11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér skilst, að þeir hv. þdm., sem tekið hafa til máls, séu allir fylgjandi frv. eins og það liggur fyrir. En í sambandi við brtt. þá, sem komin er fram, vildi ég segja örfá orð. Hv. þm. N.-Ísf. hefir að mínu viti réttilega lýst svo því ástandi um samgöngur í N.-Ísafjarðarsýslu, að það, sem gert verður af hálfu ríkisins til þess að bæta þær, hljóta að verða á sjó. Ég er honum alveg sammála um þetta, og einnig, að ríkinu beri skylda til að hlaupa undir bagga. En það gæti frekar greint á um leiðir. Hv. þm. stingur upp á, að byggður verði mótorbátur, sem hann gerir ráð fyrir, að kosti um 90 þús. kr., og ætlast til, að ríkið leggi fram hjálp í sama hlutfalli og til Borgarnesbátsins. Það má vel vera, að það sé rétt að haga þessu svona, án þess að ég sé viss um, að hér liggi fyrir þær upplýsingar, er gefi það fullkomlega til kynna. Það, sem mér skilst, að valdi miklu um fjárframlag til Borgarnesbátsins, eru þær almennu samgöngur, sem skipið á að annast og varða ríkið allt.1)