11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Þorsteinn Þorsteinsson [óyfirl.]:

Það var aðallega út af brtt. hv. 4. þm. Reykv., sérstaklega þeirri skrifl. brtt., er hann bar fram nú síðast, sem ég vildi hreyfa nokkrum orðum um þetta frv.

Ég skal geta þess, að hv. Nd. var búin að setja inn í frv. samskonar skilyrði og sett eru í brtt. þeirri, sem hér er komin fram. Skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp ákvæði það, sem hv. Nd. var búin að setja í frv.:

„Eigi má greiða hluthöfum arð af hlutafé þeirra í félaginu, meðan ríkið stendur í ábyrgð fyrir félagið“.

En þegar búið var að setja þetta skilyrði inn í frv., brá svo við, að menn vildu ekki lofa frekara hlutafé, og jafnvel ganga frá því, sem áður var búið að lofa. Þeir menn, sem stóðu fyrir að safna hlutafénu, urðu í þeim vandræðum, að þeir sáu ekki fram á annað en stöðva yrði byggingu bátsins, sem þó var búið að semja um smíði á. Forráðamennirnir sneru sér því til Nd., og ég hygg til hæstv. stj., og fyrir áhrif þaðan var frv.afgr. eins og það liggur nú fyrir þessari hv. d. Síðan hefir söfnunin gengið sæmilega um hlutafé. En ef við förum nú að samþ. þessa brtt. og taka upp aftur sömu ákvæði og áður voru felld, kemst málið í mesta vanda, og ég get jafnvel búizt við, að til þess leiði, að stöðva verði smíði skipsins, sem búið er að semja um, og kemst þá stj. og aðrir aðstandendur í mikinn vanda. Hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að hann vildi ekki stefna frv. í voða eða eyðileggja það með sínu atkv. Út frá þessum góða vilja þætti mér vænt um, ef hann vildi taka brtt. sína aftur, a. m. k. til 3. umr., því ég býst við, að það kæmi málinu í hinn mesta vanda, ef hún yrði samþ. Þetta held ég, að sé gangur málsins.

En úr því að ég stóð upp, vildi ég minnast dálítið á ferðirnar til Breiðafjarðar. Það var í samráði við mig, að 2 þm. í Nd., þeir hv. þm. Snæf. og hv. þm. Barð., báru fram till. um að skjóta því til hæstv. stj., að hún sæi um, að engar vanefndir yrðu á því, að skipið gangi ekki sjaldnar en ráð er fyrir gert og svo oft, sem nauðsyn krefur, til Breiðafjarðar. Er þetta mjög mikilsvert, einkum fyrir Gilsfirðinga.

Um brtt. hv. þm. N.-Ísf. er ekki nema allt það bezta að segja. Ég sé og heyri, að nauðsynlegt er að breyta þar til batnaðar, en ég held, að það væri heppilegra að flytja það í sérstöku frv. heldur en í sambandi við þetta; það getur orðið því til trafala.