvarpsráð yrði notað um annað ráð en snertir starfsemi útvarpsins, sem sé ráð það til eftirlits opinberum rekstri, sem nú er ráðgert að stofna samkv. frv. um þetta efni, er nú liggur fyrir þinginu. En í fyrsta lagi er nú óvíst, að þetta ómerkilega frv. verði samþ., og í öðru lagi mundi slíkt ráð ekki vera til í vitund almennings, jafnvel þótt það kæmist á laggirnar. Ennfremur á þetta ráð að fást við mörg önnur ríkisfyrirtæki en útvarpið og yrði því ekki sérstaklega tengt við það. Þetta nýja „ráð“ skiptir því engu máli hér í sambandi við yfirstjórn útvarpsstarfseminnar. Og mér þykir næsta einkennilegt, að ekki skuli mega nota áfram orðið „útvarpsráð“, sem í vitund allra útvarpsnotenda er talið gott og búið að ná festu í málinu. Tel ég alls ekki rétt að fella niður jafngott orð og taka í staðinn ekki fegurra né merkilegra orð en „dagskrárstjórn“.

Þá vildi hv. þm. fella niður það ákvæði l. að leita till. útvarpsráðs um skipun útvarpsstjóra. En fyrir því færði hann þó engin rök. Tel ég rétt og sjálfsagt, að útvarpsráð hafi þar till.rétt, þar sem það ætti að tryggja betri samvinnu útvarpsráðs og útvarpsstjóra. En skipi ráðh. útvarpsstjóra, er hætt við, að hann hafi tilhneigingu til þess að láta þar pólitík ráða, og gæti slíkt spillt samvinnu milli fyrrnefndra aðila.

Hv. þm. þótti það illa til fundið að láta í ljós, að útvarpsstjóri skyldi ekki hafa nein launuð aukastörf. En þetta er ekkert einstætt; svo er t. d. um dómara í hæstarétti. Ætti það að tryggja hlutleysi, að maðurinn tæki ekki fé frá flokkum eða stofnunum né væri þeim að öðru leyti háður. Enda er þetta ekki gert út í bláinn, þar sem það er vitanlegt, að útvarpsstjóri hefir nú allgóða fúlgu — 1200 kr. — fyrir eftirlit með viðtækjaverzluninni. Ég tel útvarpsstjóra líka svo vel launaðan, í samanburði við aðra starfsmenn ríkisins, að ekki sé ástæða til að láta hann hafa þennan feita bita.

Þá vildi hv. þm. ekki láta útvarpsnotendur fá aukinn íhlutunarrétt um kosningu í stjórn útvarpsins. Það eru þó þeir, sem standa að mestu leyti undir rekstri útvarpsins og eru aðalviðskiptamenn þess. Útvarpsnotendur eru nú um 9400, og fer fjölgandi. Með 30 kr. afnotagjaldi greiða þeir 282 þús. kr. á ári. Árið 1933 er rekstrarkostnaður við útvarpið kr. 243446.76. Tillag útvarpsnotenda ætti því að vera um 40 þús. kr. fram yfir kostnað. Það er því fullljóst, að þeir standa undir rekstri útvarpsins, og ætti því að vera sjálfsagt að veita þeim rétt til að kjósa meiri hl. í stjórn útvarpsins. Það gerir þá ánægðari og bindur þá tryggari böndum við stofnunina, ef þeir finna, að stjórn hennar hvílir að miklu leyti í þeirra höndum.

Um valdsvið útvarpsstjóra og útvarpsráðs, er þeir töluðu um, hv. 1. og 9. landsk., get ég látið nægja að vísa til umsagnar útvarpsráðs. Það telur það beinlínis veilu á frv., að ákvæðin um þetta séu ekki nógu skýr. Það mun tæplega hægt að hafa þetta atriði skýrara en það er nú í lögunum, þar sem sagt er, að útvarpsráð ráði menningarlegri starfsemi útvarpsins. Hygg ég, að þetta sé svo ljóst, að það geti ekki valdið misskilningi, nema um óeðlilegan reipdrátt milli útvarpsráðs og útvarpsstjóra sé að ræða.

Minni hl. á hér ennfremur brtt. um, að fastara sé kveðið að orði um hlutleysi útvarpsins, með því að orða málsgr. svo, að gætt sé fyllstu óhlutdrægni. Teljum við, að því aðeins sé þessu ákvæði vel borgið, að orðið „fyllsta“ standi á undan „óhlutdrægni“ í l., eins og verið hefir. Það eina orð hefir fallið úr frv. við sjáum ekki ástæðu til, að svo sé. Orðið er hér aðeins til áherzlu, og hér ríður mikið á, að rík áherzla sé lögð á óhlutdrægni.

Ég get ekki skilið þær röksemdir, sem hv. 1. landsk. færði fram fyrir því, að það væri óheilbrigt að fresta framkvæmd þessara l. hvað viðkemur kosningu útvarpsráðs. Hann taldi það óheilbrigt vegna verkamanna og bænda. Ég veit ekki til, að umkvartanir hafi komið frá þeim sérstaklega, og ég hygg, að menn hafi yfirleitt fellt sig við þá menn, sem hingað til hafa verið í útvarpsráði. Ég játa að vísu, að það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, sé heppilegra en það, sem verið hefir, en ég held þó, að það taki ekki svo mikið fram núv. skipulagi, að ég fyrir þá sök sjái ástæðu til að svipta þá, sem nú eru í útvarpsráðinu, stöðum sínum löngu fyrir þann ákveðna tíma. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá hafa þessir menn varið miklum tíma til að gera sig svo kunnuga þessu starfi sem æskilegt er. Er þá óheppilegt að flæma þá frá starfinu þegar þeir eru orðnir fullfærir um að gegna því.

Ég er alveg viss um, að það er varhugaverð braut fyrir Alþingi að leyfa mönnum ekki að njóta neins öryggis í störfum sínum í þágu ríkisins. Það er óheppilegur ótti, ef hann ætti að risa upp hjá öllum starfsmönnum þjóðarinnar í hvert sinn sem þing er sett á rökstóla, að þeir ættu það þá alltaf á hættu að verða flæmdir burt úr stöðum sínum. Ég verð því af réttlætisástæðum að leggja fyllstu áherzlu á, að þeir, sem nú eru í útvarpsráði, fái að sitja út sinn tíma.

Hv. 9. landsk. vildi draga inn í þessar umr. mál, sem kemur ekki þessu við. Það hefði sízt setið á honum að ympra á þeim tilmælum Sambands íslenzkra útvarpsnotenda, að menn, sem væru starfandi hjá útvarpinu, tækju ekki þátt í stjórnmálum. Minni hl. hefir ekki séð ástæðu til að taka þá till. upp. Ég veit ekki, hvað kemur þessum hv. þm. til að draga þetta atriði inn í umr. Ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni hans persónulegu starfsemi við útvarpið, en hann veit, að það eru margir útvarpsnotendur á landinu, sem bera tortryggni til hans vegna hans stjórnmálastarfsemi. Ég hefi lýst minni skoðun á þessu með því að taka ekki upp þessa till. Sambands ísl. útvarpsnotenda, en ég tel óheppilegt, að hann sé tilefnislaust að draga sína persónulegu starfsemi við útvarpið inn í þessar umr., en ég ætla ekki að fara frekar út í það.

Ég ætla, að till. okkar minnihl.manna í allshn. hafi fengið svo góðan rökstuðning við þessar umr., að ég þurfi ekki frekar að mæla fyrir þeim, þar sem útvarpsráðið og Samband ísl. útvarpsnotenda hafa nú mælt með þeim.