26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

1. mál, fjárlög 1935

Finnur Jónsson:

Hv. síðasti ræðumaður, þm. Borgf., talaði mikið um rúm og rúmferð, enda er nú kominn háttatími. Mér virtist hann syfjaður og úrillur, enda að vonum, þar sem umr. hafa hallað svo mjög á flokk hann. (PO: Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það aukist mikið á þennan ímyndaða halla, þó að hv. þm. Ísaf. komi í pontuna). Það hefir verið rætt hér um afurðasölumálin og mikið um afurðasölu bænda, sem búið er að koma í sæmilegt horf, fyrir samstarf jafnaðarmanna og framsóknarmanna, gegn andstöðu stjórnarandstæðinga, sem þeir svo samt vilja þakka sér. Þá hefir og allmikið verið rætt um afkomu sjávarútvegsins. Hv. þm. G.-K. hefir lýst skipastól stórútgerðarinnar. Lýsing hans var ekki fögur: Skipin eru fúadallar, ryðkláfar og hálfónýt. Þannig er þá ástand útvegsins, þegar núv. stj. tók við völdum. Ástand fisksölunnar er þannig, að hér ríkir einskonar einkasala, þar sem ekki má flytja neinn fisk út nema með leyfi ríkisstj. Fisksalan er mest í höndum S. Í. F., þess félagsskapar, sem sjálfstæðismenn telja sjálfsagðan til að hafa fisksöluna á hendi. Þó er það svo, að félagsskapur þessi hefir ekki talið fært að leggja til að breyta til um verkunaraðferðir fiskjarins, enda þótt honum væri kunnugt um það síðan í apríl í fyrra, að ekki fengist selt til Spánar nema nokkur hluti þess fiskimagns, sem selt hafði verið þangað að undanförnu.

Þessu fyrirkomulagi vilja, sjálfstæðismenn halda. Þeir vilja leggja umsjá þessara mála í hendur þess félagsskapar, sem ekki hefir treyst sér til þess að benda á neitt til að breyta fiskframleiðslunni úr því horfi, sem hún er í nú, enda þótt allir sjái nauðsyn þess. Eina umbótin, sem Sjálfstæðismenn hafa bent á til lausnar þessum málum, er hið fræga „fiskiráð“, sem aðeins átti að hafa ráðgefandi vald og engin fjárráð. Stefna ríkisstj. er aftur á móti sú, að taka föstum tökum á þessu mikla vandamáli. Hún vill setja á fót stofnun, sem hefir þekkingu og vald til þess að gera það, sem nauðsynlegt er, svo útvegurinn þurfi ekki að stöðvast á miðri vertíð.

Auk þess sem Sjálfstfl. vill ekki hafa nema ráðgefandi nefnd til þess að ráða þessum málum, vill hann láta S. Í. F. halda áfram sem sérstaka stofnun undir forgöngu Kveldúlfs. Þó er reynslan sú, að mikill meiri hluti fiskeigenda heldur því fram, að fiskútflutningurinn hafi gengið mjög misjafnt og illa yfir. Hv. þm. G.-K. sagði nú reyndar rétt áðan, að á morgun skyldu liggja fyrir hlutfallstölur, sem sönnuðu það, að þessi ásökun á hendur S. Í. F. hefði ekki við rök að styðjast. Ég veit ekki, hvernig þessar tölur verða, en hitt veit ég, að Vestfirðingar liggja með allan sinn Spánarfisk óseldan ennþá. Það, sem þeir hafa flutt út, er til Portúgal og Ítalíu, en Spánarmarkaðurinn hefir verið lokaður fyrir þeim á þessu ári. Sjútvn. fór fram á að fá skýrslu um útflutninginn hjá S. Í. F., til þess að hnekkja þessum áburði, ef rangur væri, en sú skýrsla er ekki komin ennþá. Hvað dvelur hana, er mér ókunnugt.

Ég býst nú við, að þó svo hefði farið, að ekki hefði verið í annað hús að venda en til S. Í. F., þá hefðu ekki allir fiskframleiðendur tollað þar lengur, a. m. k. ekki í þakklátri viðurkenningu, eins og hv. þm. G.-K. vildi halda fram, að þeir ættu að vera. Hvað annars S. Í. F. snertir, þá hefir það svo einkennileg félagslög, ef fram ná að ganga till. nýafstaðins fulltrúafundar, að hvergi í landinu munu þekkjast önnur eins. Það er ætlazt til, að fyrst verði kosnir 3 framkvæmdarstjórar almennum kosningum, svo sé kosið fulltrúaráð, sem á að fá tækifæri til þess að koma einstöku sinnum saman til umræðu um fiskimál við framkvæmdarstjórnina. Þegar svo þetta er búið, á að fara að byggja félagið upp. Þetta mun alveg einstakt fyrirkomulag, enda var það svo, að nefnd sú, sem kosin var á fulltrúafundinum í haust, til þess að athuga framtíðarstarfsemi fyrirtækisins, var ekki einhuga um till. þá, sem fram kom, og má í því efni vitna til ummæla frsm. meiri hl. nefndarinnar á bls. 51 í skýrslu fisksölusamlagsins. Þar segir: „Kvað hann till. samþ. með 4:1 atkv., en tveir nefndarmanna sátu hjá“. M. ö. o., fjórir af 7 nefndarmönnum undirbúa lög þessa fyrirtækis. Tveir sitja hjá við atkvgr., en 1 greiðir atkv. á móti. l)

Til einkasölu á aðeins að grípa, ef ekkert annað er fyrir hendi, og ekki nema útgerðarmenn láti það undir höfuð leggjast að skipuleggja sín samtök, svo sem frv. gerir ráð fyrir. Ég býst ekki við, að til þess komi. Ég þori að fullyrða, að þegar frv. um fiskimálan. hefir verið rétt skýrt fyrir útgerðarmönnum, þá er ég viss um, að það fær fylgi meðal þeirra, og það er það, sem hv. þm. G.-K. er svo hræddur við. Hann óttast það, að frv. fái fylgi meðal útgerðarmanna. Hann er ekki hræddur við einkasölu á fiski, aðeins ef Kveldúlfur fær að hafa þá einkasölu.

l) Hér vantar talsvert inn í. F. J.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að fyrsta einkasala á saltfiski hér á landi var einmitt stofnuð af þessum hv. þm. Það er alkunnugt, að 1933 gerði hann tilraun til þess að reyna að kúga alla fiskútflytjendur inn í einkasölu S. Í. F. með því að reyna að fá ríkisstj. til að leggja háan skatt á alla þá, sem fluttu út fisk fyrir utan S. Í. F.

Ég fullyrði, að það er til fylgi við frv. um fiskmálanefnd innan sjálfrar sölustjórnar S. Í. F. Það má vel vera, að stjórn S. Í. F. sé á móti einkasölu og einnig á móti því, hvernig fisksölun. skal vera skipuð, en nokkur hluti hennar aðhyllist þá leið, sem farin er í frv. Sönnunin fyrir þessu er sú, að hún hefir engin mótmæli sent gegn frv. Ef stjórn S. Í. F. væri eins á móti frv. og hv. þm. G.-K. hefir sagt, þá efast ég ekki um, að stjórnin hefði verið búin að senda mótmæli gegn frv. Við skulum bíða við og sjá, hverju fram fer, en meðan mótmæli koma ekki fram, þá stendur óhögguð sú staðhæfing mín, að frv. um fiskimálan. hafi talsvert fylgi innan stjórnar S. Í. F., og mikið fylgi meðal ýmsra útgerðarmanna.