12.11.1934
Neðri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þetta frv., sem hér liggur fyrir nú, með því að ég tel hv. frsm. samgmn., en í þeirri n. á ég sæti ásamt fleirum, vera búinn að gera fulla grein fyrir áliti n. í öllum aðalatriðum. Það er engan veginn svo, að við nm. séum allir þannig bundnir, að ekki sé tiltækilegt, að við göngum inn á annað, ef bæði okkur og hlutaðeigendum sýndist það rétt vera. Nú hefi ég heyrt, að hv. aðalflm. frv., sem hér mætir sérstaklega fyrir Borgarnes og félagið þar, finnst ekki með þessu dreift allt of mikið ferðum félagsins eða þyngt þeirri starfsemi, sem félagið ætlar sér að hafa með höndum, og hann hefir lýst yfir því, að hann gangi að þessu fyrir hönd félagsins og héraðsins, þá hefi ég ekki á móti því, að þetta skip annist bæði Faxaflóa og Breiðafjörð. En það kom fram hjá tilkvöddum ráðunaut n., nefnil. hv. aðalflm. sjálfum, að verið gæti varasamt og óeðlilegt að binda í l., að þetta skip, sem er fyrst og fremst miðað við Faxaflóa, þyrfti að hafa ferðir á aðra staði. Það kom einnig fram í n., að ferðir á staði utan Faxaflóa yrðu aðallega til Breiðafjarðar, en á Breiðafirði eru margir staðir, sem ómögulegt er að binda skip við, því að það er svo með þessa smáfirði og víkur þar, að sumt er ókannað og sumt ekki fullkannað fyrir skip, og n. þótti því of varhugavert að binda skipið við að hafa þessar ferðir að einhverju eða öllu leyti. Nú er yfir þetta að sléttast, og því má ég og aðrir nm. vel una, ef allt fellur í ljúfa löð, og geri ég því ekki að kappsmáli, þótt ég ætti hlut í þessari till., sem koma átti í stað brtt., að hún verði samþ. En það vil ég taka fram, að ég er ekki samferða meðnm. mínum í því að vilja samþ. fyrir utan ábyrgðina, að ríkið kaupi hluti í þessu félagi. Það kom fram á sameiginlegum fundi samgmn. Ed. og Nd., að í uppsiglingu er erindi frá Djúpbátnum á Ísafirði, þess efnis, að þeir fái ríkið til að taka þátt í fyrirtækinu. Nú eru fleiri félög, sem ýmist eru þegar starfandi eða verða stofnuð til að annast flutninga og ferðir. Munu þau öll renna í þetta kjölfar, ef fordæmið verður veitt. Tel ég því afarvarhugavert, ef ganga ætti inn á þessa braut. Tel ég nægilegt að veita slíkum fyrirtækjum ábyrgð eins og tíðkazt hefir um nokkurra undanfarinna ára skeið, þótt það sé líka braut, sem eigi að hafa gát á, en á henni er svo langt komið, að ekki mun hægt að kippa að sér hendinni í þessu máli, sem er mjög nauðsynlegt. Ég tala hér einungis fyrir mitt leyti, þó ég hyggi, að aðrir nm. muni vera svipaðrar skoðunar. Ef form. samgmn. fer ekki fram á að fá málið tekið af dagskrá, til þess að leggja það enn fyrir n., þá er mín yfirlýsing sú, að ég get sætt mig við brtt. hv. þm. Snæf. og hv. þm. Barð.