03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Mér gengur stundum illa að skilja hv. 1. landsk., og ég gerði það vissulega ekki, þegar hann sagði; að ég sé á móti þessum ómerkilegu ráðum, sem eigi að stofna samkv. frv. um eftirlit með opinberum rekstri, en þó sé mér svo annt um eitt ráð, sem heiti útvarpsráð. Mér þykir augljóst, að einhver yfirstjórn þurfi að vera yfir útvarpinu, og um það eru allir sammála. Og ég vil halda í þetta góða nafn, sem sú stjórn hefir hingað til borið, en ekki þetta stirða heiti, „dagskrárstjórn ríkisútvarpsins“, sem meðmælendur þess hafa verið að stama fram.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um frv. um eftirlit með opinberum rekstri, en ég vil enn leyfa mér að kalla það ómerkileg ráð, sem þar á að stofna. Þetta eru 3 þriggja manna ráð, sem eiga að líta eftir ríkisfyrirtækjunum, svo sem landssímanum, pósti, útvarpi og skipaútgerð ríkisins, og er ráðgert, að þessi ráð komi saman einu sinni í mánuði. Og þá sér maður, hvort þau muni geta rannsakað nákvæmlega allar þessar ríkisstofnanir.

Hv. þm. hélt því fram, að það munaði litlu, hvort kennslumálaráðh. ætti að leita tillagna útvarpsráðs um setningu útvarpsstjóra. Ef svo er, vænti ég, að hann greiði atkv. með brtt. minni. Annars tel ég það mikinn mun, hvort ráðh. er þetta fyrirskipað eða ekki. Þeim fannst það, hv. sósíalistum hér í deildinni, í vinnumiðluninni, og þeim hefir fundizt það oftar. Mér er sem ég sjái þá ráðh. gera sér leik að því, að skipa útvarpsstjóra gegn till. útvarpsráðs. Hér er því aðhald fyrir ráðh., og er því nauðsynlegt, að honum sé skylt að leita þessara till., og er það einmitt spor í þá átt, að tryggja betri samvinnu milli útvarpsstjóra og útvarpsráðs.

Viðvíkjandi því, að hæstaréttardómarar séu í nefndum, þá hygg ég, að það komi sjaldan fyrir. Það væru þá helzt einhverjar nefndir, sem þeir væru í um stundarsakir samkv. beiðni ríkisstj., ef sérstaklega þyrfti að athuga einhverja sérstaka lagasetningu, en það getur aldrei orðið til langframa vegna embættis þeirra.

Hv. þm. segist gjarnan vilja fallast á að auka laun embættismanna svo, að þeir þurfi ekki að taka við launuðum aukastörfum. Hér er nú fyrsta sporið, og má gjarnan stíga það strax og halda svo áfram. Sýnist mér það fullkomlega réttmætt.

Hv. 9. landsk. segir, að engin sérstök ástæða sé til að taka tillit til útvarpsnotenda, þó að þeir beri uppi allan kostnað við rekstur þessa fyrirtækis, því að fólkið í landinu standi undir öllum opinberum rekstri. Þetta er rétt, en útvarpsnotendur eru sá hluti þjóðarinnar, sem stendur eingöngu undir rekstri útvarpsins. (SE: Það er nú allmyndarlega tekið tillit til þeirra). Það er rétt, en þó alls ekki nægilega mikið tillit.

Þá var það smáatriði, sem hv. þm. gat um, að tekjur útvarpsins af tilkynningum og auglýsingum voru á síðastl. ári 40 þús. kr., en í LR. 1932 voru þessar tekjur 15375 kr. Mér finnst þetta nú talsvert stórt stökk, en þó þetta kunni að vera rétt, þá skiptir það engu máli. Allir vita, að aðalstytta útvarpsins eru tillög útvarpsnotenda.

Þá vildi hv. þm. draga sína eigin persónu inn í umr. og var að segja, að ég hefði verið með skæting til sín, en þetta er ekki rétt. (SE: Ég sagði mildan skæting). En hann hefir í margra augum verið dálítið tortryggilegur vegna sinna pólítísku afskipta almennt og af ýmsum málum. Hv. þm. lætur sig álít útvarpsráðsins litlu skipta. Þar er þó í fyrsta lagi tekið fram, að kosning útvarpsráðsins sé óheppileg eftir till. frv., og í öðru lagi er lýst óánægju yfir því, hve mjög séu óljós ákvæði 5. gr. frv. um skiptingu valdsins milli útvarpsráðs og útvarpsstjóra. Ég tel fyllstu ástæðu til, að hv. þdm. taki tillit til þess, sem útvarpsráðið leggur til í sínu áliti um þetta mál.